15.12.1949
Neðri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

41. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta mál á 2 fundum. Hún sendi það til landlæknis, sem mælti með, að frv. næði fram að ganga, og mælir n. einnig einróma með, að svo verði. Sú breyting er hér gerð á, að Selfosshéraði er skipt í tvennt: Selfosshérað og Hveragerðishérað. Í hinu nýja Hveragerðishéraði verður 874 manns, en eftir í Selfosshéraði verður samt sem áður 1.700 manns, en í venjulegu læknishéraði eru 800–900 manns, svo að Selfosshérað er samt sem áður stærra, en venjulegt læknishérað, en Hveragerði hefur viðunandi stærð. Fyrir nokkru var Eyrarbakkahéraði skipt, og eru um 1.000 manns í Eyrarbakkahéraði og um það bil helmingurinn í þorpinu. Það er löng leið frá Hveragerði til Selfoss; og lengra, en frá Eyrarbakka að Selfossi, svo að hafi verið ástæða til að skipta Eyrarbakkahéraði á sínum tíma, þá er full ástæða til að skipta Selfosshéraði nú og greina þessa 3 hreppa frá og mynda Hveragerðishérað, enda standa að baki þessu máli óskir þessara 3 hreppa, auk þess sem sýslunefnd Árnessýslu hefur skorað á Alþ. og landlækni að koma þessu í framkvæmd.

Þá vildi n. leggja til, að smábreyting, formsatriði, verði gerð á frv., þ.e. að breyta röð héraðanna í upptalningunni og auk þess að breyta nafni á Síðuhéraði í Kirkjubæjarhérað til samræmis við það, að læknirinn flytur nú frá Breiðabólstað á Síðu að Kirkjubæjarklaustri, en venjan er sú, að nafn héraðsins fari eftir aðsetri læknisins.