16.12.1949
Efri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

41. mál, skipun læknishéraða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan rifja dálítið upp gang þessa máls hér á Alþ. síðast, er þessi lög voru til umr., því að þau voru þá mjög umdeild, og skiptust menn þar einkum um tvær gerólíkar stefnur. — Í fyrsta lagi var stefna landlæknis, sem leit svo á, að fækka bæri læknishéruðunum og stækka þau, reisa þar spítala og hafa tvo lækna í stað eins í hverju, því að svo þyrfti að vera, þar sem spítalar væru. Rökstuddi hann þetta m.a. með því, að vegakerfi væri nú komið um allt land, ár brúaðar og samgöngur yfirleitt svo góðar, að hægara væri fyrir læknana að ná frá einum stað yfir stærra svæði. Með þessari stefnu kom hann því fram, að lagt var niður læknishérað austur á landi og reistur spítali á Egilsstöðum, sem þar hefur verið starfræktur síðan.

Hin stefnan var þveröfug við þetta, og aðalforvígismenn hennar voru þá þm. Str. og þm. Snæf. (GTh). Þar var því haldið fram, að læknishéruðin þyrftu að smækka, og í skjóli þeirrar stefnu var stofnað Borðeyrarlæknishérað og Suður-Snæfellsneslæknishérað, sem bæði hafa verið til á pappírnum síðan, enda þótt engir læknar hafi fengizt til þeirra. Síðan var kosin milliþinganefnd í málið samkvæmt till. 4. þm. Reykv. (HG), og átti hún að gera út um það, hvor stefnan skyldi verða ofan á um læknishéruðin. Sá maður, sem Sjálfstfl. treysti bezt og flaggaði með alls staðar, var skipaður í nefnd þessa, Gunnar Thoroddsen. Þar á eftir var hann svo settur í nefnd þá, er átti að fjalla um réttindi og skyldur embættismanna, og síðar í stjórnarskrárnefnd. Fyrir störf sín í læknishéraðanefndinni mun hann hafa fengið 2.000 krónur fyrsta árið. Hve mikið hann hefur fengið síðar, er mér ókunnugt. En frá nefndinni hefur ekkert heyrzt. En síðan lögunum var breytt síðast eru nú liðin 5 ár. Og nú er þetta mál búið að fara í gegnum Nd., og á nefnd þessa var þar ekki minnzt, nema því var hreyft eitthvað af 1. þm. Rang.

Ég vil nú krefjast þess af nefnd þeirri, sem þetta mál fær til meðferðar, að hún heimti að fá nú álit milliþinganefndarinnar skýlaust.

Yfir þeirri breytingu, sem ég gat um áðan, að gerð var á Austurlandi, er þar almenn óánægja. En sérstaklega er hún vegna þess, að þar hafa ekki alltaf verið tveir læknar við spítalann á Egilsstöðum. Annars er ég tilleiðanlegur til að halda, að stefna landlæknis sé sú, er eigi framtíðina fyrir sér. Og ég spái því, að það liði ekki á löngu — ekki mörg ár, þar til þm. Árn. óskar eftir fjárframlögum úr ríkissjóði til sjúkrahúsbyggingar á Selfossi, og síðan mun verða afar stutt þar til þeir heimta, að þar verði tveir læknar. Sú þróun mun vera sú eðlilega og heilbrigða, og vil ég biðja n. að athuga þetta. En alveg sérstaklega vil ég krefjast þess, að milliþinganefndin frá 1944 verði af n. krafin sagna um þetta mál. Henni ber skylda til að skila um það áliti. Það verður að teljast alveg kostuleg ráðstöfun að skipa aftur og aftur í slíkar nefndir menn, sem aldrei koma neinu frá sér. 7. þm. Reykv. (GTh) lét ekki sjá sig við neina umræðu um þetta mál í Nd., og því síður gaf hann í því sambandi nokkra skýrslu eða upplýsingar, og sú n., sem um málið fjallaði þar, óskaði víst heldur ekki upplýsinga frá honum.

Ég vil ekki verða neinn meinsmaður þess, að þarna verði bætt við læknishéraði; en auðveldara mun að fá þangað lækni en víða annars staðar. En ég vil beina því til n., að hún krefji milliþinganefndina upplýsinga í þessu máli, og eins að hún kynni sér, hvort landlæknir hefur sömu skoðun og áður eða honum hefur snúizt hugur, því ef svo væri, þá á að fá það upplýst.