16.12.1949
Efri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

41. mál, skipun læknishéraða

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. N-M.

Ég hygg, að það sé rétt, að þegar lög voru samþ. um breyt. á l. um skipun læknishéraða fyrir mörgum árum, þá hafi ég verið hlynntur því, að sérstök milliþn. væri skipuð til þess að athuga málið og gera till. um það. En að því er þetta mál varðar, þá hygg ég, að það liggi svo ljóst fyrir, að ónauðsynlegt sé að bíða eftir áliti fimm ára gamallar milliþn., því að þá væri ekki hægt að ljúka málinu fyrir áramót. Það, sem mælir með því, að þetta sé gert, er í fyrsta lagi það, að landlæknir mælir með þessari breytingu. Í öðru lagi er þegar víst, að læknir muni fást, og í þriðja lagi, að hrepparnir, sem þarna eiga hlut að máli, eru þessu mjög fylgjandi, og þegar hafa verið gerðar ráðstafanir og húsnæði fengið handa lækninum þegar eftir áramót. Auk þess er mér það vel kunnugt, að sjúkrasamlaginu vestan Ölfusár er þetta mjög mikið kappsmál, að l. um hið nýja hérað verði komin fyrir áramót. En hvað sem líður störfum og áliti milliþn. þeirrar, er hv. 1. þm. N-M. talaði hér um, þá er það þó alveg ljóst, að þetta læknishérað hefur hér sérstöðu að gegna. Það gildir hér ekki það sama og um þessi fámennu héruð, eins og Borgarfjörð eystra og önnur, þar sem ókleift hefur verið að fá lækni, en eins og ég tók fram áðan, þá er hægt að fá lækni í Hveragerði nú strax. Allt þetta er svo veigamikið, að það ætti að vera nægilegt til þess að rökstyðja afgreiðslu þess, án tillits til þess, hvort milliþn. leggi til, að það verði samþ. Vona ég svo, að deildin samþykki frv. og hraði afgreiðslu þess svo, að það geti tekið gildi um áramót.