16.12.1949
Efri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

41. mál, skipun læknishéraða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst það vera alveg nauðsynlegt að breyta 2. gr. frv., staflið a, en ég tel það hæpið að breyta því eins og hæstv. forseti hefur nú sagt. En hins vegar er það náttúrlega á valdi forseta að gera það, en ekki mínu. Ég geri ráð fyrir því, að þetta mál verði látið fara til nefndar eins og önnur mál og það þurfi ekki að hraða af greiðslu þess mikið. Ég hef ekki getað séð það í neinum gögnum, sem frv. fylgdu, að það þyrfti endilega að flýta þessu svo, að það yrði afgreitt fyrir áramót. Í 4. gr. segir að vísu: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1950“, en ég sé ekki, að það sé neitt aðalatriði. Mér finnst það sjálfsagt, að n. fái þetta mál til meðferðar og tali við héraðslækninn á Selfossi um þessa breytingu. Það væri ekki nema sérstök kurteisisskylda, því að þetta mál snertir hann óneitanlega mjög mikið fjárhagslega og það er ekki nema sjálfsagt að leita álits hans á því.

Ég ætla ekki að fara að ræða málið efnislega, en mikið af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um l. um skipun læknishéraða, er rétt. Um þetta var mikið rætt á sínum tíma. Það er vafasamur hagnaður að því að vera að fjölga læknishéruðum og auka á útgjöld ríkisins, ef ekki fást svo læknar til þess að gegna embættunum. Þess vegna er það rétt að fá að vita, á hvaða stigi störf milliþn. eru.

En ég vil hins vegar í sambandi við hina venjulegu rætni, sem virðist vera meðfæddur eiginleiki hjá þessum hv. þm., benda honum á, að honum hefði verið nær að bera fram fyrirspurn um þetta í Sþ., þar sem Gunnar Thoroddsen á sæti og gæti svarað ásökunum þessa hv. þm., heldur en að vera að baknaga þingbróður sinn og rægja hann hér í þessari deild, þar sem hann veit, að hann getur ekki tekið til máls og svarað þessum ásökunum hv. þm. Þetta athæfi hv. þm. er alveg óþinghæft og ber harðlega að víta, að nota hvert einasta tækifæri til þess að núa mönnum, sem ekki eiga sæti hér í deildinni, því um nasir, að þeir hafi ekki gert skyldu sína. Ég vil bara beina þeirri spurningu til hv. 1. þm. N-M., hvað hans ágæti vinur og flokksbróðir, Eysteinn Jónsson fyrrverandi menntmrh., hefur gert í þessu máli í sinni stjórnartíð. Hvers vegna hefur hann ekki spurt hann um þetta?

Að endingu vil ég svo mælast til þess, að hv. þm. legði niður þann ósið að vera að baknaga og rægja þingbræður sína öllum stundum, þegar þeir eru ekki viðstaddir til þess að bera hönd fyrir sig, sérstaklega af því að vitað er, að það er ekki allt sannleikanum samkvæmt, sem þessi hv. þm. fer með við þessi tækifæri.