19.12.1949
Efri deild: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

41. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv. á fundi, en hefur ekki haft tíma til að láta prenta nál. Frv. er komið frá Nd. og hefur nú verið prentað upp á þskj. 107 með leiðréttingu, og er þar nú komið, eins og hv. þm. sjá, Selfosshérað, sem af vangá hafði fallið burt. Formaður n. og einn nm. annar hafa átt tal við Lúðvík Norðdal héraðslækni á Selfossi, og sagði hann, að ekki hefði verið leitað til sín um þetta mál, og sagðist ekki geta mælt með því. En n. var sammála um að mæla með, að frv. nái fram að ganga, og verða þannig við óskum frá vesturhreppum Árnessýslu og óskar eftir, að frv. verði samþ. fyrir nýár.

Þá hefur komið fram till. frá hv. 1. þm. N-M. þess efnis, að Egilsstaðahéraði verði tryggður forgangsréttur að aðstoðarlækni. Og jafnframt þessu var n. tjáð, að landlæknir teldi, að væri till. þessi samþ., þá teldi hann þurfa nýja viðbót við frv., og hefði þá þurft að prenta allt frv. upp, og einnig vildi hann láta breyta nafni á l. og nefna þau l. um læknaskipun. N. var kunnugt um till. hv. 1. .þm. N-M., en vill ekki tefja fyrir afgreiðslu frv. með þessari brtt.