19.12.1949
Efri deild: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

41. mál, skipun læknishéraða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal verða stuttorður í sambandi við þetta mál. Ég hefði helzt kosið að fresta þessu, þar til heildarendurskoðun á þessari löggjöf hefur farið fram, og verði þessi brtt. samþ., þá mun ég bera fram heildartill., því að mörgu er þörf að breyta, og meginástæðan fyrir því, að ég var ekki með brtt., þegar hún kom fyrir í n., var sú, að það mun tefja málið, en ekki það, að ég sé raunar á móti henni. Þá hefur landlæknir sagt, að ef læknislaust væri á Seyðisfirði, en 2 læknar á Egilsstöðum, þá væri ófært að mega ekki hreyfa annan lækninn þaðan. Hvað viðkemur breytingunni í Árnessýslu, þá virðist hún ekki aðkallandi, og læknirinn á Selfossi, Lúðvík Norðdal, segist raunar vera á móti henni og hún sé þarflaus og heppilegra væri að setja þar aðstoðarlækni. En mér er ljóst, að þróunin stefnir í þá átt, að þetta verði sérstakt hérað, enda liggja fyrir óskir um þetta frá héraðsbúum og sýslunefnd, og mun ég því ekki verða á móti þessu. — Þá tel ég óhjákvæmilegt að kalla eftir áliti frá milliþn. í þessum málum, einkum þar sem landlæknir er form. hennar og gæti því rekið á eftir, að hún starfaði, og vil ég því ekki styðja till. hans, meðan n. skilar ekki áliti.

Þá vil ég algerlega vísa á bug öllum ásökunum á Gunnar Thoroddsen í þessum málum sem alveg tilhæfulausum. Ekki get ég heldur fallizt á framkvæmdir á Suður-Snæfellsnesi, þar sem ekkert hefur verið gert, síðan Stykkishólmshéraði var skipt, og óvíst, hvort héraðið hefur einu sinni verið auglýst, og árangurinn af þessari skiptingu er svo ekki annar en sá, að hálf læknislaun eru greidd til læknanna í Stykkishólmi og Ólafsvík, og hefur þetta því ekki annað í för með sér, en hækkuð laun til þessara lækna og þar með aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þá er Hesteyrar- og Ögurhéruðum þjónað af lækninum á Ísafirði og hefur hann með því móti um 20 þús. kr. í grunnlaun, hálf laun í Hesteyrar- og Ögurhéruðum og full laun á Ísafirði. Þessi háttur á heilbrigðismálunum er óþolandi og undarlegt, að menn skuli árum saman þola stjórn slíks landlæknis, sem einkum virðist hafa áhuga á að parta niður læknishéruðin.

Ég skal fylgja frv. út úr deildinni, en tel mikla þörf á að fá álit mþn., þar sem landlæknir er formaður.