29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er hér flutt á ný. Það var hér fyrir síðasta þingi og var þá afgr. með rökst. dagskrá um það, að því væri vísað til samkomulags milli Samábyrgðarinnar og Bátaábyrgðarfélagsins, hvort félagið héldi áfram þeirri undanþágu, sem það hefur haft fram að þessu. Þetta er að vísu dálítið óvenjuleg málsmeðferð hjá d., því að í mörg skipti áður hefur þingið veitt þessu gamla félagi undanþágu frá því að heyra undir l. frá 31. maí 1947 um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip og þar aðallega komið til mála hinn hái aldur félagsins. Það er um 80 ára gamalt og hefur með góðum árangri starfað sjálfstætt fram að þessu. Það er engum til skaða, þótt það sé til, því að það er góður viðskiptavinur Samábyrgðarinnar. En félagsmenn leggja mikla áherzlu á, að það fái framvegis eins og hingað til að starfa á sinn sjálfstæða hátt, og vil ég vona, að Alþingi og fyrst og fremst þessi d. fallist á, að svo megi verða.

Ég ætla, að það sé óþarfi með jafnmikilli grg. sem fylgir þessu frv. að orðlengja frekar um málið.

Ég mun svo, þegar málið kemur fyrir n., biðja hana þess að fá við hana að tala um þær samkomulagstilraunir, sem hún treysti og síðasta þing, að mundu bera góðan árangur, og skýra henni frá, hvað mér virðist milli hafa borið, þannig að árangur náðist ekki. Ég vil svo biðja um, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn. að þessari umr. lokinni.