11.12.1949
Efri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur, eins og hv. þm. er kunnugt, oft áður legið fyrir Alþingi, og er því efni þess vel kunnugt dm. Sjútvn. hefur nú haft málið til meðferðar og leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt. Málið hefur jafnan verið afgreitt þannig á undanförnum þingum, að veitt hefur verið tímabundin undanþága til handa Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja að starfa sjálfstætt. En undanþáguheimild sú, sem nú gildir, er bundin við næstu áramót, og ber því nauðsyn til að hraða meðferð málsins, svo að það geti orðið að l. fyrir ánamót. Á síðasta Alþingi var málið afgreitt þannig, að því var vísað frá í trausti þess, að viðkomandi aðilar gætu náð um það samkomulagi fyrir n.k. áramót. En þetta samkomulag hefur ekki náðst, og halda stjórnendur og meðlimir Bátaábyrgðarfélagsins fast við það, að félagið fái að starfa áfram óháð, og hafa sent til Alþingis erindi undirritað af 65 vélbátaeigendum um það, að frv. nái fram að ganga. Stjórn Samábyrgðarinnar hefur hins vegar lagt til, að gefin verði heimild í l., að ráðherra geti í samráði við Samábyrgðina veitt Bátaábyrgðarfélaginu undanþágu frá ári til árs til þess að starfa áfram á sama grundvelli og áður. Liggur í þessu viðurkenning á því, að það fyrirkomulag sé félaginu fyrir beztu, en Samábyrgðinni ekki til tjóns, eins og sakir standa. Þótti því n. rétt að mæla með því, að frv. verði samþ., einkum af því, að félagið hefur jafnan búið við góðan hag og átt þess kost að geta boðið viðskiptavinum sinum upp á betri kjör en Samábyrgðin. Raddir komu fram í n., aðallega frá hv. 4. landsk., um að tímabinda undanþáguna við 5 ár, en við nánari athugun þótti ekki ástæða til þess. N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.