11.12.1949
Efri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frsm., að n. leggur einróma til, að frv. þetta verði samþ. Hins vegar, eins og hv. þm. tók fram, hreyfði ég því í n., hvort ekki væri rétt að tímabinda þessa undanþágu, sem frv. gerir ráð fyrir, t.d. við 2 ár, en ekki 5 eins og hv. frsm. sagði. En þetta gerði ég m.a. af því, að ég tel rétt, að á þeim tíma, sem undanþágan gildir, sé unnið að því að samræma þetta undir eitt kerfi um land allt. Annars væri ástæða til að ræða nokkuð tryggingamálin almennt, því að þau munu nú ekki vera í því lagi, sem fyllilega er æskilegt. Ég held sem sagt, að þessar tryggingar, sem nú eru hjá Samábyrgðinni, séu í rauninni of lágar og ófullnægjandi fyrir bátaútveginn með því verðlagi, sem nú er í landinu, og ef þessi rekstur Bátaábyrgðarfélagsins í Vestmannaeyjum og undanþágan, sem þeir óska eftir að fá, er byggð á því, sem mér skilst að sé, að draga úr tryggingum þeirra báta, sem í því félagi eru, þá held ég, að þar sé ekki stefnt í rétta átt. Ég álít ástæðu til þess að endurskoða þessi tryggingamál í heild, þ.e.a.s. lögin um Samábyrgðina verði endurskoðuð með það fyrir augum, að það sé gengið betur frá tryggingum flotans, en gert er samkvæmt þeim l. Ég er dálítið hræddur um, með þeim erfiðleikum, sem bátaflotinn nú á í, að það verði nokkuð erfitt fyrir eigendur bátanna að fá út á þá þau lán, sem þeim eru nauðsynleg til að geta haldið rekstrinum áfram næstu ár, ef þeir eru ekki betur tryggðir en nú, sízt af öllu hjá þeim félögum, sem hafa kannske enn þá veikari tryggingu, heldur en er samkvæmt l. um Samtrygginguna. Ég impraði því á því í n., að það hefði verið rétt að veita þessa undanþágu nú um stuttan tíma og á þeim tíma færi fram slík endurskoðun á tryggingunum almennt sem ég minntist hér á. Ég held, að þá hlyti að verða hægt að fá þann grundvöll fyrir þessar tryggingar um land allt, að ekki væri ástæða til að undanþiggja einstök félög, heldur ætti sú regla, sem þá yrði sett, að gilda fyrir landið allt. Ég hef hins vegar ekki gert um það neina brtt. á þessu stigi, og vafasamt, að ég geri það undir meðferð málsins, en ég hef talið rétt að láta þessa skoðun koma fram, og það er sú skoðun, sem liggur til grundvallar því, að ég impraði á því, að þessi undanþága væri ekki höfð ótímabundin, heldur t.d. 2 ár, og sá tími yrði notaður til að endurskoða þessi mál í heild. Ég flyt sem sagt ekki um þetta brtt., en mér þætti ekki ósennilegt, að eigendur þeirra báta, sem undir Samábyrgðina heyra, muni fyrr en síðar telja sig knúða til þess að óska eftir einhverjum breyt. á þessum grundvelli trygginganna, og því þykir mér sennilegt, að þetta geti komið á dagskrá aftur með þeim hætti, að þetta yrði samræmt meira en nú er og einstök félög ekki undanþegin. Ef það er svo, að rekstur og fyrirkomulag þessa félags í Vestmannaeyjum er hagkvæmara en almennt gerist hjá Samábyrgðinni, þá ætti að vera hægt að styðjast við þá reynslu og leggja hana til grundvallar fyrir þeirri endurskoðun, sem ég tel æskilegt að fram fari á þessum málum, þá væri hægt að nota það til hagsbóta, ekki aðeins fyrir Vestmannaeyjar, heldur fyrir landið allt, ef það er til fyrirmyndar.