19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Pétur Ottesen):

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi hér á Alþ. Frv. var borið fram í Ed. og gekk í gegnum þá deild, án þess að nokkrar breytingar væru á því gerðar. Þess má og geta, að sjútvn. Ed. stóð einhuga að afgreiðslu málsins.

Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hefur, þrátt fyrir ákvæði gildandi l. um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, fengið leyfi til þess nú um skeið að halda áfram sjálfstæðri starfsemi. Félagið hefur fengið undanþágur fyrir því, en ávallt tímabundnar, og hefur sá tími verið lengst 2 ár í senn, en nú síðast eitt ár, og rennur það leyfi út um næstu áramót. Vestmanneyingar hafa jafnan sótt fast að mega reka félag þetta áfram, en það er elzta félag þessarar tegundar hér á landi, og hefur það um næstu áramót starfað í 87 ár. Fyrir Alþ. liggur nú fyrir áskorun frá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, eða stjórn þess, og frá eigendum og útgerðarmönnum 67 skipa í Vestmannaeyjum, og er hér um samhljóða áskorun að ræða, að Alþ. veiti félaginu starfsleyfi áfram. En þrátt fyrir þetta eru og verða náin tengsl á milli þessa félags og annarra bátaábyrgðarfélaga í landinu, sem l. um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip taka til, enda kaupir félagið allar endurtryggingar hjá Samábyrgðinni, og hefur — þessi sérstaða félagsins að engu valdið vandræðum fyrir heildarstarfsemina á þessu sviði.

Sjútvn. hafði orðræður við forstjóra Samábyrgðarinnar, og var hann sammála n., að félagið fengi að halda áfram starfsemi sinni. Fátt eitt bar því í milli forstjórans og sjútvn. Þó varð nokkur skoðanamunur um það, hvort eða hver leið væri valin í veitingu þessarar undanþágu. Þetta kemur fram í bréfi, sem stjórn Samábyrgðarinnar sendi Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, dags. 5. sept. s.l., en það er prentað í grg. með frv., en þar er lagt til, að félaginu verði gefnar svipaðar undanþágur, til 2–3 ára í senn, en slíkt hefur tíðkazt undanfarið. Hér ber því ekki í milli að félagið starfi áfram, heldur aðeins um leiðina. Hér virðist því bera að sama brunni, en Alþ. hefur alltaf vald til að grípa inn í, þótt starfsemi félagsins sé færð í fastari skorður, ef í ljós kæmi, að starfsemi félagsins kæmi í bága við heildarstarfsemi bátatrygginganna í landinu. — Ég hef svo ekkert frekar um þetta að segja af hálfu n., en hún leggur til, að frv. verði samþ.