16.05.1950
Efri deild: 111. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

Starfslok deilda

forseti (BSt):

Dagskrá þessa fundar er lokið, en ég geri ráð fyrir, að enn þurfi að halda fund í deildinni, og er hann hér með boðaður að loknum fundi í Nd. í kvöld, en þar sem hugsanlegt er, að verkefni þess fundar verði lítið eða ekki neitt, en slíkt sést ekki fyrir fram, þá vil ég nota tækifærið til að ganga frá afbrigðum. Ég fer því fram á að fá umboð deildarinnar til að ég og skrifarar gangi frá síðustu bókunum fundargerða í deildinni, sem ekki hafa verið staðfestar enn, og þessa fundar, sem nú er haldinn, og þess fundar, sem væntanlega verður haldinn síðar í kvöld. Og skoða ég það samþ., ef enginn mælir því í mót. — Ég vil svo nota tækifærið til að þakka hv. deildarmönnum fyrir ágæta samvinnu á þessu langa þingi, og hygg ég, að aldrei áður hafi verið haldnir svo margir fundir í þessari hv. deild á einu þingi, en allan þann tíma hefur samvinna deildarmanna við mig verið hin ánægjuríkasta, og vil ég mikillega þakka það, og fari svo, að við sjáumst hér fáir í kvöld, vil ég nota tækifærið til að óska þeim hv. þm., sem eiga heima utan Reykjavíkur, góðrar heimkomu og heimferðar og öllum hv. þm. árs og friðar.