20.12.1949
Efri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. hafi ekki vitað af þessum fundi, annars mundi hann hafa verið hér til þess að undirstrika nauðsyn þessa frv., sem Nd. hefur nú raunar viðurkennt. Ef söluskatturinn yrði felldur niður, yrði að finna a.m.k. aðrar 33–36 milljónir til þess að mæta útgjöldum á fjárlagafrv., eða fella niður útgjaldaliði sem því svaraði. — Söluskatturinn er í lög tekinn í sambandi við svokallaðar dýrtíðarráðstafanir, og hefur hann verið einn meginþáttur laganna, sem sett voru til þess að afla fjár til þeirra ráðstafana, og þó ekki hrokkið til. — Annað í III. kafla dýrtíðarlaganna eru tollar og leyfisgjöld, sem vel má vera, að séu að einhverju leyti óheppileg, en þótti samt þörf á til að mæta útgjöldunum á síðasta þingi. Og væru þeir liðir úr gildi felldir nú, gæti myndazt bil framan af árinu, þar sem þessir tollar og skattar yrðu ekki innheimtir, en yrðu svo e.t.v. í lögum síðar á árinu. Það væri óheppilegt, og ég held þetta sé ástæðan fyrir því, að Nd. féllst á að láta þá halda áfram til 1. febrúar.

Er ég samdi fjárl., tók ég aðeins söluskattinn með það fyrir augum að halda honum sem tekjuöflunarlið, hliðstætt við það, að á 19. gr. var tekinn inn 331/2 millj. kr. útgjaldaliður til niðurgreiðslu á vörum.

Annars skal ég ekki ræða þetta frekar nú. Ég geri ráð fyrir því, að deildin fallist á, að ekki sé hyggilegt að láta þennan tekjustofn falla niður fyrst um sinn.