17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Eins og hv. form. sjútvn. drap á, hefur sjútvn. ekki viljað skorast undan því að verða við þeim tilmælum ríkisstj. að flytja þetta frv., en hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um fylgi við frv., og tekur það til mín og máske fleiri manna í n. Ástæðan fyrir því, að ég er andvígur þessu. frv. um að framlengja þann rétt, sem hér er um að ræða, er sú, að það er ákaflega brýn og alveg óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Íslendinga að beita sér fyrir því af alefli að geta fengið sér til handa afmarkaðan nokkru rýmri rétt á fiskimiðum við strendur landsins, en nú er. Við urðum fyrir því óláni ásamt mörgu öðru í sambúðinni við Dani, að þeir gerðu um síðustu aldamót, að Íslendingum forspurðum, samninga við Englendinga um 3 mílna landhelgi hér við land, en samkv. fornum l. hafði landhelgin áður verið 4 mílur. Þessi breyting hefur haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga og einkum og sér í lagi í sambandi við það, að þá voru að hefjast hér við land botnvörpuveiðar, sem mjög hafa færzt í aukana síðan og alltaf orðið stórvirkari og stórvirkari, með þeim afleiðingum, að sýnileg fiskþurrð er að verða við strendur þessa lands, og er nú svo komið, að segja má, að allar horfur séu á því, ef ekki verður breyting á, að útlendir fiskimenn, sem sækja mjög á þessi mið, muni bráðlega éta Íslendinga upp úr skinninu, ef svo mætti að orði komast. En nú hafa af hálfu Íslendinga verið bornar fram óskir, sem miða að því að bæta úr þessu. Einn þáttur þeirra óska okkar er að reyna að njóta þeirrar aðstöðu, sem við höfum í samstarfinu við hinar frjálsu þjóðir, til að leggja grundvöll að þessu máli, sem okkur gæti orðið nokkurt lið að. Það var vel á veg komið og undirbúið í hafrannsóknaráði, sem fulltrúar helztu fiskveiðiþjóða Norðurlanda eiga sæti í, að hér yrði haldinn fundur í sumar, þar sem ákveðin yrði friðun Faxaflóa um tiltekinn tíma sem einn þáttur í undirbúningi þess að hefja hér víðtæka friðun á fiskimiðum við landið, og mar ekki annað vitað, en að þær þjóðir allar, sem fulltrúa áttu í hafrannsóknaráði, þar á meðal Englendingar, stæðu að því, að þessi tilraun yrði gerð, og var búið að ákveða bæði stund og stað á s.l. sumri, þegar þessi fundur skyldi haldinn. En þegar til alvörunnar kom, skárust Englendingar úr leik og neituðu að senda fulltrúa á þennan fund, og þar sem Englendingar tóku Íslendingum svo í þessu máli, fórst þetta fyrir. Englendingar hafa þannig ekki viljað afsala sér þeim réttindum, sem þeir öðluðust í samningunum við Dani, að Íslendingum forspurðum, og vildu þar af leiðandi ekki slaka til um þessi mál. Aðrar þjóðir hafa svo farið að dæmi þeirra, og má náttúrlega gera ráð fyrir, að við getum einnig af þeirra hálfu mætt andstöðu í sambandi við kröfur okkar. Ég álít því mjög varhugavert fyrir Íslendinga að veita einni eða annarri þjóð þann rétt, sem Íslendingar einir hafa nú um veiði innan þriggja mílna landhelgi, en það er það, sem farið er fram á, að gert verði eftirleiðis, eða þann tíma, sem gert er ráð fyrir að l. um þetta efni taki til. Ég álít mjög varhugavert að vera enn að framlengja þennan rétt, sem vitanlega var með öllu úr sögunni við sambandsslit Íslands og Danmerkur. Ég vildi þess vegna fyrir mitt leyti frekar hvetja til þess, að þetta frv. næði ekki fram að ganga nú og horfið yrði frá því að veita þennan rétt, því að það mundi geta valdið okkur nokkrum erfiðleikum í þeirri sókn, sem við eigum nú fyrir höndum og verðum óhjákvæmilega að hefja um að færa út landhelgina í kringum strendur landsins, því að ekki er ólíklegt, að þeir menn, sem við mundum með þeim hætti stjaka frá um fiskimið við útfærslu landhelginnar, mundu benda til þess, að þarna væri einni erlendri þjóð veittur réttur, og mundi ekki þykja mikið samræmi í slíkri framkomu af hálfu Íslendinga.

Ég vildi láta þessi orð falla um þetta frv., um leið og ég lýsi þeirri afstöðu minni, að ég er andvígur framgangi þess.