17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Ég get ekki fallizt á það, sem hæstv. dómsmrh. hélt fram, að ég hafi blandað saman óskyldum málum, og þóttist ég gera fullskýra grein fyrir því í minni fyrri ræðu, að ef við verðum að gera einhliða samþykkt um að færa út landhelgina, þá getum við ekki komizt hjá erfiðleikum í viðskiptum við aðrar þjóðir, sem við viljum bægja frá okkar landhelgi, ef þessi réttindi Færeyinga verða látin haldast. Hvað mundu þeir útlendingar segja, sem við vildum reka úr okkar landhelgi, þegar við höfum ekki einasta veitt einni þjóð rétt til fiskveiða í landhelgi, heldur og veitt henni atvinnurétt í landi? Ég held, að aðstaða okkar í þessu tilfelli yrði allerfið. Ég vil því mótmæla þeim skilningi hæstv. dómsmrh., að ég hafi blandað saman tveim óskyldum málum. Mér finnst fara vel á því, að samningnum við Breta skuli hafa verið sagt upp, og ber að þakka það, en það hefði ekki farið síður vel á því, að samtímis hefði verið niður felld sú undanþága, sem hér um ræðir. Það hefði verið í samræmi hvað við annað. Hæstv. dómsmrh. heldur því fram, að það geti valdið erfiðleikum í samningum Íslendinga við Dani, ef þessi réttindi eru niður felld. Ég get ekki heldur fallizt á þetta sjónarmið. Hæstv. ráðh. nefndi tvö atriði, handritin, sem við höfum skýlausan rétt til og eigum að guðs og manna lögum, og svo kröfu Íslendinga til Grænlands. Varðandi handritin er vitað, að við eigum þau, en á sínum tíma var það eina leiðin til þess að bjarga þeim frá skemmdum að koma þeim í bili í betri geymslu, en hér var til, og þannig eru þau flest til Danmerkur komin og mikill hluti þeirra fyrir milligöngu íslenzks manns, sem um aldamótin 1700 innti hér af hendi jarðamat og hafði því óvenjugóða aðstöðu til þess að ná þessum handritum. Þannig er ástatt um handritin. Íslendingar eiga þau með fullum rétti, og það er aðeins tímaspursmál, hvenær Danir sjá sóma sinn í því að skila þeim aftur. Við vitum, hve langan tíma það tók að endurheimta hið glataða sjálfstæði, svo að við kippum okkur ekkert upp við það, þótt það taki sinn tíma að endurheimta handritin. Íslendingar fá þau, eins og þeir endurheimtu sjálfstæði og frelsi, og það á að geta gerzt án þess að við offrum fyrir það dýrmætum réttindum. Viðvíkjandi Grænlandi dettur mér ekki í hug, að við fáum rétt okkar viðurkenndan nema fyrir alþjóðadómstóli. Ég hef fyrir löngu vakið athygli á því máli hér á Alþingi, og ef þeirri rödd hefði verið gaumur gefinn, þá er ástæða til að ætla, að dómur væri nú fallinn. Málinu hefur þó nokkuð þokað áfram, svo að það er nú í athugun hjá færustu lögfræðingum þessa lands, og efast ég ekki um, að málstaður Íslands reynist góður og gildur og til úrslita dragi innan skamms. Hins vegar kemur ekki til mála að semja við Dani um nokkurn rétt á Grænlandi, fyrr en úr því er skorið, hver réttur okkar er, og það hlýtur að verða gert alveg án tillits til þess, hvort Færeyingar hafa þessi réttindi eða ekki. Við þurfum náttúrlega ekkert að semja við Dani um Grænland, ef rétturinn fellur okkar megin, en ef hann gerir það ekki, þá fer það eftir atvikum, hvað við þurfum að semja um. Það hefur verið talað um það, að þessi réttindi, sem Færeyingum eru veitt með frv., séu Íslendingum lítils virði, og ef þau eru lítils virði fyrir Íslendinga, þá eru þau sennilega einnig lítils virði fyrir Færeyinga. En það þykir þó ómaksins vert af hálfu Dana, sem ráða og regera á færeyskri grund, að leita eftir þessum réttindum, enda eru þessi réttindi svo mikil, að Færeyingar geta flutt svo og svo mikið af fiskiflota sinum til veiða innan íslenzkrar landhelgi, og þeir geta einnig sett sig niður hér og hvar um landið og gert út. Auk þess geta þeir siglt skútum sínum inn á hvern vog og stundað handfæraveiðar upp við landsteina. Þetta eru því ekki lítilsverð hlunnindi, og þegar fiskigöngur koma skyndilega upp að landi, eins og sjómenn kannast við, þá geta þeir eyðilagt mikla veiði fyrir íslenzkum skipum. Og enda þótt í frv. standi, að réttur þeirra sé eingöngu bundinn við fiskveiðar á handfæri, þá held ég, að í framkvæmdinni séu það minnst handfæraveiðar, heldur hreint og beint venjulegar línuveiðar og lóðaveiðar, sem þeir stunda, og það er gert í skjóli þeirrar undanþágu, sem í þessu frv. felst. Mér skildist að vísu á hæstv. dómsmrh., að þetta væri að kenna slælegri landhelgisgæzlu, og væri þá gott að fá um það nánari upplýsingar.

Að lokum vil ég svo undirstrika það, að hér er ekki um þýðingarlítið mál að ræða, og það getur strítt í verulegum atriðum á móti íslenzkum hagsmunum, og höfuðgallinn er sá, að hægt er að benda á þessi fríðindi Færeyinga sem röksemd gegn því, að við færum út okkar landhelgi.

Ég held svo, að það séu ekki fleiri atriði, sem ég sé ástæðu til að taka fram að sinni, og þykist ég hafa gert skýra grein fyrir þeirri afstöðu minni að mæla gegn þessu frv.