17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins mæla nokkur orð með þessu frv., eins og ég hef á undanförnum þingum mælt með samhljóða frv. Ég hygg, að Íslendingar hafi ekki orðið varir við neinar búsifjar af því, þótt Færeyingar fengju þessi mjög takmörkuðu réttindi, sem þeir áður höfðu. Meðan ekki er lokið samningum milli Íslands og Danmerkur, tel ég rétt að verða við þessari ósk okkar gömlu og góðu vinaþjóðar, Færeyinga, einkum þegar þess er gætt, að hér er bæði um takmörkuð og tímabundin réttindi að ræða. Varðandi endanlega samninga milli Íslands og Danmerkur væri æskilegt, að þeim væri hraðað, eftir því sem föng eru á, en eins og utanrrh. réttilega tók fram, eru það einkum tvö atriði, sem á stendur, án þess þó að um sé að kenna viljaleysi samningsaðila. Annars vegar eru handritin, en þar er okkar siðferðislegi réttur ótvíræður, hvað sem hinum lagalega líður, enda mun nú vera vaxandi skilningur Dana á þessum ótvíræða rétti okkar. Dönsk nefnd mun nú fjalla um þetta mál af hálfu Dana, og skilar hún væntanlega áliti innan skamms, og tel ég, að við getum verið vongóðir um úrslitin. — Um hitt málið, það er að segja Grænland og rétt okkar til þess, er það að segja, að sérstök n., sem hæstv. utanrrh. hefur skipað og í eiga sæti færustu menn okkar í lögum og rétti, hefur málið til athugunar, og væri æskilegt, að sú n. gæti skilað áliti svo fljótt sem auðið er, til þess að kleift sé að ljúka samningum við Dani fljótt. Það er óskandi, að við getum leyst þessi lokaskipti við okkar gömlu og góðu vinaþjóð, enda þótt stundum hafi kastazt í kekki, á friðsaman og farsælan hátt, og í von um, að þessara endanlegu samninga verði ekki langt að bíða, tel ég heppilegt og rétt að samþykkja þessi takmörkuðu og tímabundnu réttindi til handa Færeyingum, sem þeir hafa hér haft og óska eftir að halda fyrst um sinn.