20.12.1949
Efri deild: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég varð ekki var við, að óskir kæmu fram um það, að þetta frv. færi til n., en ég teldi þó rétt, að svo væri. Í því sambandi vildi ég vísa til mótmæla, sem komu fram í hv. Nd. móti þessu máli, og enn hefur það borið við, sem ég tel mér skylt að segja frá hér í þessari hv. d., að mér hafa borizt mjög mikil mótmæli frá mínu kjördæmi gegn einmitt þeim réttindum Færeyinga að fiska hér með þilskipum á handfæri. Þetta kann að þykja undarlegt, en þeir málavextir eru fyrir hendi, að þorsknetaveiðar færast í aukana í Vestmannaeyjum og afkoma þeirra byggist einmitt á þeirri tegund veiða. Í seinni tíð hafa borizt miklar umkvartanir yfir því, að færaskip Færeyinga trufli þessa veiði, vegna þess að niðurburður af fiski, þar sem þorskanet eru, raskar fiskveiðum á þessum slóðum. Ég mundi því leggja fram þessi mótmæli við sjútvn., og væri það því hennar að meta, hvort þau skyldu að einhverju höfð, sem ég ætla, að hún hlyti að álíta. Ég sé mér ekki fært að koma þeim að öðruvísi, en segja frá þeim. Ég sé ekki heldur, að þetta mál sé svo aðkallandi, að það þurfi endilega að afgreiðast, áður en þingi er frestað. En jafnvel þótt svo væri, þá skal ég ná í þessi plögg og afhenda þau hv. n., svo að hún gæti fljótlega á þau litið. Með tilliti til þessa vildi ég mjög æskja, að málið yrði tekið til meðferðar í sjútvn., áður en 2. umr. þess fer fram.