16.01.1950
Efri deild: 35. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir málið og þykir mér niðurstaða hennar vera mjög sanngjörn. Að svo miklu leyti sem það kemur undir mína gerð að afgreiða þetta mál og framkvæma óskir hv. n., þá skal það verða gert. Ég vil þó taka fram, að ekki er fært fyrir okkur að banna með öllu Færeyingum né öðrum þjóðum veiðar á netasvæðunum öllum, nema með breyttri og stækkaðri landhelgi. Það væri að vísu hægt að setja l. um friðun fiskigangna kringum landíð, en óvíst er, hvort önnur ríki mundu viðurkenna slíka einhliða ráðstöfun um bann við fiskveiðum á ýmsum góðum fiskveiðasvæðum. Til slíkra ráðstafana þyrfti því að sjálfsögðu milliríkjasamninga. Þetta vildi ég aðeins taka fram út af því, að talað hefur verið um í sambandi við þetta mál að banna Færeyingum með öllu veiðar á netasvæðunum sunnanlands, sem vitað er að ná á ýmsum stöðum út fyrir núverandi landhelgislínu.

Ég vil svo þakka hv. n. góða niðurstöðu og skora á hæstv. forseta að hraða málinu í hv. deild, því að í frv. er miðað við, að þessi l. taki gildi um áramót.