16.01.1950
Neðri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

9. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta var til athugunar í fjhn. Fjhn. sendi það á sínum tíma til Tóbakseinkasölu ríkisins til athugunar og umsagnar. Svar hefur borizt frá forstjóra Tóbakseinkasölunnar, og er bréf hans birt sem fskj. með nál., á þskj. 214. Í bréfi þessu lýsir forstjórinn sig samþykkan því, að sú breyt. verði gerð, sem frv. fjallar um. Hann getur þess að vísu í bréfi sínu, að hann teldi nægilegt að lögfesta ákvæði 2. gr. frv., sem er um það, að ríkisstj. ákveði hámarksverð tóbaks í smásölu og skuli það vera hið sama um allt land, og þá muni hin breyt., sem 1. gr. frv. hljóðar um, koma af sjálfu sér. Ég tel aftur á móti, að réttara sé að láta 1. gr. frv. standa, þar sem sagt er, að Tóbakseinkasalan skuli greiða kostnað við flutning á tóbaki til verzlunarstaða innanlands, vegna þess að það er undantekning frá reglunni. Venjan er sú, að smásöluverzlanir verða að borga flutningskostnað fyrir þær vörur, sem þær kaupa frá heildsölum í Reykjavík, en heildsalarnir borga ekki þann kostnað. — Eins og fram kemur í nál., mælir fjhn. með því, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.