31.01.1950
Neðri deild: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

101. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli deildarinnar á því, að engir möguleikar munu vera á því, að fjárlög verði afgreidd fyrir 1. marz, og sýnilegt, að það hlýtur að koma til frekari framlengingar. Þar sem hér er ekki um neina heimild að ræða, sem hætta er á að verði misnotuð, og fellur úr gildi um leið og fjárlög hafa verið afgreidd, þá get ég ekki séð neina meinbugi á því, að hún fái gildi þann tíma, sem frv. gerir ráð fyrir, úr því að fjárlög verða tæplega afgreidd innan þess tíma.