26.01.1950
Efri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

66. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá landbn. Nd. og er flutt að beiðni ríkisstj., sem hefur látið semja það og leggja fyrir n.

Við að bera saman frv. og lögin, sem á að breyta, kemur í ljós, að í Stjórnartíðindunum hefur misprentazt kr. 3.00 fyrir kr. 30.00, þ.e. 3. verðlaun fyrir stóðhesta. Þetta blað Stjórnartíðindanna var umprentað síðan og sent öllum, sem fá Stjórnartíðindin, og n. telur því óþarft að vera nú að samþykkja breytingu á þessari prentvillu, sem búið er að breyta, og leggur því til, að 1. gr. frv. falli niður.

2. gr. gerir ráð fyrir þeirri breyt., að inn í fyrri málsgr. 83. gr. laganna, sem breyta á, bætist orðin „og reglugerða.“ Eins og 2. gr. frv. ber með sér og útskýring á henni í greinargerð, eru teknar fram sektir fyrir brot á lögunum, en engin ákvæði eru um sektir fyrir brot á reglugerðarákvæðum. Nú er búið að setja reglugerð, sem lýtur að þessum lögum, og hafði ég haldið, að sektir við broti á lögunum giltu einnig um brot á reglugerðinni. En ég hef talað við hæstaréttardómara og fleiri af lögfróðustu mönnum landsins, og telja þeir, að betra og tryggara sé að bæta inn þessum orðum, því að oft séu sett reglugerðarákvæði, sem ekki standi beint í lögum. Því telja þeir þessa lagabreytingu nauðsynlega varðandi sekt við brotum á reglugerðarákvæðum.

Þá er loks 3. gr. frv., og er breytingin, sem hún felur í sér, að vísu aðeins leiðrétting á prentvillu, það stendur skakkt númer á búfjárræktarlögunum frá 1931. En þótt þetta sé augljós prentvilla, þar eð lögin eru annars nefnd rétt, þá þykir rétt að leiðrétta þessa prentvillu nú, úr því að lögunum er breytt á annað borð.

Þá hefur okkur einnig sýnzt rétt, einkum með tilliti til árstímans, sem við erum nú á, að bæta aftan við frv. nýrri grein um það, að lögin öðlist þegar gildi. Teljum við það rétt með tilliti til sýninga á búfé í vor.

N. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með framangreindum breytingum, sem um getur á þskj. 252.