09.02.1950
Neðri deild: 42. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

102. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta missögn í grg. og harma að hún skyldi slæðast þangað, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn 18. marz s.á. (þ.e. 1947) tilkynnti háskólaráð, að það leyfði, að fyrirhuguð bygging fyrir fisk- og fiskiðnrannsóknir yrði reist á lóð háskólans. Leyfi þetta var þó bundið því skilyrði, að háskólaráð ákvæði stað fyrir bygginguna á lóðinni og samþykkti teikningar að byggingunni. Um miðjan janúar 1948 tilkynnti byggingarnefndin háskólaráði, að endanlegar teikningar af byggingunni lægju nú fyrir, og mæltist til, að háskólaráð gerði bindandi samþykkt um, að byggingin yrði reist á lóð háskólans. Á fundi hinn 12. marz synjaði háskólaráð loks um lóð undir bygginguna þrátt fyrir þau loforð, sem áður höfðu verið gefin.“

Ég átti sæti í háskólaráði, þegar þetta mál var afgreitt, og verð að láta þess getið, að hér er rangt með farið. Vilyrði það, sem háskólaráð gaf fyrir lóð 1947, var bundið fleiri skilyrðum, m.a. því, að l. um atvinnudeild háskólans yrði breytt þannig, að hún yrði ein af deildum háskólans, en nú er ekkert annað samband á milli þessara stofnana en það, að hin fyrrnefnda heitir atvinnudeild háskólans. En það var stefna forráðamanna skólans að breyta hinu losaralega fyrirkomulagi, sem er á atvinnudeildinni, og gera hana að sérstakri deild innan skólans, og það var skoðun þeirra, að ekki bæri að ráðstafa neinu, af hinni takmörkuðu lóð, sem skólinn hefur til umráða, nema þetta yrði ofan á. En svo varð ekki og ekkert fyrirheit gefið af ráðh. um, að þessu yrði breytt. Háskólaráð taldi sig því ekki bundið af þessu loforði, þar eð skilyrðum var ekki fullnægt, og synjaði um lóðina 12. marz. Þetta vildi ég leiðrétta og þykir miður, að þessi missögn skyldi slæðast inn í grg. frv.