06.02.1950
Efri deild: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

91. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Eins og tekið er fram í nál., var ég ekki viðstaddur, er frv. var afgr. í n., og hef ég því ekki tekið þátt í meðferð málsins. Það má því segja, að það sé óþarfi af mér að segja nokkuð um afstöðu mína, og það því fremur, að ég geri engar brtt. Þó vildi ég taka það fram, að þessi breyt. er gerð í góðu skyni og reynt að tryggja sanngirni í þessum efnum. En samt er þetta þó hálfgert fitl. Það má segja, að það sé sanngjarnt að miða við 75 ár í stað 100, en það er þó nokkuð út í bláinn, og segja má, ef talið er of hátt að miða við 100 ár, að svo sé einnig um 75 ár. Þar er einnig um handahófsákvörðun að ræða. Tilgangurinn er, að vaskur, traustur og starfsamur kynstofn njóti sín sem bezt jörðinni til góðs, og vel gæti staðið svo á, að eftir 50 ár eða 34 ár hefði maður sannað verðskuldun sína fyrir ættaróðali. Þetta getur alltaf verið álitamál, og því er bezt að hafa ekki tölurnar mjög skorðaðar. En sem sagt, úr því að verið er að ákveða tímatakmark í frv., get ég ekki verið á móti því.

Það er einskorðað í frv., hvaða skuldir megi hvíla á jörðinni, og er þar eðlilega miðað við Búnaðarbanka Íslands og starfsemi hans, en mér flaug í hug, að ef athafnir á slíkri jörð væru meiri en svo, að Búnaðarbankinn væri fær um að sinna öllum eðlilegum beiðnum, væri alger útilokun í þessum efnum nokkuð hæpin og varhugaverð. Reynslan gefur bezta tilsögn um það, hvernig lögin komi að beztum notum.

Með þessum athugasemdum er ég ekki að mótmæla frv., en vildi vekja athygli á því, að þróunin verður að skera úr um það, hvað bezt hentar í þessum efnum, og sníða verður löggjöfina eftir því. Með þessum athugasemdum greiði ég atkv. með frv.