20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er sérstaklega eitt atriði í þessu frv., sem ég get a.m.k. ekki að svo komnu máli fallizt á að hafa á þann veg, sem hér er ráð fyrir gert. Það er um skiptingu á sjóðnum milli sameignarsjóðs og séreignarsjóða sveitarfélaga. Það var svo í l. áður, að þessi skipting var þannig, að séreignarsjóðir sveitarfélaga áttu sjálfir allt það fé, sem þau lögðu í sjóðinn. Að vísu var það miklu minna en nú er gert ráð fyrir, að þau leggi í sjóðinn, en prinsipið var það, að viðkomandi sveitarfélag átti sem séreign það fé, sem það hafði lagt í sjóðinn, en sameignarsjóður aðeins það fé, sem ríkissjóður lagði fram. Nú er þessu breytt þannig, að sameignarsjóður fær aukið ríkisframlag og helming af því fé, sem sveitarfélögin gjalda til sjóðsins. í raun og veru væri kannske réttasta leiðin í þessu að hafa enga skiptingu á þessu, heldur að sjóðurinn væri allur sameignarsjóður, sem allir landsmenn hefðu aðgang að, þegar þannig lagað tjón yrði, sem ætti að bæta með fé úr sjóðnum, og þá yrði enginn reipdráttur um þetta milli einstakra sveitarfélaga, eftir því hvar menn eru búsettir í landinu. En fyrst haldið er í þessa skiptingu á sjóðnum í sameignarsjóð og séreignarsjóði sveitarfélaga, þá sé ég ekki, hvaða rök liggja til þess, að verið sé að rýra sérsjóði sveitarfélaga hlutfallslega á þann hátt, sem nú er ætlazt til að gert sé. Mér finnst, að sé skiptingunni haldið á annað borð, þá eigi sveitarfélögin að hafa í sínum sjóðum allt það fé, sem frá þeim er runnið. Það er að vísu sagt, að með þessari breyt. á l. sé tilgangurinn sá, að sameignarsjóður hafi meira fé til umráða og verði þá þess megnugur að hlaupa undir baggann, þar sem stór tjón kunna að verða. Ég sé ekki, að þetta gefi ástæðu til að gera þessa breytingu á skiptingu sjóðanna. Þegar tjón verður, hvort sem það er meira eða minna, þá á samkvæmt l. alltaf fyrst og fremst að grípa til séreignarinnar, og eftir því sem hún er minni — eins og hún verður með þessari skiptingu — þá hrekkur séreignarsjóður viðkomandi sveitarfélags auðvitað skemmra og verður þá fyrr að grípa til sameignarsjóðsins. Sé hins vegar séreignarsjóðurinn myndaður af öllu því fé, sem í hann hefur runnið, endist hann lengur, og er þá í mörgum tilfellum ekki þörf á að gripa til sameignarsjóðsins. En hvernig sem með þetta er farið, þá verður það heildarfjármagn, sem bjargráðasjóður hefur yfir að ráða, alltaf það sama, svo að ég sé þess vegna ekki, að þessi skipting sé nein trygging fyrir því, að frekar verði hægt að bæta tjón eða lána. Ég álít miklu eðlilegra, að ef þessari skiptingu er haldið, þá hafi sveitarfélögin í sínum sjóði allt fé, sem frá þeim er komið, og sameignarsjóður það, sem ríkið leggur fram, og vexti af því. Sá sjóður verður a.m.k. alltaf eins hár og allir séreignarsjóðirnir til samans, svo að mér virðist, að samanborið við séreignarsjóðina, þá muni hann verða tiltölulega mikill varasjóður til að grípa til, þegar séreignarsjóðurinn hrekkur ekki. Ég álit sem sagt, að ekki sé ástæða til að breyta þessu hlutfalli prinsipielt frá því, sem verið hefur áður, og ég leyfi mér því að leggja fram skriflega brtt., sem fjallar um það, að haldið verði sömu hlutföllum, og er hún þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Við 9. gr. Greinin orðist svo: Það fé, sem ríkissjóður leggur sjóðnum til samkv. 3. gr., að vöxtum meðtöldum, skal vera sameign allra landsmanna. Hins vegar skal það fé, sem í sjóðinn rennur samkv. 2. gr., vera séreign þeirrar sýslu eða kaupstaðar, er gjaldið greiddi, og leggjast vextir af því við séreignina.“ Eins og ég tók fram áðan, álít ég kannske heppilegast að hafa sjóðinn bara í einu lagi, svo að allt saman verði sameignarsjóður. En af því að þessi skipting hefur verið áður, þá geri ég ráð fyrir því, að hv. þdm. geti frekar fallizt á þá skipan, og hef ég því bundið mína till. við það, sem áður var í l.

Úr því að ég er staðinn upp, vil ég aðeins benda á það, að ég tel það dálítið vafasamt, að það ákvæði, sem hér er í 11. gr. l., sé kannske í öllum tilfellum heppilegt, en það er talað um, að veita megi bætur vegna hallæris eða harðinda, og er það í gr. orðað svo: „enda hafi það, sem skemmdist eða ónýttist, verið óvátryggt fyrir tjóni þessu.“ Það er sem sagt skilyrði fyrir því, að tjónið verði bætt, að það, sem skemmzt hefur, hafi verið óvátryggt með öllu. Hugsunin í þessu er sú, að vátryggingarnar, ef fyrir hendi eru á annað borð, séu þannig, að tjónið verði nokkurn veginn eða kannske alveg bætt með þeim. Og þá leiðir það af sjálfu sér, að ekki þarf að bæta tjónið úr bjargráðasjóði. Hins vegar held ég, að allmörg dæmi séu um það, að þótt hlutir séu vátryggðir, t.d. fasteignir, þá er vátryggingin svo lág, að ef eignin eyðileggst, þá verður eigandinn þrátt fyrir vátrygginguna fyrir stórtjóni. Ég álít dálítið vafasamt, að það eigi að binda það skilyrðislaust við það, að ekki megi bæta tjón, ef eignin er eitthvað vátryggð, jafnvel svo lágt, að eigandinn verði fyrir stórtjóni. Ég held, að mælikvarðinn verði að vera sá, hvort um svo mikið tjón sé að ræða, að ástæða sé til þess að bæta það, en hitt sé aukaatriði, hvort eignin hefur verið vátryggð, ef þrátt fyrir vátrygginguna verður um að ræða stórtjón fyrir eigandann. Ég hef ekki gert till. um þetta, en mér virðist rétt að benda á það, því að ég hygg, að slík tilfelli hafi átt sér stað og geti eins hér eftir átt sér stað. Ég sé ekki ástæðu til að tefja málið við 3. umr. af þeim sökum, en ef hv. n. vildi athuga þetta nánar, væri æskilegt, að það yrði gert.