30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. hafa gert sér ljóst, er mjög mikið undir því komið, hvernig tekst til um afgreiðslu fjárl. Nú hefur verið ráðizt í það að breyta l. um skrásetningu íslenzkrar krónu, með það fyrir augum að bæta afkomu útflutningsatvinnuveganna og reyna að skapa fjárhagslegt jafnvægi. Eitt höfuðatriði þess að þetta ætti að takast og höfuðundirstaðan var það, að þinginu auðnaðist að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl., þ.e.a.s. fjárl., sem í reyndinni yrðu greiðsluhallalaus, þannig að tekjur ríkissjóðs borguðu öll venjuleg rekstrarútgjöld og einnig þau framlög, sem ríkið veitir til verklegra framkvæmda, og greiðslur til þess að greiða fastar afborganir af skuldum ríkisins. Undanfarin ár hefur þetta ekki tekizt, eins og kunnugt er, og afleiðingarnar hafa orðið mjög slæmar. Nú er rétt og almennt tekið fram, að þetta verður áreiðanlega ekki auðvelt verkefni, og kemur auðvitað gleggra í ljós síðar. En ég tel mér skylt í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, um framlengingu á söluskattinum og nokkrum lagaheimildum, að gefa mönnum ofur litla hugmynd um það, hvernig þetta horfir eftir gengisbreytinguna, en það getur ekki orðið nema ófullkomið vegna þess, að þó að fjmrn. hafi starfað að því síðan stjórnarskiptin urðu að fá yfirlit um áhrif gengisbreyt. á fjárl., þá er því starfi ekki að fullu lokið enn þá. Því er þannig varið, að til þess að fá yfirlit um þetta þarf margs að gæta, bæði að reikna út, hvaða áhrif gengisbreyt. hefur á einstaka rekstrarliði, og einnig að komast að niðurstöðu um það. hvaða áhrif gengisbreyt. hefur á afkomu ýmissa ríkisstofnana, og í því sambandi veltur niðurstaðan oft á því, hvaða ákvarðanir er hægt að taka um auknar tekjur handa þessum stofnunum til að mæta auknum útgjöldum vegna gengisbreytingarinnar. Af þessu leiðir, að þessi rannsókn verður æðimikið verk og niðurstöður liggja ekki að fullu fyrir enn þá. — En það er fleira, sem þarf að athuga í þessu sambandi en bein áhrif gengisbreyt. Það þarf einnig að gæta þess, hvort Alþ. hefur gert ráðstafanir, sem gera það nauðsynlegt að breyta fjárl. frá því, sem þau eru, til þess að þau sýni rétta mynd af þeim ákvörðunum, sem þegar hafa verið gerðar, og þessar athuganir hafa einnig staðið yfir og eru að sumu leyti nokkru lengra komnar, en athuganir á áhrifum gengisbreytingarinnar, og kemur þetta dálítið fram í því, sem ég segi á eftir.

Ég ætla þá að reyna að gefa hv. þm. ofur litla hugmynd um horfurnar í þessum efnum og íhuga fyrst um gjaldahlið fjárl. Þá er þess að gæta, að í fjárlfrv., eins og það liggur fyrir nú, er ekki gert ráð fyrir neinni launauppbót handa starfsmönnum ríkisins, þó að hún hafi verið greidd um margra mánaða skeið. Nú er augljóst, að þessum uppbótum verður ekki svipt með öllu frá því, sem þær hafa verið að undanförnu, og meðan ekki er vitað, hvort sett verða ný launal., þá verður að halda þessum greiðslum áfram. Hér er því um mikil útgjöld að ræða fyrir ríkissjóðinn, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlfrv. Þá er þess að gæta, að gengislækkunarlöggjöfin hlýtur að hafa í för með sér einhverjar auknar launagreiðslur fyrir ríkið. Það er erfitt að spá um það, því að ekki er vitað, hvort hækkun verður á vísitölunni eða hver hún kann að verða 1. júlí, þegar síðasta breyt. á launum eftir löggjöfinni fer fram. En einhver hækkun hlýtur að verða á launagreiðslum af þessum ástæðum, líklega einhvers staðar á milli 10–15 millj. kr. alls.

Þó þykir mér rétt að geta þess, að við athugun á fjárl. og ýmissi annarri löggjöf og við það að kynna mér nokkuð ýmislegt af því, sem til stendur í sambandi við gjöld ríkisins, þá hefur komið í ljós, að allverulega pósta vantar í fjárl. annað en þetta, óviðkomandi gengislækkuninni, til þess að þar komi öll kurl til grafar. Ég get ekki gefið nauðsynlegt yfirlit um þetta, því að þar eru mörg álitamál, sem þarf að meta, en það eru margir lögboðnir póstar, sem hljóta að koma til greina, þó að ekki verði ákvarðað, hvað stórir þeir eru. Ég vil benda á, að það er ekki í fjárlfrv. gert ráð fyrir framlagi til aflatryggingasjóðs, en hann á að fá 1.3 millj. kr. úr ríkissjóði, sem þarf að setja í fjárl. Enn fremur var í dýrtíðarlöggjöfinni frá í vetur gert ráð fyrir framlögum til þess að lækka framleiðslukostnað bátaútvegsins, og það mun verða 1.7 millj. kr. fram að þeim tíma, sem gengislækkunin tekur við. Í þeirri sömu löggjöf er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að greiða allt að 1.5 millj. kr. til þess að létta sjóveðum af bátum, en það hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um það, að hve miklu leyti þessi heimild verður notuð, en mér skilst á hæstv. atvmrh., að líkur séu fyrir því,.að það verði notað eitthvað af þessu, og þá þarf það, sem notað verður, óhjákvæmilega að koma á fjárl. Enn fremur vil ég geta þess, að það hefur verið með löggjöf, sem sett hefur verið á þinginu, eiginlega skotið loku fyrir það, að framkvæmdasjóður ríkisins geti lagt fram það fé, sem nauðsynlegt, er til þess að hann geti leyst af hendi sitt hlutverk, þ.e. að kaupa stórar ræktunarvélar. Honum var ætlað fé af eignaraukaskattinum, en nú er loku fyrir það skotið, það verður því að taka tillit til þessa við afgreiðslu fjárl. Einnig vil ég nefna, að það eru uppi háværar raddir um það, og er það byggt á sanngirni, að ríkið hlaupi undir bagga með því námsfólki erlendis, sem verður fyrir þungum búsifjum af gengislækkuninni, og yrði það einnig að koma á fjárl. Ég vil í þessu sambandi einnig minnast á það, að ég sé alveg í hendi mér, að vegaviðhaldið er lægra sett á fjárl. en vonir eru til, að vegunum verði haldið í sæmilegu lagi með, og hlyti að verða að hækka þá fúlgu allverulega. Og þannig mætti enn telja fleiri liði, sem ég vil ekki vera að þreyta hv. alþm. á. En hér er um stórar fjárhæðir að ræða til viðbótar þeim liðum, sem ég greindi áðan, þegar ég ræddi um launamálin, og ekki eru enn að fullu metnir, en er alveg auðséð, að verða 10–15 millj. kr., en fer eftir því, hversu miklu er hægt að ná upp aftur við auknar tekjur þeirra ríkisstofnana, sem þurfa að auka útgjöld sín af þessu.

Af þessu er augljóst, að aðallega vegna þess, að á fjárl. vantar stórar fúlgur og sumt er þegar greitt úr ríkissjóði, og sumpart vegna áhrifa frá gengisbreytingunni, verður að auka gjaldahlið fjárl. um nokkra milljónatugi, ef þau eiga að sýna rétta mynd af þeim ákvörðunum, sem þingið hefur tekið í löggjöf og varðandi framkvæmdir. Hvort svo væri hægt að mæta þessu með einhverri tilfærslu, vil ég ekki segja neitt um á þessu stigi, en ég þykist sjá, að með þessu verði erfitt um vik í því efni, eftir að hafa athugað fjárl., og mun það verða rætt síðar.

Þá er það um tekjuhliðina að segja, að nokkur rannsókn hefur farið fram á því, en þó er erfitt um vik, vegna þess að þá þarf að reikna innflutning til landsins, og þar er um að ræða áætlaðan innflutning. Það er augljóst, að ef afgreiða á greiðsluhallalaus fjárl., þá verður að framlengja þá skatta og gjöld, sem í gildi eru, og er þó borin von, að niðurstaðan geti orðið slík, að um greiðsluhallalausa afgreiðslu verði að ræða, vegna þess að þótt við reiknum með jafnmiklum innflutningi og í fyrra, þá munu innflutningsgjöldin ekki gera betur, en að jafna þær fúlgur, sem ég hef talið, og þó tæplega það. En um innflutningshorfurnar er eiginlega ómögulegt að sjá eins og horfir í dag. — Af þessu leiðir, að hér hefur verið lagt fram þetta frv. um framlengingu á þessum tekjustofnum, þar sem leyfisgjöldin eru að miklu leyti felld niður. Það var áður búið að fella niður leyfisgjöldin af gúmmíi og hlutum til bifreiða og heimilisvélum, og nú er fellt niður gjald af kvikmyndum og vörubílum, en hins vegar er haldið aðeins gjaldi af fólksbifreiðum og nokkru lægra gjaldi af ferðamannagjaldeyri, 25% í staðinn fyrir 75% áður. Það hefði verið æskilegt að geta fellt þessi leyfisgjöld niður, e.n það er síður en svo, að það veiti af því að hafa það til ráðstöfunar, sem inn kæmi af þessu, þó að það sé ekki meira en ca. 31/2 millj. kr. Svo vil ég geta þess, að það er mjög eftir því leitað, að reynt yrði að lækka skatta á lægstu tekjum, þ.e.a.s. tekjuskattinn, og er það mál í athugun hjá ríkisstj., og hygg ég, að hún hafi fullan hug á að mæta þessum óskum að einhverju leyti.

Þetta er þá í örfáum orðum það, sem ég vildi segja til skýringar þessu frv. Það, sem er höfuðatriðið fyrir Alþ. nú, það er að sjá fótum sínum forráð við afgreiðslu fjárl. og horfast í augu við það, að skattalækkun getur ekki byggzt á öðru, en því að lækka rekstrargjöldin. Hún getur ekki byggzt á því, að hún komi fram sem halli á fjárl. og auknar lausaskuldir í bönkunum. Höfuðatriði málsins er það, að þingið sjái fótum sínum forráð og horfist í augu við, að lækkun skatta hefur í för með sér lækkuð útgjöld ríkisins. Slíkt er eigi mögulegt, og verður að horfast í augu við það.