30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal ekki bera á móti því, að nauðsynlegt sé, að jöfnuður sé á fjárl. Jöfnuður á fjárl. er eitt af þeim skilyrðum, sem nauðsynlegust eru, til þess að heilbrigð fjármálastarfsemi í landinu geti þrifizt. En þarna koma fleiri atriði til greina. Það er hægt að vinna þannig að jöfnuði á fjárl., að það spilli tilganginum með honum.

Þegar frv. til l. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl. var samþ., munu flestir hafa búizt við, að III. kafli l. nr. 100/1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, mundi verða felldur niður. Með þeim álögum, sem þar voru teknar, var að vissu leyti píndur út hinn síðasti eyrir af ýmsum vörutegundum til þess að halda sjávarútveginum gangandi. Með greindum III. kafla var, ef þannig má að orði komast, gengislækkun framkvæmd fyrir fram á tilteknu sviði. Þessar álögur ættu því að falla niður, þegar gengisfallið kemur til framkvæmda. Annars er um tvöfalda gengislækkun að ræða. Það kemur á óvart, þegar felldar eru niður uppbótargreiðslur, að þá skuli vera lagt til að halda við álögum vegna uppbótargreiðslna til sjávarútvegsins, sem felldar eru niður. Ég er hræddur um, að sumum útgerðarmönnum og frystihúsaeigendum hafi þótt þetta vera peningur sinn og þeir kunni að koma og mælast til, að skattarnir séu innheimtir áfram og heimti aukna tryggingu. — Ég sagði, að fleiri atriði kæmu til greina, þótt greiðslujöfnuður á fjárl. sé höfuðatriði, eins og það að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Söluskatturinn, sem hér er lagt til, að innheimtur verði, veldur 3% hækkun vísitölunnar og samsvarar 9 stigum gömlu vísitölunnar. En slík breyting vísitölunnar vinnur á móti tilgangi gengisskráningarlaganna yfirleitt. Það var verið að blanda inn í þetta mál mörgum atriðum, er vinna á móti höfuðtilgangi þeirra. Það er m.a. eitt höfuðatriði, að það á að lita á það sem gengisgróða, sem er í rauninni gengismismunur. Það á að líta á hann sem verðmæti og úthluta honum. En þetta vinnur á móti tilgangi l., eins og hitt, að innheimta söluskatt, og torveldar því framkvæmd þeirra.

Í þessu frv. er þar að auki lagt til, að greiða skuli viðbótargjöld „af gjaldeyrisleyfum til utanferða, öðrum en leyfum til námsmanna og sjúklinga, 25% af leyfisfjárhæð“. Nú er gengisbreytingin gerð til að koma á sæmilegu jafngengi við önnur lönd. En óviðeigandi er að hafa sérgengi varðandi ferðalög, og er með því nærri kveðinn upp sá dómur, að gengisbreytingin hafi verið ófullnægjandi. Mér finnst, að gengið á dollarnum hefði átt að vera óbreytt. Þreföld hækkun kostnaðarins ætti að vera nægileg, og er óviðeigandi að hafa tvöfalt gengi eftir breytinguna á gengisskráningunni. Það má bæta því við, að þessi skattur lendir á gjaldeyri, sem ríkið telur, að veita þurfi til ferðalaga, en nær eigi til svarta markaðarins. Maður skyldi ætla, að með gengisbreytingunni hafi átt að afmá viðskipti á svörtum markaði. Vil ég og segja, að hún nái eigi tilgangi sínum, nema svarti markaðurinn hverfi. En þarna er komið fram grímuklætt gengi, sem er í ósamræmi við tilgang l. um gengisskráningu. — Þá vil ég minna á, að það á að greiða 35% gjald af innflutningsleyfum fyrir fólksbifreiðum, en fella niður skatt af jeppum og vörubifreiðum, sem vinna mikið gagn. Fjöldi fólksbifreiða á hins vegar engan rétt á sér. Eftir því, sem ég hef heyrt, verður þó verðið á vörubifreiðum tiltölulega hærra, en á almenningsbifreiðum. Þessi skattur er tilfinnanlegur, því að hann verður, að viðbættri gengisbreytingunni, hærri en gamli skatturinn. T.d. er verðmæti, sem kostar 100 kr., breytt í 150 kr. með gamla skattinum, en rímlega 170 kr. með gengisbreytingunni, og að viðbættu 35% gjaldi fer þetta að nálgast 230 kr. Þessi 35% skattur verður því hærri en gamli 50% skatturinn. Það á því að koma hærri skattur á fólksbifreiðar. Mér er eigi heldur kunnugt um, að flytja eigi inn fólksbifreiðar á næstunni að verulegu ráði. Það á víst, eftir því er mér er kunnugt, að flytja bifreiðar inn fyrir hið opinbera og atvinnubílstjóra. Munu atvinnubílstjórar eiga fullt í fangi með atvinnurekstur sinn, þótt eigi sé farið að leggja á þá auknar álögur. Skil ég heldur eigi, að farið verði að flytja inn lúxusbifreiðar sérstaklega. Þessi skattur mundi því gefa lítið í aðra hönd, og hefði átt að sleppa því að leggja hann á þessar bifreiðar eins og hinar.

Þá má minna á 31. gr. l., sem hljóðar svo, að greiða skuli „gjald, 20%, af matsverði bifreiða, sem ganga kaupum og sölum innanlands. — Ákveða skal með reglugerð, hvernig meta skuli verð bifreiðanna....“ Það hefði átt að nota tækifærið til að breyta þessu og miða við kaupverð.

Skal ég eigi fara fleiri orðum um þetta. Mér þætti rétt, að hæstv. ríkisstj. biði með till. sínar, þar til er hún getur gefið skýrt yfirlit um áætlaðar tekjur og gjöld ríkissjóðs á árinu, og er eigi unnt að leggja fram till. um útgjöld, nema till. komi einnig fram um sparnað. Það hefði átt að fylgjast að og liggja fyrir greinilegt yfirlit. Verð ég að segja, að nauðsynlegt sé að leita að heppilegri gjaldstofnum en þessum, því að skattar eins og söluskatturinn vinna á móti tilgangi l. Þess vegna hefði ég talið heppilegra að bíða nokkurra átekta með frv., svo að fyrir gæti legið skýrt yfirlit um væntanlega afkomu næsta fjárhagsárs.