30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af ræðum þeirra hv. þm. V-Ísf. og hv. 8. landsk. finnst mér, að megi skipta því í tvennt, sem þeir halda fram. Annað er það, að ef gengislækkunarleiðin hefði ekki verið farin, þá hefðu öll þessi mál verið miklu auðveldari, og að erfiðleikarnir stafi einkum af því, að sú leið var farin. Út af þessu sjónarmiði get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því, að í fjárl., eins og þau nú eru, er gert ráð fyrir jöfnuði, en þar er ekki gert ráð fyrir neinu fé til uppbóta á útflutta vöru eða neinni launauppbót til opinberra starfsmanna, sem Alþfl. barðist mest fyrir og telur sig aðaltalsmann fyrir. Hvað hefði verið gert, ef gengið hefði ekki verið lækkað og halda hefði átt jafnvægi í þjóðarbúskapnum? Það hefði þurft að hækka geysilega allar uppbætur til sjávarútvegsins, og er ekki gott að segja, hvað það hefði numið miklu yfir árið til að greiða 75 aura ábyrgðarverð, en líklega hefði það numið nær 100 millj. kr. Þá eru eftir peningar til launauppbótarinnar o,g óleyst vandamál togaraútgerðarinnar, sem hefur verið málað svo svart hér, að hv. 8. landsk. (StJSt) taldi, að hún mundi varla þola 10% framleiðslugjald, þó að gengi væri lækkað. Það er því augljóst, að það er þýðingarlaust að ætla að breiða fjöður yfir það, að ef engin gengislækkun hefði verið framkvæmd, þá hefði þurft að leggja á nýja tolla og skatta, meira en nokkurn tíma áður. Það hefðu því ekki nægt neinar 100 millj., en ekki verið allt í prýðilegasta lagi, ef engin gengislækkun hefði verið gerð, en farið eftir leið hv. 8. landsk. Svo segja þessir hv. þm., að þeim komi skelfilega á óvart, að nú skuli eiga að framlengja söluskattinn, úr því að gengið var lækkað. Mikil látalæti geta þetta verið í þessum hv. þm. Það kemur greinilega fram í áliti hagfræðinganna, að þeir leggja mikla áherzlu á, að þjóðarbúskapurinn sé rekinn hallalaus, og þá komi fyrst til greina að gefa.eftir af tekjuliðum, þegar það sé tryggt, og verði þá fyrst gefið eftir af verðtolli og síðan megi athuga, hvað meira sé hægt að gera í þá átt, en höfuðatriðið sé að afgreiða fjárl. hallalaus. Og nú segja þeir, að þeim komi þetta skelfilega á óvart. Hvílík látalæti, þar sem enginn veit það betur en Alþfl., að í frv. vantar uppbætur til opinberra starfsmanna, og enginn hefur unnið harðar að því, að þær væru greiddar að fullu, en þeir. Þeim er einnig kunnugt um það, að búið er að samþ. ýmsa liði hér á Alþ., sem eftir er að setja inn í fjáralagafrv. Þeir ættu einnig að geta sagt sér sjálfir, að gengislækkun hlýtur að hafa í för með sér hækkun á ýmsum liðum. Og þeim var einnig kunnugt um það, að á móti þessum hækkunum vantaði tekjur. Þessir hv. þm. þykjast víst halda, að hægt sé að fella niður þessar tekjur, sem eru 36 millj. kr., þótt 30–40 millj. útgjöld skapist vegna gengisfellingarinnar, svo að fjárlög yrðu afgr. með ca. 70 millj. kr. halla. Ég verð að segja, að það er hrein ofrausn að ætla sér að láta okkur halda, að þeir trúi þessu.

Þá er aðeins eftir: Er hægt að gera ráð fyrir tekjuaukningu, sem vegið geti upp á móti þessum 70 millj., á verðtollinum? Hann er áætlaður í frv. 58 millj. kr., og hækkunin er 18 millj., svo að það er það eina, sem á að koma á móti þessum 70 millj.! Nei, sannleikurinn er sá, að hv. þm. hljóta að gera sér fulla grein fyrir því, að í þetta skipti hlaut að verða nauðsynlegt að framlengja söluskattinn til þess að nokkur minnsta von væri til þess, að hægt væri að afgreiða fjárlög greiðsluhallalaus. Nú segja þessir hv. þm. Alþfl., að það eigi bara að bíða, svo að ljósar liggi fyrir, hvort eigi að framlengja þessa tekjustofna. Ég hef bent á, að launaútgjöld hækka um 10–15 millj., ég hef bent á, að lögboðnir útgjaldaliðir hækka einnig um 10 millj., og ég hef bent á, að bein útgjöld vegna gengisbreytingarinnar hækka um 10–20 millj. Enn fremur hef ég bent á, að með því að reikna með sama innflutningi og í fyrra — en hann verður varla eins mikill í ár — þá er ekki meiri hækkun á sköttum og tollum en svo, að rétt dugar til að vega þetta upp. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Hitt er von manna, að með þessum tekjum verði hægt að afgreiða fjárl. hallalaus, og fullyrða má þrátt fyrir það, að það verður fullkomið brúk fyrir sparnaðartill. nú eftir páskana. Hv. 8. landsk. og hv. þm. V-Ísf. geta þá fengið að spreyta sig á því að finna leiðir til þess að spara á fjárl., og er gott að eiga von á samvinnu við þá í því efni, þegar þar að kemur. Ég vil benda á það, að þegar búið er að gera gengisbreytingu, þá er ekki hægt að láta eins og hún hafi aldrei orðið, og ef þessir hv. þm. ætla sér að koma fram með ábyrgðartilfinningu, þá verða þeir að byggja á staðreyndum. Ef þeir því ekki vilja samþ. þetta frv.. þá bar þeim skylda til að koma með sparnaðartill., sem nema a.m.k. 40 millj. kr., og er þess þá að vænta, að þessar till. verði í samræmi við þá afstöðu þeirra að vilja ekki framlengja þessa tekjustofna. Fram hjá þessu er ekki hægt að komast. — Þetta er blind braut. Erfiðleikarnir í okkar þjóðarbúskap eru þeir, að samtímis því, að ráðizt er í að koma á jafnvægi í þjóðfélaginu, þá lækkar verðlag á útflutningsvörum okkar, og sölutregða fer vaxandi. Þetta er vandinn, sem við er að glíma, og hann gerir allt erfiðara. Ef búast mætti við stórauknu útflutningsverðmæti, þá væri hægt að lækka tollana, en því er ekki að heilsa, og af því stafa þau vandræði, sem við erum að ræða hér.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, nema út af ferðagjaldeyrinum, að þetta er ekki tvöfalt gengi, þó að 25% séu lögð á þessi leyfi. Þetta er skattur, sem verður að leggja á til þess að geta greitt fyrir námsmönnum erlendis, en tvöfalt gengi er það alls ekki, heldur skattur. — Þá hefur verið bent á, að vafasamt sé að leggja gjald á fólksbíla. Það er rétt, að þetta hækkar úr 150 kr. í 234 kr., en er þó mun minni hækkun, en á flestum öðrum vörum vegna þess, að þarna er slakað til á prósentugjaldinu. En nú er ekki gert ráð fyrir neinum teljandi innflutningi fólksbíla. Atvinnubílstjórar hafa ekki einu sinni fengið innflutningsleyfi undanfarið, og því er ekki gert ráð fyrir, að margar bifreiðar verði fluttar inn, en hugsanlegt er, að eitthvað verði flutt inn af bílum, svo að ekki þótti rétt að fella þetta alveg niður, en ef svo færi, að atvinnubílstjórar fengju einhvern innflutning, þá þyrfti að taka þetta mál til sérstakrar athugunar varðandi þá, ef hægt yrði að leysa þarfir þeirra að einhverju leyti.

Skal ég svo ekki þreyta lengur umr. um þetta mál, en legg áherzlu á, að því verði hraðað sem mest gegnum hv. Alþingi.