30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að höfundar gengislækkunarfrv. hefðu gert ráð fyrir því, að söluskatturinn félli burt. Ég vil ekki afsala mér með öllu höfundarrétti til frv., og mér hefur ekki dottið það í hug. Hvort hagfræðingarnir hafa gert sér grein fyrir þessu upphaflega, með alla þekkinguna, eins og pinkil ofan á klyfjarnar, veit ég ekki, en það kom fram í umr. þeirra og ríkisstj., að skatturinn ætti að halda áfram.

Þegar ég stóð í samningum við Framsfl., sagði ég eitt sinn eitthvað á þá leið, að það bezta, sem forsjónin gæti gert fyrir Íslendinga, væri, að þeir misstu minnið um fortíðina fyrir framtíðina. Þetta hefur að vísu ekki komið fram á Framsfl., en það virðist hins vegar hafa komið fram á Alþfl. Það er furðulegt, að hv. 8. landsk. (StJSt), sem verið hefur forsrh. undanfarin þrjú ár, skuli halda hér aðra eins ræðu og hann gerði. Honum og öðrum Alþýðuflokksmönnum kom það á óvart, að söluskatturinn yrði framlengdur. Þeir voru undrandi yfir því, að ríkisstj. skyldi leggja til, að skatturinn væri framlengdur, og það er náttúrlega meiri glæpur, en þegar hv. 8. landsk. bar fyrstur fram till. um skattinn. Ég vil minna á það, að í nokkra mánuði hefur legið fyrir fjárlagafrv., þar sem tekjumegin er færður afrakstur af söluskatti, en gjaldamegin er ekkert fært á móti. Hv. þm. hlýtur að hafa gert sér þetta ljóst, hann verður að viðurkenna þá staðreynd, hann má ekki viðurkenna, að það hafi farið fram hjá honum, að söluskatturinn er ætlaður til þess að standast útgjöld ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á vörum, sem fyrrverandi ríkisstj. brast kjark til að fella niður. Það kom til athugunar að fella þetta niður, en með tilliti til þess, hvað þungur baggi það yrði á almenning, vildu hvorki hagfræðingarnir né ríkisstj. gera það. Til þess brast kjark og vilja. Menn mega ekki láta sér sjást yfir þá staðreynd, að fjárlagafrv. reiknar ekki með eyri til fiskuppbóta, en þó er þar reiknað með söluskatti. Ef það er vilji Alþfl., að niðurgreiðslurnar falli niður, og ef farið yrði að þeim vilja flokksins, hefði það í för með sér óbærilegan bagga vegna hækkandi vísitölu, og þá er það rétt, að löggjöfin væri brostin.

Út af því, sem hv. 3. landsk. (GÞG) sagði, þá er það álitamál, hvort sjávarútvegurinn fær staðizt kauphækkanir þær, sem leiðir af 7. gr., því að markaðir hafa fallið verulega og horfur versnað mikið varðandi sumar vörur, frá því að frv. var samið. Ég viðurkenni það. Hitt veit hv. 3. landsk., að þýðingarlaust er að byggja vonir á löggjöfinni, ef fjárl. verða ekki afgr. greiðsluhallalaus, því að þá er stefnt að nýrri verðbólgu og gengislækkun. Þó að gengismálið sé ekki hér til umr., er ekki undarlegt, að meginefni þess sé rætt. En sá, sem ætlar að fella 36 millj. kr. tekjur úr fjárlfrv., án þess að þeirri gr. löggjafarinnar, sem fjallar um nýja vísitölu, sé breytt og baggar þyngdir, hann tekur á sig ábyrgðina af því að brjóta niður löggjöfina. Það er ekki margra kosta völ. Hitt skil ég ekki, hvernig viti bornir menn geta sóma síns vegna haldið því fram, að framlenging söluskattsins komi þeim á óvart. Við verðum að gera okkur það ljóst, að grundvöllur gengisl. er rétt afgreiðsla fjárl., og enginn kostur er á því að afgreiða þau án söluskattsins. Verði söluskatturinn afnuminn og samfara því hætt niðurgreiðslum á innlendum framleiðsluvörum, þá vex dýrtíðin, svo að gengislöggjöfin brotnar niður eða þá að þyngja verður baggana á almenning meira en gerlegt er, fyrr en neyðin bankar fastar að dyrum. Annars vil ég varðandi þetta mál vísa til þeirra raka, sem hæstv. fjmrh. bar hér fram.

Hvað snertir minni háttar efni frv., eins og framlengingu 35% gjaldeyrisskatts á nýjar bifreiðar og 20% söluskatts á gamlar bifreiðar, þá viðurkenni ég, að við hefðum margir óskað þess að þurfa ekki að framlengja þessi gjöld. En það nægir ekki með frómar óskir. Ef ég gæti fengið ráð frá þeim, sem í þrjú ár höfðu stjórnarforustuna, um það, hvernig greiða á niður án skatta, þá skal enginn þakklátari betlari, en ég, nálgast þeirra hallir. Meðan þeir höfðu stjórnarforustuna, hækkuðu þessi útgjöld ekki mánaðarlega, heldur daglega. Það er meining stj. að stöðva þá þróun, sem Alþfl. ber ábyrgð á, þó að hann beri hana ekki einn. Flokkurinn má ekki halda, að þungi ábyrgðarinnar hafi snarazt af honum, þó að hann hafi losnað úr ráðherrastólunum í bili, hvort sem það verður nú lengur eða skemur. Ef Alþfl. leikur þann leik að láta sem slíkir hlutir sem þessir komi sér á óvart, þá verða það fleiri en ég, sem verða fyrir vonbrigðum.

Ég hef miklar mætur á núverandi ríkisstj., ég hef á fáum haft meiri mætur nema fyrrv. stj., sem ég hafði sérstakar mætur á. En það eru aðeins 14 dagar síðan stj. settist í stólana, og ég tel, að varla sé hægt að gera kröfu til þess, að stj. hafi á þessum tíma gert till. um verulegan niðurskurð. Við skulum muna það, bræður góðir, hér á hv. Alþ., að fyrir utan þekkinguna og vitsmunina þarf annað til, svo að þetta strandi ekki, áður en það kemst í heila höfn í landi kunningsskaparins, að ekki sé einhver vinur eða bróðir t.d. í félmrn., ef fækka á úr 10 niður í 5. Við skulum gera það, sem við getum. Þið skuluð ekki mana okkur úr hófi fram, það er áreiðanlega fullkomlega skeleggur sparnaðarandi ríkjandi í stj., svo að ekki er ástæða til að ýta undir okkur í þeim efnum. En þeir, sem létu allt vaxa á sínum tíma, mega ekki búast við því, að stj. hafi auk spekinnar fengið líka hörkuna. Það væri til of mikils mælzt af þeim, sem í bili sitja í ráðherrastólunum og tekið hafa að sér vandann.

Ég vil gera mitt til þess, að málinu seinki ekki, og skal því ekki orðlengja um þetta frekar, þótt margt fleira mætti segja. Ég taldi rétt að gera þessa aths., og ég vil geta þess, að stj. stendur öll að þessum till. En það skulu þeir vita, sem gera árásir á stj., að þeir skulu að því spurðir, hvað þeir hafa gert og hvað þeir mundu vilja gera.