30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, í sambandi við ummæli hv. 3. landsk., að í hagfræðingaálitinu á bls. 58 er rætt um tilslökun á verðtollinum, en nokkuð á aðra lund, en hv. þm. vildi vera láta, því að þar er talað um, að tekjur af tollinum hækki upp í 75-80 millj. kr. Og síðan segja hagfræðingarnir orðrétt: „Við teljum, að er frá líður, muni með varkárri fjármálastjórn hægt að lækka skatta frá því sem nú er.“ Nú segir hv. 3. landsk., að þeir, sem gerðu þetta plagg, muni hafa reiknað með, að söluskatturinn væri úr sögunni. Ég get ekki séð, að það sé neitt í þessari álitsgerð, sem bendi í þá átt, sem hv. þm. greindi. Samkvæmt útreikningum frá hagstofunni mundi 10% gengislækkun haustið 1947 hafa leitt til 2,3% hækkunar á framfærsluvísitölunni, eða 1/4 við það sem nú verður, og á þessu byggja hagfræðingarnir sínar ágizkanir. Þeir hafa enga sérstaka útreikninga gert, en byggt á þeim grunni, sem fyrir lá. Þegar þeir segja, að hækkunin á framfærslukostnaðinum muni nema 11–13%, þá er söluskatturinn þar innifalinn. Þeir gizka á breytingu frá núverandi ástæðum, en draga ekki frá neina lækkun á söluskattinum. Ég skal ekki spá neinu um það, hver framfærslukostnaðurinn verði. En hvorki þetta né neitt annað gefur tilefni til þess, að söluskatturinn verði felldur niður.