30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að segja örfá orð í tilefni af ræðum hv. þm. V-Húnv. og hæstv. fjmrh. — Það er ekki rétt, að ég hafi látið í ljós undrun yfir því, að þetta frv. er fram komið. Hv. þm. hermir það rétt, að þegar gengislækkunarfrv. var til umr. í fjhn., bar það á góma, hvort framlengja ætti söluskattinn. Ég hélt því fram, að það væri ekki tilætlun hagfræðinganna. Formanni n. var falið að fá upplýsingar um, hvað ætlunin væri í þessu efni. Hann upplýsti á fundi, að gert væri ráð fyrir að framlengja skattinn, og furðaði mig þá á þeirri ákvörðun. Þar var þá staddur annar af þeim hagfræðingum, sem undirbjuggu frv., og ég man ekki betur en að hann yrði líka dálítið undrandi. Og ég man jafnvel ekki betur, en að hann segði, að þeir hagfræðingarnir hefðu gert ráð fyrir því, að skatturinn yrði felldur niður. Ég benti á, að það væri bagalegt, að ekki skyldu liggja fyrir útreikningar byggðir á rækilegum athugunum um það, hve miklu skatturinn mundi nema. Og ég ítreka nú enn, að þeir útreikningar þyrftu að liggja fyrir. Hitt er svo deila um keisarans skegg, hvort hagfræðingarnir hafi reiknað með niðurfellingu söluskattsins eða ekki. Um það er bezt að spyrja hagfræðingana sjálfa, og það er ekkert höfuðatriði. Hitt er annað mál, að það hlýtur að valda vonbrigðum, að ekki skuli nú vera létt af þeim sköttum, sem á sínum tíma komu í stað gengislækkunar, úr því að hún hefur nú verið framkvæmd, og þarf engan að undra, þótt mörgum þyki það hart aðgöngu. Hæstv. fjmrh. þóttist ekkert finna í áliti hagfræðinganna, sem benti til þess, að þeir hefðu reiknað með, að söluskatturinn yrði felldur niður. Ég vil nú leyfa mér að benda honum á ummæli þeirra á bls. 31 í álitsgerðinni, þar sem þeir reikna greinilega út þá hækkun, sem yrði að gera í sköttum, ef verðuppbótarleiðin yrði farin áfram; en hins vegar er svo aftur talað um það í kaflanum um gengislækkun, að hún muni duga til að létta þessum útgjöldum af ríkissjóði. Nú liggur það fyrir, að ríkisstj. telur, að eftir sem áður verði að framlengja þennan skatt. En verði söluskatturinn framlengdur, þá er áætlun hagfræðinganna um 11–13% hækkun á framfærslukostnaðinum bersýnilega röng. Hún verður 13–14%, ef söluskatturinn verður framlengdur, og fyrir því treysti ég mér til að leggja fram skýrar, tölulegar sannanir. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. tók fram, að hagfræðingarnir byggðu ágizkanir sínar á útreikningum, sem nefnd, er ég átti sæti í, gerði á sínum tíma um hækkun á framfærsluvísitölunni við gengisbreytingu. Við bentum þeim þó á, að það væri dálitið varhugavert að byggja á tveggja ára gömlum útreikningum, þar sem ýmsar breytingar hefðu orðið síðan og m.a. sú, að söluskatturinn hefði verið lagður á. Og þegar hann er orðinn svo hár sem nú er, þá hefur hann mikil áhrif á útreikning vísitölunnar. Ég verð þó að segja, að mér kom það á óvart í fyrstu, hve mikilli hækkun hann veldur, eða um 3%. Við nánari athugun sé ég þó, að þetta er eðlilegt. — En sem sagt, ég held, að rétt sé að láta niður falla deilur um það, hver hafi verið ætlun hagfræðinganna um söluskattinn. En því frekari áherzlu ber að leggja á hitt, að verði söluskatturinn framlengdur, þá veldur það verðlagshækkun, sem nemur um 3 vísitölustigum, og það er hlutur, sem hlýtur að vera alvarlegur frá sjónarmiði hæstv. ríkisstjórnar.