30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tek það fram, að afstaðan til framlengingar III. kaflans, m.a. söluskattsins, var undir því komin, hvort knúnar væru fram aðrar ráðstafanir en fiskábyrgðin.

Ég vil benda á, að ef við lesum álit hagfræðinganna, sjáum við, að þeir gera ráð fyrir, að tekjur af verðtollinum hækki úr 54 millj. kr. upp í 75–80 millj. kr., þ.e., að tekjurnar hækki um 17–22 millj. kr. frá því, sem áætlað er í fjárlagafrv., — skv. álitsgerð hagfræðinganna. Nú getur engum dulizt, að það er ekki hægt að strika út 36 millj. kr. tekjulið og bæta þess utan við gjöldum vegna uppbóta á laun opinberra starfsmanna, auk annarra útgjalda vegna gengislækkunarinnar.