30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í framhaldi af ummælum mínum við 1. umr. málsins langar mig til þess að skýra nánar frá áhrifum þeim, sem framlenging söluskattsins kemur til með að hafa á dýrtíðina, þar sem ég hef aflað mér upplýsinga um þetta núna í kaffihléinu. Þannig er mál með vexti, að Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa skipað nefnd til þess að rannsaka áhrif gengislækkunarinnar á framfærslukostnað, og eiga í þeirri nefnd m.a. sæti hagfræðingarnir Jónas Haralz og Kristinn Gunnarsson. Þessi nefnd hefur gert nákvæman útreikning á því, hver áhrif gengislækkunin hefur á framfærslukostnaðinn, og hefur hún framkvæmt þessa rannsókn á sama hátt og hliðstæða rannsókn, sem gerð var 1947 af Klemens Tryggvasyni, Pétri Magnússyni og mér, en hagfræðingar þeir, sem stóðu að samningu gengisskráningarfrv., munu hafa byggt á þeirri rannsókn, þó að það sé ef til vill hæpið vegna breyttra forsendna. En til þess að hafa um þetta sem fæst orð, ætla ég aðeins að skýra frá niðurstöðum þessara rannsókna.

Hækkun nýju vísitölunnar vegna gengisbreytingarinnar, ef söluskatturinn er ekki framlengdur, mundi verða 13.6%, og lætur þá nærri að það sé svipað því, sem hagfræðingarnir Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson höfðu gert ráð fyrir, eða 11–13%. Ef hins vegar söluskatturinn er framlengdur, mundi hækkunin verða 16.8%. Má þó búast við örlitlum breytingum á þessu vegna þess, að ekki er hægt að reikna nákvæmlega út, hver áhrif gengisbreytingin kemur til með að hafa á verð landbúnaðarafurða 1. sept., en skakkað getur varla svo, að neinu nemi. Það má því staðhæfa, að það liggi fyrir af hálfu n., sem tvö stærstu launþegasambönd hafa skipað, að það muni 3 stigum á vísitölunni, hvort söluskatturinn er framlengdur eða ekki.

Mér þykir rétt, að þetta komi fram og einnig það á hverju ummæli mín um þetta atriði við 1. umr. byggðust. Ég hygg því, að óhætt sé að leggja sérstaka áherzlu á, að framlenging söluskattsins gangi algerlega í berhögg við þann tilgang, sem ætlað var að ná með frv. um gengisskráninguna. Og það er rétt, að framlenging söluskattsins stefni því í tvísýnu, að gengislækkunin geti náð þeim árangri, sem henni var ætlað að ná, vegna þess að vegna framlengingar söluskattsins verður hækkun á framfærslukostnaðinum meiri, en gert var ráð fyrir.