30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til að bera fram eina litla brtt. við frv., sem hljóðar svo: „1. gr. orðist svo: Ákvæðin um tekjuöflun, sem sett voru í III. kafla laga nr. 100/1948, skulu gilda til 31. des. 1950, að 30. gr. undantekinni.“ Þetta þýðir það, að gjaldeyrisskatturinn falli niður og bílaskatturinn falli einnig niður. Þó að ég ætli ekki að hæla frv., mundi það verða miklu fallegra með því að losna við þessa tvo liði, því að það er óviðeigandi og óprýði í þessum efnum að fara að leggja sérstakan skatt á ferðagjaldeyri, þegar búið er að breyta gengi íslenzku krónunnar svo stórlega eins og búið er. Og við því hefur enginn búizt, að slíkur skattur mundi halda áfram, því að ef hann heldur áfram, þá er þar um að ræða í eðli sínu tvöfalt gengi. Það var athugað hjá síðustu hæstv. ríkisstj., hvort það þætti rétt að beita tvöföldu gengi á einstökum liðum. En í samráði við mig meðal annarra á síðasta vetri var ákveðið að hafa heldur þá aðferð, sem tekin var viðkomandi gengisbreyt., þó að hún væri sama eðlis í verulegum atriðum. En þegar búið er að gera þá gengisbreyt., á að fella þennan gjaldeyrisskatt niður og innheimta ekki svo stór gjöld af leyfisveitingum. Þegar menn vilja leggja á innflutningsgjöld, þá á að leggja þau á sem tolla, en ekki binda þau leyfisveitingunum. Hér er um að ræða fé, sem ríkisstj. og hennar nefndir ráða alveg yfir, hversu hátt er. Og þessum gjaldeyri, ferðagjaldeyrinum, útdeila nefndir til þeirra, sem helzt eiga erindi til útlanda. Og þetta fólk, sem fær smáskammta af þessum gjaldeyri, er yfirleitt ekki ríkt. Það er alveg nóg fyrir það að bæta rúmum 75% við það verð, sem fyrir skömmu síðan var á erlendum gjaldeyri. Þetta mun ekki víða þekkjast að breyta slíku gengi, eftir að búið er alveg nýlega að koma nokkurn veginn jafnvægi á gengið, eins og hér á sér stað á milli gengis okkar peninga og gengis í nágrannalöndunum. — Það væri því prýði á frv. að klippa þetta af. Og þess mundu njóta þeir, sem verðugir teldust þess að njóta ferðagjaldeyrisins. En hinir mundu sleppa, hvort sem væri, sem ferðast fyrir þann gjaldeyri, sem hvergi kemur löglega fram í landinu. Því miður er ekki hægt að setja lög um það, hvernig skuli fara með þá, sem komast fram hjá lögunum.

Ég geri einnig þá brtt. við frv., að bílaskatturinn falli niður, sumpart vegna þess, að það ætti helzt að hverfa að leggja á innflutningsleyfin, því að sú aðferð var gengislækkun í sjálfu sér. En þegar komin er á gengislækkun eins og nú er, þá á það minna að hverfa fyrir hinu stærra. Og hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að hvað snertir fólksbíla handa atvinnubilstjórum, þá væri ósanngjarnt að beita slíkum skatti. En mér er óljóst, hvernig hægt mundi vera á þessu ári að veita nokkur innflutningsleyfi fyrir bílum öðrum en bilum til þeirra manna, sem atvinnu hafa af þeim, og svo bifreiðum í opinbera þágu. Ég hygg, að það muni á sannast, að ekki verði fluttir inn á þessu ári aðrir bílar en sem ég gat um, þannig að hér mundi ekki verða tekjuauki af þessum leyfisgjöldum, nema frá atvinnubilstjórum, og þeim er ofætlun að greiða þennan skatt. En skattur af bílum, sem fluttir væru inn fyrir það opinbera, orkaði ekki annað, en að færa fé hjá ríkinu sjálfu úr einum vasanum í annan.

Ég skal svo ekki fjölyrða um söluskattinn sjálfan, því að margir hafa um hann rætt. En einn höfuðgallinn á gengisbreytingarfrv. mikla var sá, að þar var ekki gerð nærri nógu mikil tollalækkun. En það gat verið til nokkurrar úrbótar, að söluskatturinn væri felldur niður, eins og hagfræðingarnir gerðu ráð fyrir í sínum útreikningum, að gert væri. En þegar söluskatturinn var lagður á og eftir það, var það glöggt, að eðlilegt og sjálfsagt mætti teljast, að þessi III. kafli l., sem hér á að framlengja, yrði að hverfa — rétt eins og skuggarnir hverfa, þegar náttmyrkrið grúfir yfir.