30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það mun eiga að flýta þessu frv. svo í gegnum þingið, að það gefist varla tóm til að athuga það nægilega rækilega, og veitti þó sannarlega ekki af því. Og sérstaklega veitti ekki af því, að betri og fyllri upplýsingar væru gefnar um það, hvað það þýðir og hverra tekna sérstaklega væri þörf til þess að fjárl. gætu náð saman endum. En út af þessum flýti, sem hafður er hér á afgreiðslu frv., vildi ég nú beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann hefði athugað, hvað það eiginlega er, sem hann er að bera fram með þessu frv. Hann leggur til, samkv. 1. gr. frv., að ákvæðin um tekjuöflun, sem sett voru í III. kafla l., sem hér um ræðir, skuli gilda til ársloka þessa árs, — að því er virðist án þess að einum stafkrók sé breytt í þeim, nema 30. gr. En upphaf kaflans er á þá leið, að stofna skuli sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins, til að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands. Má ég spyrja: Er það meiningin, eins og hv. 8. landsk. þm. benti hér á áðan, að það kannske mundi koma að því, að það eigi að hækka dýrtíðina og taka svo upp niðurgreiðslur á einhverjum vörum? Eða af hverju er þessi grein látin standa í kaflanum? Annaðhvort er hér um undarlega fljótfærni að ræða eða eitthvað býr hér undir, sem ekki er vitað nú á þessari stundu, hvað er. Ef allt er eins og sagt er, ætti þessi grein að hverfa úr l. um leið og hætt er uppbótagreiðslunum, það segir sig sjálft. — Sömuleiðis stendur í 29. gr. í þessum sama kafla: „Af tolltekjum þeim, sem ráðgerðar verða í fjárlögum ársins 1949, skulu 22 milljónir renna í dýrtíðarsjóð.“ Ég veit ekki, hvort þetta á að halda áfram í sambandi við nokkurn hluta af greiðslum tollteknanna, að nokkur hluti þeirra tekna renni í dýrtíðarsjóð. Mér finnst, að það hefði verið a.m.k. viðkunnanlegra, áður en kaflinn hefði veríð framlengdur alveg óbreyttur eins og hann er, að gefið hefði verið tóm til þess, að svona smálagfæringar væru gerðar á frv. — Kannske er það meira, sem athuga þyrfti. En ég hef nú í fljótu bragði fyrst og fremst rekizt á þetta.

Ég veit ekki nákvæmlega, hve hér er um að ræða miklar tekjur í allt. Hæstv. ráðh. var furðu sagnafár um þá hluti og gerði reyndar enga tilraun til þess að gera það nokkuð upp, hvað þessar tekjur mundu verða. En svona við lauslega athugun virðist mér nú, að söluskatturinn. a.m.k. sá hluti hans, sem tekinn er af innfluttum vörum, hljóti að stórauka við áhrif gengislækkunarinnar á framfærsluvísitöluna. Það liggur í augum uppi, og hefur verið á það bent. Í fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að þessi skattur sé í allt 36 millj. kr. Ég veit ekki, hvort það er miðað við afkomu eða tekjur ársins sem leið af söluskattinum, og væri fróðlegt t.d. að fá að vita, hvað söluskatturinn gaf í tekjur árið 1949. Það hlýtur að liggja fyrir hjá hæstv. ráðh. Enda fyndist mér næsta fávíslegt að afgreiða þetta frv. án þess, að það væri vitað. En ef gengið er út frá þessu, 36 millj., þá sýnist mér, að gera megi ráð fyrir, að um helmingur af þessari upphæð sé runninn frá söluskattinum af erlendum, innfluttum vörum, því að innflutningur vara hefur verið í kringum 300 millj. kr. Og ef gert er ráð fyrir 6% söluskatti á vöruna, verður það um 18 millj. kr. En nú hækkar þessi tala, sem var 300 millj., væntanlega upp í 500 millj. kr. vegna gengisbreyt. einnar, ef gert er ráð fyrir sama innflutningi að krónutölu. Og 6% söluskattur af 500 millj. kr. innflutningi nemur þá ekki 18 millj. kr., heldur 30 millj. kr.

Hækkar þá upphæðin úr 36 millj. kr. í 48 millj. kr., sem er sá skattur, sem verið er að framlengja. Nú er mér ekki alveg grunlaust um, að innlendi hluti söluskattsins hafi numið meira en 18 millj. kr. árið sem leið, og væri nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. upplýsti hv. þm. um það, hvað þessi skattur hefði þá numið hárri upphæð. En í öllu falli virðist óhætt að gera ráð fyrir, að hér sé um að ræða skatt, sem nemur hvorki meira né minna, en tæpum 50 millj. kr. Annað, sem hér kemur til greina, er ferðagjaldeyririnn. Skatturinn af honum og bílaskatturinn segir hæstv. fjmrh. mér, þ.e. tekjur af þessum leyfisgjöldum, að hafi numið nokkru meira en þrem millj. kr., þar af ferðagjaldeyrisleyfisgjöld rúmri einni millj. kr., árið 1949. Má þá gera ráð fyrir, að upphæðin, sem af framlengingu þessa III. kafla umræddra laga leiðir, samkv. útreikningi mínum áðan, hækki, upp í hér um bil 52 millj. kr. Og væri þá ein millj. kr. þar með reiknuð, sem miðað við síðasta ár kæmi af innlenda bifreiðasölugjaldinu, sem að vísu kemur ekki við þessu máli, sem fyrir liggur.

Og svo er einn sakleysislegur liður hér líka í 32. gr. í Ill. kaflanum, sem eru leyfisgjöldin, af leyfum, sem fjárhagsráð veitti og núverandi innflutnings- og gjaldeyrisdeild fjárhagsráðs veitir. Þar er gert ráð fyrir, að þessi gjöld séu innheimt með 100% álagi. Þessi gjöld voru fyrst sett til þess að standa straum af kostnaði fjárhagsráðs og innflutningsdeildar og skömmtunarskrifstofunnar, og þau voru, að ég ætla, 1/2%. þegar þau voru sett. Með þessum l. var gjaldið hækkað í 1%, og sé gert ráð fyrir því, að það nemi 1% af 300 millj. kr. innflutningi, þá eru tekjur af því 3 millj. kr. Að óbreyttu innflutningsverðmæti eftir magni og erlendu verði frá síðasta ári, þá veldur gengisbreyt. því, að hér koma 500 millj. kr. til greina í innflutningnum, og verður þess vegna, sé miðað við þennan innflutning, þetta leyfisgjald, 1%, ekki 3 millj. kr., heldur 5 millj. kr., sem innflytjendur verða að borga fyrir það bara að fá leyfi hjá fjárhagsráði eða innflutningsdeild þess. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að gera ráð fyrir auknum tilkostnaði hjá þessum stofnunum, eða hvort gert er ráð fyrir, að það af þessum skatti, sem umfram verður þann tilkostnað, verði til viðbótar tekjuöflun ríkissjóðs til útgjalda hans almennt, sem mér þykir þó líklegra, og þá hækka enn þessar tekjur, sem hér er verið að lögfesta, um þær tvær millj., sem þetta leyfisgjald vex um. Það er því mjög sennilegt, að þessir skattar, sem verið er að leggja á með frv., sem hér liggur fyrir, nemi hvorki meira né minna en milli 50 og 60 millj. kr., og þó sennilega nær 60 millj. kr. — Þegar verið var að ræða um frambúðarlausn efnahagsmálanna, eða m.ö.o., hvaða leiðir skyldi fara til þess að komast helzt út úr þeim ógöngum, sem efnahagur ríkisins og þjóðarinnar er kominn í, þá var aðalmótbáran á móti því að fara styrkjaleiðina sú, að það mundi krefjast svo mikilla fórna, krefjast svo mikilla skatta í ríkissjóðinn, að undir því yrði ekki risíð. Nú skal ég fúslega játa, að ég hef ekki gert mér grein fyrir því, hvað þessir styrkir þyrftu að vera miklir, eins og málum er nú komið, með því útliti og verðlagi, sem er á útflutningsvörunum í dag, og þarf ekki að efast um það, að við þá styrkupphæð, sem áður var varið í þessu skyni, yrði að bæta mjög álitlegri upphæð. En það er eftirtektarvert þá, að hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir, að útgjaldahækkun ríkissjóðs vegna gengislækkunarinnar mundi nema allt upp undir 30 millj. kr., þó að hætt væri að borga styrkina. M.ö.o., áhrif gengisfellingarinnar á hag ríkissjóðs mundu verða þau, að það mundu fara 10 til 15 millj. kr. í launauppbætur, og hækkanir á öðrum sviðum vegna gengislækkunarinnar mundu líka verða upp undir 15 millj. kr. á ári. Þannig að útgjaldaaukningin alls vegna gengislækkunarinnar mundi verða upp undir 30 millj. kr., eða nær því sú upphæð, sem fiskábyrgðin nam síðasta árið, sem hún var greidd, því að ég hygg, að þegar útgjöld ríkissjóðs voru um 70 millj. kr. vegna dýrtíðarinnar, þá hafi farið þar helmingurinn til niðurgreiðslu innanlands og hinn helmingurinn til þess að bæta upp fiskverðið. Launabæturnar voru greiddar miklu hærri, en gert var ráð fyrir, því að gert var ráð fyrir, að 4 millj. kr. færu til þeirra. (Fjmrh.: Það eru 20%, sem borgað hefur verið í launauppbætur, sem hv. þm. hljóta að vita.) En sú 20% upphæð, sem ákveðin var árið sem leið, var áætluð 4 millj. kr. Það stendur fast, að það var gert ráð fyrir því, að sú 20% hækkun launanna í 5 mánuði var áætlað að mundi nema 4 millj. kr., svo að aldrei getur það orðið 15 millj. kr. (PO: Það fór í meðförum stjórnarinnar úr 4 millj. upp í 12 millj. kr. á árinu.) Það er nú alveg nýtt. (PO: Já, hvorki meira né minna.) Mér sýnist því, að það muni koma til kasta ríkissjóðsins að verða að hækka sína útgjaldabyrði mjög verulega, jafnvel þó að hann losni við að borga með fiskinum. Og þá fer fyrst verulega að vandast málið, finnst mér, þegar hvort tveggja verður að gera, bæði að taka á sig allar byrðar, sem gengislækkuninni fylgja, og líka þá skatta og þau gjöld til ríkissjóðs, sem nokkurn veginn jafngildir þeirri upphæð, sem áður fór til greiðslna ríkissjóðs vegna fiskábyrgðarinnar.

Ég hefði annars óskað eftir því, eins og ég tók fram við fyrri umr. þessa máls, að það hefðu legið fyrir miklu skýrari gögn en raun ber vitni um afkomu ríkissjóðsins og hvaða nauðsyn þess vegna bæri til þess að afla þeirra tekna, sem hér er gert ráð fyrir. Og mér finnst það tæplega forsvaranlegt hjá hæstv. fjmrh., að hann skuli ekki bera við að gera tilraun til þess að skýra, hvernig afkoma ríkissjóðs verður í heild nú síðasta ár, áður en hann fer fram á, að samþ. verði að leggja hér á skatta og tolla, sem nema kringum 50 millj. kr. Ég veit, að miklar kröfur hafa verið gerðar til ríkissjóðsins, bæði um að létta sjóveðum af bátum, hækka framlag til hlutatryggingasjóðs og til kaupa á ræktunarvélum og til ýmissa annarra útgjalda, til námsmanna erlendis og fleira þess háttar. Þar er þó að geta þess, að hækkun á gjöldum til námsmannanna er bein afleiðing af gengislækkuninni, svo a.m.k. sá útgjaldapóstur er einn af fylgifiskum gengislækkunarinnar. En, sem sagt, yfirlit yfir allt þetta, sem gera þarf, og heildaryfirlit yfir afkomu ríkissjóðs hefði verið æskilegt að fá, áður en þetta tekjuaukafrv. væri samþ. En í stað þess er þetta hespað af með svo miklum hraða, að 19. gr. og 29. gr. og jafnvel fleiri gr. í þessum III. kafla l., sem ekki eiga lengur við, hafa ekki verið teknar út úr í frv., og hefði þó óneitanlega verið viðkunnanlegra að hætta að tala um fiskábyrgð, eins og gert er í 19. gr., og greiðslur vegna fiskábyrgðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta mörgum fleiri orðum. Ég mun greiða atkv. gegn frv., af því að það fer beinlínis í þá átt að auka þær byrðar, sem á eru lagðar með gengisfellingarl., sem virtust reyndar vera ærnar fyrir og ég í minni fávizku hafði búizt við, að ekki þyrfti að auka við með sköttum, sem gert var ráð fyrir, þegar gengislækkunin var samþ., að mundu falla niður.