30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég harma það að þurfa að eltast hér við ræðu eins og þá, sem hv. þm. Hafnf. flutti hér nú, og að sú ræða skuli vera flutt af honum, sá tónn sem var í hans ræðu, því að hann lætur sem hann heyri ekki þær upplýsingar, sem fram koma í málinu, og virðist þar að auki ekki hafa lesið frv., sem er þó lágmarkskrafa til þess, að menn geti rætt það á þann hátt, sem hann hefur gert. Ég skal ekki fara langt út í þetta, því að til þess er ekki tilefni. En ég vil benda á, að þessi hv. þm. gefur í skyn og síðan gengur út frá því í sinum samanburði og málflutningi, að launauppbótin, sem greidd er og hann sjálfur átti hvað mestan þátt í, að var 20%, sé afleiðing gengisbreyt. En meginhluti þeirrar launahækkunar, sem ég talaði um, er einmitt vegna þessarar viðbótar, það veit hann vel.

Enn fremur setti hann það fram, að það mundi hafa verið hægt að halda uppi uppbótarleiðinni með 35 milljónum. Það þarf góða heilsu til að kasta fram öðru eins og þessu, þegar við vitum, að tvöföld þessi upphæð er alls ekki nóg. Þetta er sýnishorn af málflutningnum, gripið af handahófi.

Hann segir, að það sé dæmi um það, hvað óvandlega þetta sé unnið, að þar sé ákvæði, sem á þar ekki heima, um að greiða uppbætur á útfluttar sjávarafurðir. Hann virðist ekki hafa lesið frv. Þar stendur, að ákvæðin um tekjuöflun í þessum kafla séu framlengd, en ekki önnur.

Annars kvartaði hann yfir því, að það hefðu verið ógreinilegar upplýsingar, sem ég hefði gefið um afkomu ríkissjóðs. Ég get ekki á það fallizt, en það er ekki hægt að ætlast til, að rannsókn sé að fullu lokið, þar sem ekki var farið að vinna að henni fyrr en eftir stjórnarskiptin, og ég veit, að hann skilur það. Ég sagði það, sem átti að vera nægilegt fyrir þá, sem fylgjast vel með, eins og ég veit, að hann gerir, að ég vildi vekja athygli á því, að það vantaði stórar fúlgur í sambandi við launamálin, sem eftir gildandi lögum á að inna af hendi og hækka vegna gengisbreytingarinnar, svo að þar hljóta að verða 10–15 milljónir. Um þetta þarf því að hækka fjárlfrv. að óbreyttum þeim gjöldum til framkvæmda eins og gert er ráð fyrir, þó að það verði ekki hækkað um 30–40 milljónir. Því sér hver viti borinn maður, að annaðhvort verða tekjurnar að hækka eða að lækka verður einhverja gjaldaliði.

Um tekjuhorfurnar skal ég ekki fjölyrða. Við reiknum með lítils háttar meiri innflutningi, en í fyrra. Og þá sýnist mér láta nærri að áætla um 30 milljón króna tekjuauka á frv.

Að lokum vil ég segja það, að hv. 3. landsk. (GÞG) hefur notað kaffitímann til að fá upplýsingar um það, hvað mundi hækka verð og kaupgjald í landinu undir þeim kringumstæðum, að söluskatturinn félli niður og líka ef honum væri haldið áfram. Um þessa útreikninga skal ég ekkert segja. Ég get ekki gagnrýnt þá í einstökum atriðum, en við höfum séð þessa útreikninga hagfræðinga fyrr, og þeir hafa staðizt misjafnlega. En í því sambandi má spyrja: Eiga fjárl. þá að verða með 45–50 millj. kr. tekjuhalla? — eða þá í öðru lagi: Hvaða upphæðir á að lækka um 45–50 millj. kr.? Við þessu verður að gefa svör, ef málin eiga að vera rædd af viti.