30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Mér skilst á hv. þm. Hafnf. (EmJ), að málið horfi þannig við frá hans bæjardyrum, að það sé til lítils barizt fyrir afkomu ríkissjóðs að fá gengislækkun, ef eftir sem áður þurfi að framlengja þá skatta, sem stóðu undir niðurgreiðslunum. En hér er á fleira að líta. Ég er ekki víss um, að með þessu sé öll sagan sögð. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði varðandi hin auknu útgjöld ríkissjóðs. Þessi hækkun á gjöldum ríkissjóðs stafar fyrst og fremst af þeirri ákvörðun þingsins að bæta launamönnum landsins sín kjör. En ég er viss um, að hv. þm. Hafnf. og hans flokkur og ýmsir af mínum flokksmönnum, sem þessu máli fylgdu, muni áreiðanlega ekki gleyma því, þegar þeir tala við launamenn, að geta um, að þeir hafi heiðurinn af því að hafa bætt kjör launamannanna. En fyrst þetta hefur verið samþ., þá verður ríkið að taka á sig afleiðingarnar af því. Ég er ekki með tölur yfir, hvernig þessi útgjaldahækkun skiptist, en svo mikið er víst, að meira en helmingur af upphæðinni stafar af öðrum ástæðum, en gengisfellingunni. Þá er á það að líta, að hagnaður ríkissjóðs af gengisfellingunni er samkvæmt bráðabirgðaáætlun a.m.k. 40 milljónir yfir árið, eða 30 milljónir 3/4 hluta ársins. Stundum hefur það verið talinn hagur að losna við útgjöld. En það get ég staðhæft, að ef uppbótarleiðin hefði verið farin og hlutur sjómanna hefði verið ákveðinn eins og hann hefur verið og hlutur útgerðarmanna eins og litur út fyrir með núverandi verðlagshorfum, þá hefði kostnaðurinn við það verið lágt áætlaður 100 milljónir, því að hann hefði orðið mikið yfir 100 milljónir. Þetta dæmi þarf þess vegna sannarlega frekari skýringa við en hv. þm. Hafnf. vill vera láta, þar sem hann vill leggja að jöfnu hagnað ríkissjóðs af gengisfallinu við tap ríkissjóðs. Annars vegar eru 15–20 millj., ef það er svo mikið, sem ríkisútgjöldin aukast, en hins vegar er 100–120 millj. kr. kostnaður, sem fellur niður, og auk þess aukast tekjur ríkissjóðs, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir. Þetta raskar ekki því, sem hefur verið meginefnið í þessum umr., að fjárl. verða ekki skynsamlega afgreidd á þessu ári, nema sá skattur, sem hér er um að ræða., verði látinn haldast, því að það verður engin stj., jafnvel þó að það kæmi sú þriðja á einu og sama þingi, svo vitur og röggsöm, að hún beri fram slíkar sparnaðartillögur, hvað þá að þær yrðu samþ. á yfirstandandi þingi.