30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Emil Jónsson:

Hæstv. fjmrh. þótti það koma úr hörðustu átt, að ég og aðrir þm. skyldum leyfa okkur að gera aths. við þetta frv., svo mikið hefðum við staðið að því að auka útgjöld til launagreiðslna til opinberra starfsmanna og ýmislegs fleira og það væri ekki óeðlilegt, þó að ríkissjóður þyrfti einhverja peninga að fá til að standa undir þessu. Sömuleiðis var hann hneykslaður yfir þeim tón, sem væri í minni ræðu, þar sem ég létist ekki skilja það, sem hér væri um að ræða, og eiginlega afflytti eða talaði móti betri vitund. Ég talaði um þetta á sama hátt og ég tala um öll mál, eftir því sem ég hef vit til að ræða þau og án allrar undirhyggju. Ef ég hef að hans dómi farið of fjarri efni málsins eða hann finnur óviðeigandi tón í orðum mínum, þá verð ég að biðja hann afsökunar, því að ég hef ekki möguleika til að hafa það öðruvísi.

Ég sagði á þá leið, að mér fyndist það koma úr hörðustu átt, að það skyldi samtímis því, sem gengisfellingarlögin væru sett, líka þurfa að viðhalda svo að segja öllum þeim sköttum, sem lagðir hefðu verið á til að greiða fyrir bátafiskinn vegna fiskábyrgðarinnar. Það var grundvallarhugsunin, að mér skildist, þegar gengislækkunarlögin voru sett, að það ætti að mega forða almenningi frá þeim kostnaði, sem lagður var á vegna fiskábyrgðarinnar. Það, sem áður var tekið með sköttum, ætti nú að taka með gengislækkun. En það, sem nú er gert, er það, að almenningur verður að bera þær byrðar, sem gengislækkunin veldur, og líka skattana, sem lagðir voru á vegna fiskábyrgðarinnar. Almenningur verður því að bera þær byrðar, sem fylgdu gömlu leiðinni, og líka þær, sem fylgdu þeirri síðari. Það er þetta, sem ég og fleiri hv. þm. lýsum undrun okkar yfir. Og það er ekki furða, þó að við lýsum undrun okkar yfir því, því að almennt er talið, að byrðarnar á landsfólkinu vegna gengislækkunarinnar nemi kannske um eða yfir 100 millj. kr., og þegar þar við bætist, að viðhalda á öllum gömlu sköttunum, sem lagðir voru á vegna fiskábyrgðarinnar, þá er ekki að undra það, þó að við látum ekki í ljós tóma ánægju yfir þessari aðferð. Það er ekki hægt að lá okkur það.

Ég minntist líka á það áðan, að hæstv. fjmrh. hefði talið, að launauppbótin vegna gengislækkunarinnar mundi þurfa að vera 10–15 millj. kr. og hækkun á öðrum liðum vegna gengislækkunarinnar 10–15 millj. kr. Hæstv. ráðh. hefur lagfært þetta í síðari ræðu sinni og sagt, að mikið af þessari 10–15 millj. króna hækkun vegna launanna væri til orðin vegna þeirra hækkana, sem orðið hefðu á síðasta ári, og var gripið fram í og sagt, að sú upphæð mundi vera allt að 14 millj. kr. En ef þetta 20% álag nemur hálft árið því, sem hæstv. ráðh. segir, hverju mundi þá nema allt árið sú hækkun, sem verður vegna gengisfallsins og lýst hefur verið? Mér þykir augljóst, ef sú hækkun á launum, sem var gerð árið sem leið, nemur þeirri upphæð, sem hér hefur verið nefnd, þá muni sú hækkun, sem hlýtur að koma á ríkissjóð vegna gengisbreytingarl., ekki verða neitt lítil. En ef hinir ýmsu liðir á fjárl. hækka um 10–15 millj. kr., sem mér þykir furðulega lágt, og mætti segja mér, að það yrði hærra, þá er komið nærri því, sem ég sagði, að útgjaldaaukning ríkissjóðs yrði um 30 milljónir.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ríkissjóður græddi svo mikið á gengislækkuninni. Mér heyrðist hann nefna 40 milljónir. En ef hann græðir 40 milljónir á gengislækkuninni, hvað þarf þá að vera að samþ. þetta? Má þá ekki nota þá upphæð til að jafna með? Það kann að vera, að hæstv. fjmrh. finnist þetta óviðurkvæmilega spurt. (Fjmrh.: Já, mjög.) En svona liggur málið fyrir mér, af því að málið er lagt svo óskýrt fyrir. Því hefði ég óskað, að hæstv. ráðh. hefði lagt málið þannig fyrir, að hægt hefði verið að gera sér grein fyrir því. Það verður að athuga, að hér er ekki um að ræða smáupphæð, hér er að ræða um milljónatugi. Og það er vítavert, ef ekki fást betri upplýsingar um svona stórt mál, áður en það verður endanlega afgreitt.

Almenningur í landinu er vissulega fús til að taka á sig nokkra byrði til þess að tryggja, að útflatningsframleiðslan í landinu geti haldið áfram að starfa, af því að almenningi er ljóst, að ef hún stöðvast, þá verður víða þröng fyrir dyrum. En hann vill í fyrsta lagi ekki, að þessar byrðar séu lagðar á eins og gert var með gengislækkunarlögunum, og hann vill allra sízt, að versti skatturinn úr dýrtíðarl. sé framlengdur, því að ég fullyrði, að sá af sköttum dýrtíðarl., sem almenningi er tilfinnanlegastur, er söluskatturinn og hann kemur allra verst við. En það er einmitt hann, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að framlengja. Það var upplýst áðan af hv. 3. landsk., að söluskatturinn mundi valda um 3% hækkun á framfærslukostnaði. og það er vissulega mjög alvarleg viðbót við það, sem hefur verið gert með gengislækkunarl., þannig að útlit er fyrir, og hæstv. fjmrh. hefur ekki treyst sér til að vefengja það, að framleiðslukostnaðaraukningin, sem af gengislækkuninni og þessum söluskatti muni stafa, muni nema upp undir 16.6% eða kannske rúmlega það. Þetta er það, sem við erum að andmæla. Við erum að andmæla því, að hvor tveggja skatturinn sé lagður á, sá, sem af gengislækkuninni stafar, og sá, sem átti að standa undir fiskábyrgðinni. Mér finnst þetta of mikið til þess, að það sé hægt að ætlast til, að við rennum því niður þegjandi og hljóðalaust.

Hæstv. ráðh. vildi halda fram, að ég hefði ekki lesið frv. Ég hef ekki lesið það einu sinni, heldur tvisvar. (Fjmrh.: Ég var svo góðgjarn að gizka á það.) Já, það vantar ekki góðgirnina hjá hæstv. ráðh., en ég get ekki séð, að það stafi af vankunnáttu eða lestri, að ég fékk þá meiningu út úr því, sem ég fékk. Það hlýtur þá að stafa af skilningsskorti, en það, sem hægt er að lesa út úr frv., er það, að 3. kafli dýrtíðarl. er framlengdur, tekjuöflun hans. og þar með tekjuöflun ríkissjóðs, sem stendur í 29. gr., en þar er gert ráð fyrir, að 22 milljónir af tolltekjum ríkisins skuli renna í dýrtíðarsjóð. Ákvæðin um dýrtíðarsjóð eru því ekki felld niður. Það hefði því sannarlega þurft að undirbúa þetta betur, svo að unnt væri að sjá, hvað er verið að framlengja og hvað ekki, því að það verður ekki séð af frv., eins og það er nú.