30.03.1950
Efri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Virðulegi forseti Ég sé ekki ástæðu til að hafa langar umræður um þetta mál, því að ég geri ráð fyrir, að örlög málsins séu ráðin án tillits til þeirra raka, sem hér kunna að koma fram. — Hv. þm. Str. og landbrh. sagði, að það væri ekki skemmtilegt að þurfa að bera fram frv., er þyngdi enn skattabyrðar almennings. Þetta hefur heyrzt í hvert skipti, sem tollar hafa verið hækkaðir eða skattar lagðir á, svo að þetta er engin ný viðkvæmni, sem kemur fram hjá hæstv. ráðh. En það má segja, að það þarf meira, en lítið feimnisleysi til að leggja þetta frv. fram. Svo blygðunarlaust er framferði hv. stjórnarflokka, að öllum heiðvirðum mönnum hlýtur að blöskra. Í öllum umr. um gengislækkunina undanfarið hefur verið gert ráð fyrir því, að á móti gengislækkuninni kæmu einmitt lækkanir á tollum. Þetta var það atriði, sem enginn var í vafa um. Hinar gífurlegu tollahækkanir á sínum tíma voru einmitt afsakaðar með því, að þær væru lagðar á til að bera uppi taprekstur útgerðarinnar og kæmu í staðinn fyrir gengislækkun. Síðan var gengislækkunin afsökuð með því, að ekki væri lakara að lækka krónuna, því að þá væri hægt að afnema tollana. Meira að segja er gert ráð fyrir þessu í álitsgerð hagfræðinganna, Ólafs Björnssonar og Benjamíns Eiríkssonar, sem sóttur var til Ameríku, og þar er talað um, að æskilegast væri, að róttækar tollalækkanir gætu farið fram. En nú er svo komið, að sá kostnaður, sem af gengislækkuninni leiðir, er færður fram sem rök til þess að hækka tollana. Hér er sem sagt svikamyllan sett í fullan gang og hringavitleysan í algleymingi. Gengislækkunin er nú færð sem rök fyrir því, að það þurfi að afla ríkissjóði tekna og þess vegna að hækka tollana. Hér er því búið að fara algerlega hringinn. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstjórn hafi velt vandlega fyrir sér, hvaða áhrif gengislækkunin mundi hafa, og ætti ekki að vera að sjá það núna fyrst, að hún sé kostnaðarsöm og það vanti fé í ríkissjóð — eða ef svo er ekki, þá ættu hæstv. ráðherrar a.m.k. að geta viðurkennt, að þeim hafi missýnzt, þeir hafi ekki getað séð fyrir, hvað hér var um að ræða, og ættu þeir þá ekki síður að viðurkenna, að þeim hafi missýnzt um fleira, og það ekki í smærri atriðum. Frystihúsin telja nú, að 75 aura verðið, sem þau greiða nú, sé 15 aurum of hátt, því að þau geti ekki staðið undir slíku. Hvernig fer þá um bátaútveginn? Sennilega mun ekki líða á löngu, áður en gripið verður til fiskábyrgðarinnar aftur til þess að bátaútvegurinn stöðvist ekki. Þá verða lagðir á nýir tollar og það réttlætt með því, að annars þurfi aftur að grípa til gengislækkunar. Síðan verður krónan lækkuð á ný og það réttlætt með því, að annars þurfi aftur að gripa til tollahækkana. En það er spurning, hversu lengi svikamyllan geti þannig snúizt. Það er spurning, hve lengi það getur gengið að þrengja kjör fólksins og meina því að lifa mannsæmandi lífi. En valdhafarnir virðast ekki hugsa um það.

Það hafa ekki verið gefnar neinar upplýsingar um það, hvað þessar tollahækkanir nemi hárri fjárupphæð. Það eru líklega um 50-60 millj. kr. og þá er það um 20 millj. kr. bein hækkun frá því, sem áður var. Hækkun á verðtolli vegna gengislækkunar mun vera yfir 30 millj. kr. Nú var reiknað út, að fiskábyrgðin mundi kosta um 70–80 millj. kr. M.ö.o., ríkisstj. fær þessar 70–80 millj. kr. til ráðstöfunar til annarra hluta, auk þessarar 50 millj. kr. hækkunar á tollum, eða alls a.m.k. 120 millj. kr. lauslega áætlað, sem viðbót við tekjur s.l. árs. Auk þessa voru lagðir á skattar í sambandi við gengislækkunina, sem engin áætlun hefur verið gerð um, og upplýsingar liggja ekki fyrir um, hvað ríkisstj. áætlar þá hátt. En öllu þessu fé hefur nú verið ráðstafað, en auðvitað hlýtur það að létta undir með öðrum greiðslum úr ríkissjóði. En til hvers þarf þá allt þetta fé? Fyrir því hefur engin grein verið gerð. Hæstv. landbrh. nefndi nokkrar tölur, 30–40 millj. Og ég geri ráð fyrir, að hann hafi nefnt hæstu tölur, enda skakkaði ekki minna en um 5 millj. miðað við lágmark og hámark á hverjum lið. En hér er um að ræða 120 millj. til viðbótar, sem ríkissjóður fær til umráða.

Það hefur verið reiknað út, að söluskatturinn hækki framfærslukostnaðinn um 4%. Þegar báðar gengislækkanirnar, dollaragengislækkunin í haust og þessi núna, hafa verið teknar með og enn fremur tollahækkanirnar, þá hefur framfærslukostnaðurinn hækkað um ca. 25%, eða 1/4, og er þó hér reiknað með þeim allra lægstu tölum, sem hugsanlegt er. Og hvað geta valdhafarnir vænzt þess lengi, að láglaunamenn uni við slíkt? Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að bjóða mönnum. Það ætti hæstv. ríkisstj. að taka með í reikninginn.