31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Forseti. Það eru ekki komin þessi nál. enn þá, sem von er á frá minni hl. n. Fjhn. hefur klofnað um þetta mál. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til málsins við 1. umr. þess, og ég þarf ekki að endurtaka það hér. Ég sýndi þá fram á, að ef miðað er við heilt ár, þá hækkar verðtollurinn og söluskatturinn um a.m.k. 50 millj. kr. vegna gengisbreyt. Fiskábyrgðin var áætluð um 70 til 80 millj. kr. á ári, svo að borið saman við það, að fiskábyrgðarl. hefðu ekki verið numin úr gildi og gengi krónunnar hefði verið óbreytt, þá hefði ríkissjóður nú a.m.k. 120 millj. kr. meira til ráðstöfunar en ella, miðað við heilt ár. Ef við berum saman síðasta ár og þetta ár og miðum við þá hækkun á tollum vegna gengislækkunarinnar, það sem eftir er ársins, þá ætti ríkissjóður að hafa nálægt 75 millj. kr. meira úr að spila, en á síðasta ári. Hæstv. fjmrh. gaf aftur á móti í hv. Nd. og talsmaður hans hér í hv. d. við 1. umr. málsins ekki upp meira en 30 til 40 millj. kr., sem þyrfti í auknum útgjöldum, þ.e.a.s. hann gat ekki tínt meira til, enda þátt hæstv. ráðh., hv. þm. Str., sem framsögu hafði í málinu hér í hv. d., segði okkur, að það væru að koma á daginn, svo að segja á hverjum degi, ný útgjöld, sem við þetta bætast. Svo að það getur verið,. að við fáum einhverjar meiri upplýsingar um þetta bráðlega. Hér er þess vegna verið að leggja á milljónaálögur, án þess að hægt sé að rökstyðja, að nauðsyn sé til þess.

Ég álít það beinlínis skaðlegt, að ríkissjóður hafi slíkar umframtekjur til umráða. Það ber nú mikla nauðsyn til þess að draga úr hinni óstjórnlegu þenslu ríkisbáknsins. Hv. form. fjvn. upplýsti það við 1. umr. málsins í gærkvöld, að útgjöldin til þessa ríkisbákns hefðu hækkað um 20 millj. kr., eftir athugun, sem hann hefði gert, á árunum 1947–1949. Ef nú hæstv. ríkisstj. hefur meira fé til umráða, en hún þarf á að halda, þá verður það ekki bara til þess, að ekkert verður gert til þess að draga úr þessari hóflausu þenslu, heldur beinlínis eykur líkurnar á því, að hún verði stóraukin. Það eina, sem hæstv. ríkisstj. hefur sér til varnar, er, að innflutningurinn muni stóruni minnka vegna minnkandi gjaldeyristekna. Já, öðruvísi mér áður brá. Það eru ekki margar vikur síðan, jafnvel ekki margir dagar síðan gengislækkunin átti að bjarga þjóðinni. Hún átti að stórauka gjaldeyristekjurnar, vegna þess að hún átti að verða til þess, að hver fleyta færi á flot, og þar með auka tekjur ríkissjóðs, svo að hægt væri að draga úr tollum. Og gjaldeyristekjurnar áttu að aukast svo stórkostlega, að hægt væri að gera verzlunina frjálsa. því er heitið í sjálfri grg. frv. Og hagfræðingarnir, sem að þessu máli hafa staðið og skrifað það langa álit, sem grg. fylgir, þeir telja gengislækkunina gagnslausa sem nokkra varanlega úrbót, nema þetta takist. En nú heyrum við, að það þurfi að stórhækka tolltekjurnar vegna minnkandi gjaldeyrisframleiðslu, eftir að „bjargráðið“ kemur til framkvæmda. Svo að frv. um gengisbreyt. er ekki fyrr orðið að l. en slík yfirlýsing kemur frá ríkisstj. Ég held, að það sé varla hægt að hugsa sér öllu ákveðnari gjaldþrotayfirlýsingu, öllu ákveðnari yfirlýsingu um skipbrot gengislækkunarstefnunnar. Ég gat ekki hugsað mér öllu betri staðfestingu á því, sem ég sagði hér í gær, en orð hæstv. landbrh., þar sem hann sagði í sinni ræðu: Gengislækkunin er síðasta tilraun drukknandi þjóðfélags. — Fyrir hálfum mánuði var gengisbreyt. bjargráð, ráðstöfun sem átti að skapa þjóðinni velmegun með því að færa okkur frjálsa verzlun og betra líf. Nú er hún tilraun drukknandi þjóðfélags. Þessi hæstv. ríkisstj. hefur sannarlega fæðzt steinblind. En síðustu dagana virðist hún samt sem áður vera að byrja að sjá.