31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Hæstv. ráðh. lét þess getið, að eigi mætti ætla, að allar hækkanir á fjárlagafrv. stöfuðu frá gengislækkuninni. Fyrr má nú rota en dauðrota. Eftir áætlunum hæstv. landbrh. munu beinar hækkanir nema upp undir 15 millj. kr. En hitt er eigi upplýst, hvort gert er ráð fyrir, að framkvæmdir þær, sem nú er gert ráð fyrir í frv., verða hinar sömu. (Fjmrh.: Það er reiknað með sömu krónutölu á rekstrarhliðinni.) Þá er ætlunin að skera niður verklegar framkvæmdir. (Fjmrh.: Um það hafa engar ákvarðanir verið teknar.) Þá hef ég fengið þetta upplýst. Hinu furða ég mig meira á, að staðhæft skuli vera, að aldrei hafi staðið til að afnema söluskattinn, þótt gengislækkunin væri ákveðin og niðurgreiðslum hætt. Ég hlustaði á umr. í Nd., og við ræddum nú þetta mál í gærkvöld. Ég vil bara, að ummæli eins hæstv. ráðh. standi eigi án mótmæla. Er þá rétt að lesa 1. gr. III. kafla l. nr. 100 1948, en hún [19. gr. l.] hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“ Af því, sem sjóðnum er ætlað til að standa straum af þessu, eru viðbótargjöld fyrir innflutningsleyfi. Voru þá skattar hækkaðir. Tekjur dýrtíðarsjóðs voru áætlaðar: 22 millj. kr. af tollum, af söluskatti 36 millj. kr. og síðan gjöld þau, sem um ræðir í 30.–31. gr. l. Málið var síðan lagt þannig fyrir, að menn yrðu að gera það upp við sig, hvort þeir vildu fremur hina háu tolla og fá þá e.t.v. hækkun á þá enn um 40 millj. kr. eða gengislækkunina og fá þá tollana lækkaða eða a.m.k. komast hjá hækkun. Það, sem hæstv. fjmrh. sagði um fjárlagafrv., skiptir svo eigi öðru máli en því, að það sýnir, hvaða álit fyrrv. fjmrh. hafði á tekjuþörf ríkissjóðs.

Mér þótti rétt að benda á þetta varðandi ummæli hæstv. ráðh., en vísa að öðru leyti til þess, sem áður hefur, verið um þetta sagt.