31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Hæstv. ráðh. sagði, að eigi mætti tefla á tæpara vað með skattana. Ég leit svo á, að fjárlagafrv. hefði verið samið þannig, að fyrrv. fjmrh. vildi fá út hallalaus fjárl., enda gert ráð fyrir yfir 70 millj. í óvissum útgjöldum og rekstrarafgangi á rekstraryfirliti. (Fjmrh.: Söluskatturinn er ákveðinn í frv.) Ég veit það, en ekki hækkun hans. Þegar hæstv. ráðh. gaf upplýsingar um, hvað á vantaði, þá var það út frá sjónarmiði hallalausra fjárl. En hér stendur það fast, ef tölurnar fara nærri lagi, að um er að ræða 30–40 millj. kr. meiri tollahækkanir, en þörf krefur. Við þetta bætist, að nauðsynlegt er, að útgjöldin til ríkisbáknsins verði skorin niður. En tollarnir eru til þess að gera það líklegra, að þenslan haldi áfram. — Hæstv. ráðh. sagði, að það væri aðeins lítill hluti þessarar upphæðar, sem stafaði frá gengislækkuninni. Mikið var. Fyrir nokkrum vikum áttu tollarnir að lækka vegna gengislækkunarinnar, en nú er viðurkennt, að þeir eigi að hækka. Hæstv. ráðh. gerði eigi ráð fyrir nema 20–30 millj. kr. útgjöldum vegna gengislækkunarinnar. Ég hygg, að segja megi, að hækkun á launum opinberra starfsmanna sé afleiðing hennar. Þeir væru eins vel settir, þó að þeir hefðu haldið launum sínum og engin gengislækkun orðið. Þeir hafa ekki gert neina athugasemd við það, að form. þeirra var látinn semja álitsgerð um, að gengislækkun sé nauðsynleg. En samtímis fá þeir vilyrði um 20% launahækkun, sem svarar til þess, sem þeir missa í við gengislækkunina. Mönnum sýnist, að hér hljóti að vera samband á milli. — Jafnvel þótt gengið yrði inn á rök hæstv. ráðh. um, að útgjaldaaukningin, miðað við fjárlagafrv., muni nema 30–40 millj. kr., þá er engin grein gerð fyrir því, hvernig verja eigi því fé, sem inn fæst vegna tollahækkana, sem eru bein afleiðing gengislækkunarinnar.

Hæstv. ráðh. var að vitna í það, hvernig orðið hefði, ef gengislækkunin hefði eigi verið framkvæmd. En það er eigi hægt að verja þetta með því, hvað hefði orðið. Það þurfti að gera róttækar ráðstafanir. Sýnt er hins vegar, að gengislækkunin er byggð á röngum forsendum, og kom fram glögg viðurkenning þess á ræðu hæstv. ráðh. Þá sagði hæstv. ráðh., að hefði gengislækkunin eigi komið til, þá hefðu tollahækkanir orðið á annað hundrað millj. kr. í stað 50 millj. kr. nú, ef miðað er við fyrra ár. Þetta kemur þó eigi heim við áætlunina. Í byrjun ársins var gert ráð fyrir allt að 80 millj. kr. til að standa undir fiskábyrgðinni í stað 45–50 millj. kr. á fyrra ári. Hækkunin nemur þá ca. 30 millj. kr. En nú hækka þessir skattar um 50 millj. kr., miðað við s.l. ár. Auk þess voru lagðir á nýir skattar samkv. gengisskráningarl., sem að vísu var ráðstafað samtímis. En þeir hljóta samt að létta af ríkissjóði útgjöldum, sem annars hefðu verið óhjákvæmileg. Þá hækka erlendar vörur í verði vegna gengislækkunarinnar um ca. 220 millj. kr., miðað við óbreytta innflutningsáætlun. Verður það skattur á þjóðina vegna gengislækkunarlaganna.