31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. tók eigi líklega í það að breyta frv. og vildi eigi fallast á brtt. mínar, þótt mér virðist, að honum finnist ástæða til að taka afstöðu atvinnubilstjóra til athugunar. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þeir hafa orðið mjög afskiptir um innflutningsleyfi fyrir bílum, allt of afskiptir. En það táknar, að þeir þeirra, sem hafa þó keypt nýja bíla og þá á svörtum markaði, hafa orðið að borga gjaldeyrisskattinn á hinu mikla verði. Gerir það verðið hærra. Þannig hefur skatturinn komið niður á þeim, þótt þeir hafi ekki innflutningsleyfi. Ég viðurkenni þó, að ég álít þetta ekki eins mikið atriði varðandi gjaldeyrisskattinn og um söluskattinn. Hann kemur almennt niður á atvinnubílstjórum. Væri því miklu meira virði frá sjónarmiði mínu, að samkomulag gæti orðið um, að söluskatturinn næði eigi til þeirra. Nú mun það ekki fást. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að leið mundi vera til þess að söluskatturinn kæmi eigi niður á atvinnubílstjórum sjálfum, því að hægt væri að hækka ökutaxtann. Það er að vísu rétt. Sá „möguleiki“ er fyrir hendi. En torsótt hefur verið fyrir samtök bilstjóranna að fá nauðsynlega hækkun á töxtum til samræmis við aukinn kostnað. En jafnvel þótt núv. hæstv. ríkisstj. og þau verðlagsyfirvöld, sem starfa í þjónustu hennar, vildu sýna bílstjórum tilhliðrunarsemi, þá er nú svo komið, að þeir telja vafasamt, að þeir hefðu hag af hækkuðu ökugjaldi. Samdráttur er í atvinnurekstri þeirra. Þeir telja, að fólki finnist það eigi hafa jafnvel ráð á að taka sér leigubíl sem áður, og telja þó, að það fari að spara enn meir við sig, ef taxtinn hækkar. Tel ég þetta því tvísýna leið. Ég skal þó eigi fullyrða neitt um það, hvort þeir vildu hækka taxtann eða ekki. En það hefur verið rætt á meðal þeirra, hvort slíkt sé æskilegt og árangur muni nást af því. Ég held, að það eigi að undanþiggja þá söluskatti, og mælist til þess, þó að till. mínar verði eigi samþ., að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál til athugunar, svo að létta megi að einhverju leyti af atvinnubílstjórum þeim byrðum, sem á þá eru lagðar með sköttum skv. þessu frv., — vegna erfiðleika atvinnugreinar þeirra.