07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég skal ekki mótmæla því, að æskilegt væri, að frv. það um meðferð opinberra mála, sem liggur fyrir hv. Nd., gangi fram. En viðvíkjandi því, að ég spurði hæstv. ráðh. um það, hvort það frv., sem liggur fyrir hv. Nd. um þetta, mundi ganga fram, þá hefur það verið venja hér að beina fyrirspurnum sínum um frv., sem ríkisstjórnir flytja, til þess ráðh., sem hlut á að máli, en ekki ganga fyrir hvern þm. og spyrja, hvort þeir muni samþ. það, eins og hæstv. ráðh. þó benti mér á að gera, því að venjulega kynna ráðherrar sér það, hvaða líkur eru til, að frv., sem þeir flytja, gangi fram, einkum þegar þau eru búin að liggja fyrir áður á þingi, og þetta er ekki óeðlilegt.

Hvað eigi að skoða gífurlegan kostnað hjá okkur, eins og tölur eru orðnar hjá okkur, getur verið álitamál. Ég skal láta útrætt um það. En einhvern tíma hefði það þótt gífurlegur kostnaður, sem verður af þessu frv. um meðferð opinberra mála, ef það verður samþ., því að það er vitað mál, að meðferð þessara mála, sem þar er gert ráð fyrir og ég mótmæli ekki, að sé nauðsynleg, hleður mjög utan á sig. Það þekkja þeir, sem hafa séð það embættisbákn, sem er utan um meðferð þessara opinberu, mála annars staðar, þar sem hún er með þessu sniði. En sleppum því.

Um aukadómara segir hæstv. ráðh., að þeir hafi komið að litlu gagni. Þó er ég ekki í vafa um það sem dálítið kunnugur maður, þó að ég hafi aldrei verið dómari í sjódómi, að meðdómendur í sjódómi hafa oft gefið mjög merkilegar upplýsingar. En það er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. segir, að þetta hefur ekki orðið með sama hætti hér og tíðkast annars staðar. Það er eins og það fyrirkomulag á réttarfarinu, sem hér hefur verið, hafi sett, ef svo má segja, eins konar einræði dómaranna á öll dómsmál á Íslandi, því að þau eru með allt öðrum hætti en tíðkast nokkurs staðar annars staðar í opinberum málum. Ég held, að Holland og Svíþjóð hafi verið þau síðustu lönd, sem breyttu sínu réttarfari að þessu leyti, og það mun nú komið á annan áratug síðan. Og við erum eina ríkið, sem hefur leynilega rannsókn í þessum málum, því að það er rangt hjá hæstv. ráðh., að dómurinn sé fyrir opnum tjöldum. Hann hefur ekki verið það í mörg ár, og það er það, sem einkennir okkar réttarfar. En ég er ekki í vafa um, að meðdómendur geti gefizt vel, ef þeir eru kosnir af þeim mönnum, sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Ég er ekki í vafa um það, að þeir gætu gerbreytt verðlagseftirlitinu, ef þeir fyndu sig sérstaklega fulltrúa fyrir þá, sem þeir eiga að gæta réttar fyrir, og það er eitt meðal annars, sem ég er ekki í vafa um, að hæstv. dómsmrh, er kunnugt, að um leið og teknir hafa verið upp kviðdómar eftir ensku fyrirkomulagi, um leið og réttarfarinu, var breytt í Evrópu frá gamla fyrirkomulaginu, þá voru teknir upp víða um lönd kviðdómar, sem reyndust illa. Svíar tóku upp meðdómsfyrirkomulag, og hefur það reynzt vel í Svíþjóð, og ég er viss um, að meðdómendafyrirkomulagið mundi reynast miklu betur en ef við tækjum upp kviðdóma. Ég er þess vegna fullviss um það, að þegar breytt hefur verið til um okkar réttarfar, eins og gert er ráð fyrir, að að nokkru leyti verði breytt hér, þá er það meðdómsfyrirkomulagið, sem við eigum að nota, eins og þær þjóðir, sem hafa tekið það upp. Og sumar þjóðir, sem kviðdómsfyrirkomulag hafa haft hjá sér, eru að hverfa frá því og taka upp meðdómsfyrirkomulagið.

Viðkomandi því, að þessi ákvæði, sem hér er um að ræða, breyti litlu, þá er því til að svara, að þau breyta í verulegum atriðum. Nú er rannsóknin þannig, að þar sem dómurinn er opinn, þá er það þannig, að lögreglan — t.d. í nálægum löndum — framkvæmir rannsókn, sem er leynileg, sem getur staðið í eina til tvær vikur. Síðan er þeirri rannsókn skilað til dómara, og eftir það er rannsóknin fyrst opinber, nema svo standi á, að um hneykslismál sé að ræða, svo að ekki sé hægt að hafa dóminn opinn. Og þegar lögreglan er búin með sitt fyrsta stig, þá eru lesnar upp hennar skýrslur, þar sem blaðamenn sitja og hlusta á skýrslurnar, sem lögreglan birtir. Og hér mundi það verða þannig, að eftir að verðlagsstjóri hefur gert sínar athuganir og e.t.v. rannsóknarlögreglan einnig, þá mætti haga meðferð málanna þannig, að dómþingin væru opin á þann hátt, að framhald rannsóknarinnar væri þá fyrir opnum dyrum. Nú er það þannig, að lögreglan framkvæmir sína rannsókn, og síðan er rannsóknin hjá dómaranum að öllu leyti leynileg. Ef svo er ekki, þá er búið að gerbreyta fyrirkomulaginu á þessu, og það hefur þá alveg farið fram hjá mér, ef nokkurn tíma eru opnar dyr fyrir almenning á Íslandi til þess að hlusta á rannsókn mála. En þetta er alveg sérstakt við meðferð opinberra mála hér hjá okkur, að rannsókn þeirra er leynileg. Þó að það vanti þarna í þessa keðju, sem hæstv. dómsmrh. bendir á, að ekki er ætlazt til þess, að verjandi haldi sóknar- og varnarræðu fyrir þann, sem ákærður er, vegna þess að réttarfarinu hefur ekki verið breytt í það horf, sem annars staðar tíðkast og gert er ráð fyrir í frv. um meðferð opinberra mála, sem liggur nú fyrir hv. Nd., þá er hér fullnægt því sjónarmiði í þessu frv., sem fyrir liggur, sem mestu skiptir, að eftir að lögreglan hefur lokið sinni rannsókn og þegar dómarinn les skýrsluna upp fyrir kærðum og fyrir vitnum og lætur vitnin staðfesta framburð sinn fyrir dóminum, þá er rétturinn opinn, og það er það, sem hér á að eiga sér stað.

Ég ætla svo ekki að ræða um þetta nánar. En ég vil segja þetta: Hvar haldið þið, að sé til land í víðri veröld, sem hefur þó eins mikið af svörtum markaði, okri og verðlagsbrotum eins og á Íslandi tiltölulega, sem kannske er meira en nokkurs staðar annars staðar tíðkast — hvar haldið þið, að sé til land, þar sem höfð er jafnmikil leynd yfir þessum hlutum og hér? Og hver af hv. þm. t.d. veit um, hvort þeir, sem framið hafa þau, hafa fengið dóma fyrir það? (LJóh: Þetta kemur í blöðunum við og við.) Það fer þá eitthvað einkennilega fram hjá mér. En ef maður tekur t.d. svo kallað perlufestarmál í Osló; rannsókn þess fór fram fyrir opnum tjöldum, og við annað svipað mál í Danmörku komu 53 menn, þar af nokkrir milljónamæringar, og sumir þessara manna komnir í tugthús. Þegar verið var að rannsaka þetta mál, kóngulóarmálið í Kaupmannahöfn, þá voru þeir, sem við það komu, frammi fyrir almenningi, og m.a. voru þar blaðamenn.

Það má vitanlega segja, að fyrst þessi mál, sem þetta frv. fjallar um, eigi að vera opinber, þá eigi öll hliðstæð mál að vera opinber, og því eigi fyrst og fremst að samþ. hitt frv., sem liggur fyrir hv. Nd. um meðferð opinberra mála. Það er náttúrlega rökrétt út af fyrir sig, sem ég skal ekki taka sérstaklega til athugunar. En þetta mál, sem hér liggur fyrir, er tekið sérstaklega upp vegna þess, að þetta eru atriði, sem skipta almenning meiru en flest eða allt annað, og þess vegna er eðlilegt, að þessi mál, sem hér er frv. um, séu tekin út úr, meðan ekki er hafður sá háttur á meðferð opinberra mála hér, sem annars staðar tíðkast og gert er ráð fyrir í frv., sem liggur fyrir hv. Nd. um meðferð opinberra mála, að verði tekinn upp hér. Og mér virðist, að sá opni háttur, sem gert er hér ráð fyrir í meðferð þessara mála, verðlagsmálanna, eftir að dómurinn og dómþingin hafa tekið við skjölum frá lögreglunni, sé verulegt öryggi fyrir almenning, þó að ég viðurkenni með hæstv. ráðh., að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir allri þeirri breyt. viðkomandi þessum málum í meðferð þeirra, sem gert er ráð fyrir í hinu frv., sem liggur fyrir hv. Nd., um meðferð opinberra mála, ef sú breyt. verður á gerð, sem þar er gert ráð fyrir, því að þar eru sækjandi og verjandi málsins á síðasta stigi. Ég tel því, að mjög nauðsynlegt sé, að þessu máli verði hraðað, þannig að það verði afgreitt sem allra fyrst.

Ég hef látið hjá líða að ræða það, að í frv. eru ýmis önnur ákvæði, svo sem refsiákvæði o.fl., sem eðlilega alls ekki eru í því frv., sem liggur nú fyrir hv. Nd. um meðferð opinberra mála, þannig að þó að það frv. væri samþykkt, þá mundi það ekki ná yfir nema örlítið af því, sem tekið er tillit til í þessu frv.