07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera tilraun til þess að breikka bilið á milli skoðana okkar hv. þm. Str. og mín í þessu efni, eins og mér finnst hann þó hafa tilhneigingu til að gera. Ég held, að við séum sammála um, að það sé æskilegt — og það hef ég lagt áherzlu á —, að almenningur fylgist betur með gangi opinberra mála, en verið hefur fram að þessu. Ég hef talið þetta svo mikla nauðsyn, að ég hlutaðist til um, að samið væri frv. að miklum lagabálki til endurbófa á þessum málum, sem lá fyrir síðasta þingi og hefur verið lagt fyrir þetta þing aftur. Ég lagði mikla áherzlu á það við mína meðstjórnendur í ríkisstj. í fyrra, að þetta frv. yrði samþ. Nú hafði ég ekki sömu aðstöðu, þar sem ráðuneytið hafði sagt af sér og samstarfi flokkanna um reglulega ríkisstjórn var slitið. En ég hef lagt áherzlu á það mikla í þinginu við þá, sem ég hef rætt við um þetta mál, að það frv. verði samþ., og ég hef lagt á það svo ríka áherzlu m.a. vegna þess, að einn aðalþátturinn í baráttunni gegn refsiverðu athæfi er almenningsálitið. Og almenningsálit um þessi mál skapast ekki nema því aðeins að þeir, sem fyrir sökum eru hafðir, séu tilgreindir og almenningur viti um þá og fái að fylgjast með því, í hverju brot þeirra séu fólgin. — Það, sem ég hef á móti þessu frv., er ekki, að það leiði til þess að gera almenningi brotin kunnugri, en verið hefur, heldur það, að frv. lætur bara þessa hlið málsins gersamlega óbreytta frá því, sem verið hefur. Eina breyt. með frv., frá því sem verið hefur fram að þessu, er, að það á að vera umskipaður dómstóll í þessum málum. Það er eina bótin, og hv. þm. Str. getur ekki sýnt fram á neina aðra breyt. Hv. þm. Str. hefur verið hér sakadómari, eða gegnt tilsvarandi starfi, verið lögreglustjóri hér í bæ, og hann er því nákunnugur — og ég hef m.a. verið þar viðstaddur sem unglingur —, að við réttarhöld hafa dómarar leyft almenningi að vera viðstöddum rannsókn mála, ef dómurinn taldi ekki neitt athugavert við það. Ég man það, að þegar faðir hv. þm. Seyðf., Jóhannes Jóhannesson, var hér dómari í þessum efnum, þá var það iðulega, að ég og fleiri unglingar, sem áttum heima í nágrenni við hegningarhúsið, fórum þangað út og vorum viðstaddir réttarhöld í opinberum málum, og það var ekki á nokkurn hátt amazt við því, að almenningur eða fulltrúar blaðanna væru þar viðstaddir. Þetta hefur farið alveg eftir áliti hverju sinni, nákvæmlega eins og segir hér í frv.: „Dómþing verðlagsdóms skulu vera opinber, nema dómur ákveði annað.“ (16. gr.). Dómurinn hefur þarna alveg óbundnar hendur til þess að ákveða, hvenær dómþingin skuli vera opinber, nákvæmlega á sama hátt og hann nú hefur þetta í hendi sér. Og t.d. um ýmsa málaflokka var sagt rækilega frá þeim í blöðum hér áður fyrr, svo sem landhelgismál. Þetta hefur breytzt á seinni árum, en það var iðulegt áður fyrr, að blaðamenn voru viðstaddir rannsókn í landhelgismálum. Ég var sem unglingur viðstaddur t.d. réttarhöld, sem Jóhannes Jóhannesson hafði í áfengissmyglunarmálum, sem hér voru, sem bæði innlendir menn og útlendir komu við, og þetta var opinbert, af því að dómurinn leit þannig á, að það væri ekkert, sem gerði það að verkum, að hættulegt væri, að almenningur væri viðstaddur réttarhöldin, og þá fékk almenningur að vera viðstaddur réttarhöldin. Eins er það iðulegt í sjódómsmálum, að almenningur fær að vera viðstaddur, og í sjóprófum og þess háttar. Þannig hefur dómurinn þetta í hendi sér.

En meðferð mála greinist að vissu leyti, getur maður sagt, í tvennt og að vissu leyti í þrennt: í lögreglurannsókn og í réttarrannsókn, þar sem dómari rannsakar mál. En komið getur fyrir, að alls ekki sé hægt að hafa réttarrannsókn máls opinbera, heldur verði að halda henni leyndri, til þess að gera ekki sökudólgum aðvart, og í þeim tilfellum er ekki hægt að láta almenning vera viðstaddan, þó að það sé oft mögulegt. Þetta verður alltaf matsatriði. Viðkomandi lögreglurannsókn er rannsókn mála þannig farið, að almenningur getur ekki verið viðstaddur. En réttarrannsókn getur verið með tvennu ólíku móti. En aðalþáttur málsmeðferðar erlendis, sem hv. þm. Str. réttilega benti á, að ætti að vera okkar fyrirmynd, er sókn og vörn mála fyrir dómi, þar sem allt, sem búið er að rannsaka, er lagt fram og dómarar, einn eða fleiri, kveða svo um, eftir að sókn og vörn hefur fram farið. Stundum þarf enga sókn, ef um lítil mál er að ræða. En vörn þarf að vera í málum, og þá fær almenningur að vera viðstaddur þessa athöfn, og það tel ég höfuðatriði í allri málsmeðferð, að slíkur háttur verði tekinn upp. En það hefur bara gleymzt í þessu frv. að taka fram þessi höfuðatriði, ef þetta á að vera trygging fyrir að ná því, sem hv. þm. vilja með frv. Það hefur bara gleymzt að láta það koma fram, sem hv. þm. segir nú, að sé höfuðatriði, svo að þá verður að taka málið upp til miklu rækilegri athugunar en gert hefur verið, og sú athugun er auðvitað eðlilegt, að gerð sé í sambandi við frv. um meðferð opinberra mála, sem nú liggur fyrir hv. Nd., þar sem þessi efni eru skoðuð ofan í kjölinn af færustu mönnum og gerðar um þetta góðar og gagnlegar till. Ég held, að ég og hv. þm. Str. séum sammála um það, að þessi endurbót þurfi að komast á. Ég hef ekkert á móti því, ,ati þessi endurbót verði gerð varðandi þennan málaflokk, sem frv., sem fyrir liggur, er um. En ég tel, að hún þurfi engu síður að komast á varðandi aðra málaflokka. Og varðandi þessi verðlagsbrot eru alltaf öðru hvoru birtir listar í blöðum yfir þau brot í þessum efnum, sem framin hafa verið, og auðvitað eiga blöðin kröfu á því að fá að sjá dóma í þessum málum og kynna þau mál fyrir almenningi. Það er ekkert því til fyrirstöðu, eins og nú er, að um leið og birtur er dómur í verðlagsmálum, sé birt mynd af þeim mönnum, sem brotin hafa framið. En varðandi ekki aðeins verðlagsmál, heldur afbrotamál yfirleitt, þegar ég varð dómsmrh., þá var komið samkomulag á milli dómara og blaðamanna um að birta ekki nöfn þeirra manna, sem brytu, vegna þess að það gæti meitt þá. Ég bannaði þetta og sagði, að ef sagt væri frá málum yfirleitt, þá ætti að birta nöfn manna. Þetta var að vísu miskunnsamur hugsunarháttur og fallegur, en hann verkar alveg á móti þessari hlið réttargæzlunnar, sem ég heyri á hv. þm. Str., að hann er mér alveg sammála um að sé verulegt atriði.

Ég held, eins og ég sagði, að þó að okkur hv. þm. Str. komi ekki alveg saman um, hvað felst í þessu frv., sem fyrir liggur, þá sé það meira að deila um keisarans skegg að ræða um það, ef við erum sammála um, að hér þurfi endurbóta við. Ég vildi gjarnan leggja verk í það og fyrirhöfn að koma þeirri endurbót á. Ef menn vilja taka þennan þátt mála út úr, sem hér um ræðir, þá er það kannske betra en ekki, en ég tel það rangt. Ef menn vilja fá þetta frv. fram á þessu þingi, þá hygg ég, að það megi afgr. þetta frv. með hliðsjón af frv. um meðferð opinberra mála, sem fyrir hv. Nd. liggur nú. En ég taldi rétt við 1. umr. að benda á, að þetta mál snertir útkjálka á miklu stærra máli, og er eðlilegra, að mínu áliti, að þetta mál verði leyst í sambandi við það stærra málið, sem fyrir liggur. Og ég satt að segja skil ekki, að það geti orðið mikill ágreiningur um málið, úr því að það er í raun og veru það sama, sem fyrir mér og hv. þm. Str. vakir um endurbót á meðferð opinberra mála. Við finnum báðir, sem er ekki óeðlilegt, hver aðalgallinn við núverandi meðferð þeirra er, þó að honum hafi gleymzt að setja inn í frv. þetta það, sem hann ætlaði sér. En öll mannanna verk standa til bóta. Hitt er svo meira fræðilegt deiluefni, hvernig meðdómendur hafa reynzt. Við erum sammála um það, að þeir hafi yfirleitt ekki reynzt vel og ekki verið áhrifamiklir. Þetta er líka umdeilt erlendis. Sumir telja þá betri en kviðdóm, en öðrum, eins og engilsaxnesku þjóðunum, dettur ekki í hug annað en kviðdómur, þó að hann sé aðeins notaður í stærri málum. Íslenzkir lögfræðingar hafa tekið í sig andúð á kviðdómum, og það er ekki gert ráð fyrir þeim í frv. um meðferð opinberra mála, sem nú liggur fyrir þinginu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að eftir því sem ég hef betur kynnt mér málið, þeim mun meiri löngun hef ég til að reyna þá. Aðalgallinn er sá, að erfitt verður að fá leikmenn, er alveg séu ókunnir þeim, er dreginn er fyrir lög og dóm. Það er hægt í stærri löndum, en verður erfitt á Íslandi og því hætt við samúð eða andúð í hugum manna.

Ég vil endurtaka það, að svo kann að virðast, að við hv. þm. Str. séum ekki sammála um, hvað í frv. felst, en mér skilst, að ekki sé ágreiningur um það, að hverju beri að stefna, og ég hef borið fram frv., sem ég tel, að betur nái tilgangi sínum en frv. hv. þm. Str.