07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Flm. (Hermann Jónasson):

Ég skal ekki halda langan fyrirlestur, en það veitir ekki af að taka þessi mál til athugunar. Tilhögun þeirra hjá okkur er öðruvísi en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni og verður ekki annað talin en vanskapningur. Norðmenn og Danir tóku upp kviðdóm og það sýndi sig, að þegar enska fyrirkomulagið er flutt út, hefur það reynzt skaðlegt, þó að það reynist vel í Englandi. Hollendingar og Svíar tóku upp meðdómendur, sem eru með í ráðum, en ráða ekki algerlega, eins og kviðdómur. Mér er sem ég sjái í hitamáli 12 borgara dæma um sekt hæstv. dómsmrh. eða Hermanns Jónassonar, eftir að búið er að ylja málið upp í blöðunum. Eftir að hafa kynnt mér málið, hefur mér hrosið hugur við því, að þessi meðferð yrði tekin upp hér. Meðdómendur eru að vísu ekki tilþrifamiklir, en þeir eru viss „kontroll“. — Ég vil ekki viðurkenna, að frv., sem hér liggur fyrir, hafi ekki verulega breytingu í för með sér, og að ég hafi ekki með því náð því marki, sem ég setti mér. Hæstv. ráðh. segist hafa verið við rannsóknir. Ég hef líka verið við rannsóknir í einn til tvo tíma á dag í 10 ár. Dómstóllinn er lokaður, nema sérstök leyfi séu gefin, eins og hægt er t.d. í landhelgismálum, og þess vegna sést aldrei neitt um þetta. Við vitum ekki, hvaða rannsóknir er verið að gera nú. Í Noregi þarf ekki annað en að fara í dómhúsið til þess að sjá, hvað er til meðferðar í hverri deild. Málsmeðferð öll er fyrir opnum dyrum, nema annað sé ákveðið. Hér er fyrst lögreglurannsókn. Lögregluþjónn rannsakar málið, án þess að vitni séu viðstödd. Skýrsla hans er síðan send til dómara, og hefst þá annað stigið. Erlendis er það allt fyrir opnum tjöldum. Allar skýrslur eru lesnar upp og staðfestar í viðurvist votta og dómara. Hér eru lokuð tjöld, nema undanþágur séu veittar mönnum kunnugum dómaranum.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um, að hér er breytinga þörf. Þó að sumir haldi því fram, að „inkvisitionen“ sé fullkomnust og strangt skipulag sé bezt í þessum efnum, ef réttlátlega er á því haldið, getur það haft í för með sér hræðileg slys, vegna þess að allt er leynilegt. Vegna öryggis borgaranna getum við ekki haft leynilega rannsókn, jafnvel þó að rannsókn fyrir opnum tjöldum hafi það í för með sér, að blöðin komist í þessi mál og taki að birta glæpamannarómana, eins og tíðkast erlendis, og hryllir mig þó við því. — Ég skal svo ekki þreyta hv. d. frekar.