28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. landsk. og brtt. hans á þskj. 492.

Hv. þm. telur þetta fremur hégómamál, þar sem ekki sé nógu sterkt á tekið og fjárhagsráð starfi eftir sem áður. Ég held þetta sé rangt skilið. Ég tel, að aðalatriðið sé að vekja almenningsálitið til eftirlits með þessum málum, og það held ég megi takast undir því fyrirkomulagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en með því er stéttasamtökunum gefin aðstaða til að velja verðgæzlustjórann og meðdómendurna í verðlagsdóm.

Till. hv. 1. landsk. gengur í þá átt, að í verðlagsdómi skuli vera þrír menn. Það var svo áður, en réttara þótti að gera þessa starfsemi umfangsminni og ekki eins kostnaðarsama, því að ekki þykir sanngjarnt að ætlast til, að þessir menn starfi kauplaust, þar sem fyrirhöfn þeirra er talsverð. Hins vegar ætti einn meðdómandi að hafa aðstöðu til að koma fram með sjónarmið almennings í dómum, þó að dómsvaldið hvíli á hinum lögfróða manni. Dómi hans getur meðdómandinn áfrýjað, og á þá tilganginum að vera náð. — Eitt atriði er nýtt í brtt. hv. 1. landsk., þ. e. að fulltrúaráð verkalýðsfélaganna skuli tilnefna meðdómendur. Það skal viðurkennt af mér, að þessi aðili getur haft mjög nána þekkingu á einstaklingum til þess að velja í dóminn, en hins vegar er það atriði, sem hægt er að leita sér kunnleika á fyrir hvern sem er. Og það virðist réttara, að stéttasamtökin tilnefni þennan mann, þar sem þetta mál varðar miklu fleiri en verkalýðssamtökin og verzlunarsvæðið nær langt út fyrir þau. Ég sé því ekki ástæðu til að fylgja þessum brtt. og vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.