31.03.1950
Neðri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja, að það mundi verða höfð framsaga fyrir þessu máli hér í hv. d. Mér hefur skilizt, að þetta sé eitt af þeim málum, sem hæstv. ríkisstj. hafi ætlað að bera fram til að bæta fyrir álögur þær, sem hún hefur lagt á almenning í landinu, ein af hliðarráðstöfunum Framsfl. Ég hafði því búizt við, að hér yrðu sögð nokkur orð af hennar hálfu við 1. umr. Það er full ástæða til að ræða þetta mál ýtarlega. Verðlagið í landinu er nú tvenns konar. Annars vegar er hið löglega verð, þ. e. verð á vörum, sem fluttar eru inn á löglegan hátt og seldar hér í verzlunum með normal verði, eins og gildir um mestalla matvöru, og eru verðlagsákvæði svo ströng á henni og haft svo strangt eftirlit með því, að þeim sé fylgt, að verzlanir þær, sem með hana verzla, sleppa rétt skaðlausar. Það er því ekki þörf að kveða nánar á um eftirlit með þessum vörum, og verðlagsbrot á þessu sviði stafa oftar af vangá en hinu. Ég held því, að engum blandist hugur um, að baráttan verði að snúast gegn svarta markaðinum, þar sem vörurnar eru seldar við ólöglegu verði og þeir, sem selja, hafa tíðast komizt yfir vörurnar á óeðlilegan hátt og nota sér þannig vandræði almennings í ágóðaskyni. Ég held því, að sé meiningin sú að breyta til í þessum efnum og koma með ný lög, þá sé ekki annað hugsanlegt en snúa baráttunni gegn þessu fyrirbrigði. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún hugsi sér að berjast gegn svarta markaðinum og þeirri aðalleið, sem hann fer eftir a. m. k. hér í Reykjavík og sennilega víðar um land og þar sem tollsvikum er beitt mest, en það er gegnum Keflavíkurflugvöllinn. Í 4 ár er búið að brjóta öll lög og reglur um innflutning til landsins með innflutningnum til Keflavíkurflugvallarins, og það er viðurkennt af því yfirvaldi, sem þarna á hlut að máli, að þaðan komi hinar tollfrjálsu vörur, sem síðan eru seldar á svörtum markaði hér í Reykjavík og víðar um land og annar svartur markaður stendur í skjóli við. Þessi markaður á uppruna sinn hjá ríkisstj. Hún hefur veitt þetta toll- og skattfrelsi. Það er hennar verk, að vörur eru fluttar í stórum stíl til Keflavíkurflugvallarins án þess, að þær fari í gegnum íslenzkt tolleftirlit og af þeim sé greitt. Og kvarti einhver Íslendingur yfir þessu, þá er sett rannsókn á þann Íslending, en sá, sem á sök á svarta markaðinum, sleppur og allar rannsóknir eru stöðvaðar gegn honum. Rannsóknir á þessum lögbrotum fást ekki framkvæmdar. Það er vitað, að meira eða minna af öllum þeim vörum, sem seldar eru hér á landi á svörtum markaði, eru þaðan runnar, og þetta er meira að segja viðurkennt af yfirvöldunum. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar sér að berjast gegn svarta markaðinum: Hvernig ætlar hún að fara með þetta gat á vöruinnflutningnum, að ég nú ekki tali um allan gjaldeyrinn, sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöllinn? Í öðru lagi er ég hræddur um, að ef á að taka upp baráttu þessa, þá dugi ekki að hafa þann hátt, sem verið hefur um úthlutun innflutningsleyfa. Þeir, sem hafa völdin í þessum efnum, eru voldugustu heildsalarnir og S. Í. S., og þeir koma sér saman um úthlutun varanna, og svo er mikill hluti þeirra seldur út án þess, að þær komi nokkru sinni til smásala, og er selt á svörtum markaði. Og þeir, sem kaupa svo vörurnar, þegja, því að þeir ættu annars ekki gott í vændum, ef þeir þegðu ekki. Innflutnings- og gjaldeyrisverzlunin er stórspillt og þess er vel gætt, að sem minnst eftirlit sé hægt að hafa með henni og að gæðingar ríkisstj. geti sem bezt matað krókinn. Alþýða landsins fær engu að ráða og nýtur ekki hins minnsta verzlunarfrelsis. Það væri engin goðgá, þó að þeim, sem nú er bannað að framleiða freðfisk, væri nú leyft það og að þeim væri leyft að flytja hann út og flytja svo aftur inn rúsínur, svo að eitthvað sé nefnt. Ef berjast á gegn svarta markaðinum, hví er mönnum þá bannað að framleiða útflutningsvörur og flytja svo aftur inn fyrir andvirði þeirra? Hví á að banna mönnum að hafa sama hátt á og þingeyskir bændur höfðu fyrr á árum? Hví eiga kaupmenn hér að hafa selstöðuréttindi, sem barizt var hatrammlega í gegn hjá Dönum? Ég er hræddur um. að sama spillingin skapist hér brátt aftur. Við þurfum að geta eflt útflutninginn og geta flutt út og keypt erlendar vörur í staðinn. Og þetta getur íslenzka þjóðin gert, ef henni er ekki bannað það. Sé ríkisstj. alvara að berjast gegn svarta markaðinum, sem stafar af einokun, og þegar búið er að stöðva gatið á Keflavíkurflugvellinum, þá getur hún leitað aðstoðar hjá almenningi, og sú aðstoð mun verða veitt og eins mun verða á öðrum sviðum, en til þess að slíkt geti orðið, verður ríkisstj. að láta meira til sín taka, en verið hefur. Ég skal taka dæmi:

Það var nýlega verið að lækka gengið og afnema fiskábyrgðina, og ein afleiðingin er sú af gengisfallinu, að olíuverðið er hækkað, eins og hér var nýlega upplýst, úr 400 í 640 kr. tonnið, a. m. k. Þegar um slíka verðhækkun er að ræða, í þessu tilfelli á olíu, þá er eðlilegt. að almenningur spyrji, hvort þessi hækkun sé í raun og veru nauðsynleg, hvort það sé óhjákvæmilegt, að ein aðalvaran, sem útvegurinn þarf að nota, auk fleiri atvinnugreina, sé svo dýr. Og það þarf enginn að fara í grafgötur um svarið; það er engum efa bundið, að unnt er að halda þessari vöru í lægra verði, en skilyrði þess er, að þjóðin sjálf taki upp baráttu á móti okri olíuhringanna í stað þess, að þeir fái að ráða þessum málum íhlutunarlítið. Ég skal nefna eitt dæmi um það, hvernig farið er að í þessum málum þveröfugt við það að gæta hagsmuna almennings. Nýlega hefur verið reist olíustöð í Laugarnesi fyrir 10–15 millj. kr. Leyfi til þeirrar byggingar afsakaði fjárhagsráð með því, að við þyrftum ekki að borga þessar 10–15 milljónir; þær væru greiddar af erlendum aðilum. En við fáum bara að endurgreiða þær á nokkrum árum í hækkuðu olíuverði — og meira en það. Nú mundi þessi olíustöð að öllum líkindum nægja fyrir Ísland. En rétt á eftir er svo leyft að reisa aðra olíustöð fyrir 10–15 millj. Annað auðfélag fær þetta leyfi, og það er veitt með sömu afsökun, að við þurfum ekki að leggja þessar millj. fram. Kerfið verður þannig tvöfalt, hálfu dýrara en þörf er á, og undir kostnaðinum stendur þjóðin. Smábenzínstöðvar eru svo reistar úti um allt land, margfalt fleiri en þjóðin hefur þörf fyrir, og svo er þjóðin skattlögð vegna hinnar óhentugu dreifingar að ástæðulausu. Hvernig ætti nú að minnka þetta okur? Eina ráðið er að taka upp ríkiseinkasölu á olíunni, og það eru til lög fyrir því frá stjórnartíð núverandi framkvæmdastjóra S. Í. S., Vilhjálms Þór, og heimild, sem mætti setja í gildi aftur. Og ef hæstv. ríkisstj. ætlar að spara fyrir þjóðina, þá á hún að taka upp ríkiseinkasölu á olíu meðal annars. Allur kostnaður yrði þannig stórum minni, og ríkisstj. hefur nóg af hæfum mönnum til þess að taka að sér þann rekstur. Væri einsætt fyrir hana að byrja t. d. með þessum hætti baráttu sína gegn okri og of hárri álagningu. Þarna gæti hún haft sig í frammi og komið fram lækkun á óhóflega háu verði. Hið sama er svo auðvitað að segja um mörg önnur svið.

Ég er þannig hræddur um, að eigi ekkert af þeim aðgerðum, sem ég hef minnzt á, að verða samfara því frv., sem hér liggur fyrir, þá verði það hégóminn einn og til þess eins að sýnast. Verðlagsdómi verði þá bannað að skipta sér af hlutunum, ef hann ber niður á réttum stöðum, enda er í 2. kafla l. ákvæði, sem rýrir mjög vald samtakanna. þar sem sá maður, er þau útnefna í verðlagsdóm, ræður engu. Og við höfum að minnsta kosti þá reynslu hér í Rvík, sem réttlætir tortryggni í þessu efni, því að ef ráðizt hefur verið á svartamarkaðsbraskið, þá hefur það verið tekið illa upp af sakadómara, og hafi verið bent á menn, sem vissu um ákveðin dæmi, hefur öll rannsókn verið stöðvuð. Þó eru atriði í frv., sem miða til bóta, einkum í 2. gr. Það er áreiðanlegt, að ef þessi samtök fá að njóta þess valds, sem verðlagsstjóri og verðlagsdómstóll gætu haft, þá yrði það til góðs. En ef gera ætti frv. nothæft, ætti að breyta ákvæðum þess þannig, að verðgæzlustjóri væri eingöngu háður nefnd samtakanna, sem að öllum líkindum rækju, á eftir honum og ættu að geta sagt honum upp, ef hann sofnaði á verðinum. Jafnvel gæti verið heppilegt, að hann hefði meiri völd, en ráð er fyrir gert. Ég er hræddur um, að völd fjárhagsráðs úr þessu verði aðeins til ills og til að gera mögulegt baktjaldamakk voldugra aðila, sem hver hefur hrossakaup við annan. Slík er sú reynsla, sem fengizt hefur í sambandi við þá stofnun, og ég held þess vegna, að það beri að draga úr valdi fjárhagsráðs, en gefa samtökunum meiri völd í þess stað. — Sama máli gegnir um verðlagsdómstólinn. Ef þessi samtök setja tvo aðila í dóminn í stað eins, þá gæti ég trúað, eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þessum málum, að hann næði miklu betur tilgangi sínum.

Þetta frv. er um breyt. á l. um fjárhagsráð og felldur burtu 3. kafli þeirra laga. Og ég held nú, svo að ég noti þær forsendur, sem hæstv. ríkisstj. notaði nýlega til þess að fella till. mínar í sambandi við gengislækkunarfrv., — ég held nú, að heppilegt væri að samræma þetta frv. l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, því að mér finnst þessi lög vera eins og nýr kafli í þeim lögum. Það liggur nú fyrir fjhn. þessarar d. frv. um breyt. á l. um fjárhagsráð, og m. a. er þar gert ráð fyrir að tryggja neytendunum meiri rétt að lögum til að sporna við of hárri vöruálagningu. Eðlilegt virðist vera, að aðgerðir í þessu máli verði samhæfðar, hreint juridiskt séð, hvað sem öðru líður. Ég vildi því gera að till. minni, að þetta frv. færi til fjhn. Ég álít eðlilegt, að hún sé látin fjalla um það, eins og um lögin um fjárhagsráð og skyld mál, en í þessu frv. er gengið út frá, að fjárhagsráð eigi að hafa svo og svo mikil afskipti af þessum málum.

Ég hafði nú satt að segja búizt við, að hér yrði höfð framsaga fyrir þessu máli, því að mér virðist það þess vert, að það sé rætt. Ég skal þó láta máli mínu lokið í bili, nema tilefni gefist til frekari umræðna, og leyfi mér að æskja þess, að frv. verði látið fara til fjhn.