31.03.1950
Neðri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er rætt, heyrir að vísu ekki undir mitt ráðuneyti, en ég tel rétt, eins og á stendur, að segja nokkur orð til skýringar.

Ég vil þá taka það fram í fyrsta lagi, að ég tel eðlilegt, að frv. sé flutt í því formi sem það hefur. Í því eru ákvæði um dómara og dómsvald, sem gera það að verkum, að ekki er óeðlilegt, að tekin séu í sérstök lög og heyra ekki alveg undir lögin um fjárhagsráð. Enn fremur skiptir það verulegu máli, að þessari löggjöf sé hraðað, því að nú á næstunni mun reyna verulega á það verðlagseftirlit, sem hér er gert ráð fyrir, að verði að lögum.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að verðlagseftirlitið eitt er ekki fullnægjandi til að skapa heilbrigða verzlun. Það er aðeins númer tvö, því að vitanlega koma refsingar fyrir brot þá fyrst til greina, er þau hafa verið framin. Fyrst er vitanlega að skapa heilbrigða verzlunarhætti. En þar sem verzlunarmálin liggja hér ekki fyrir til umræðu og eiga sennilega eftir að koma fyrir Alþingi síðar, þá ætla ég að þessu sinni að sleppa öllum umræðum um það víðtæka mál. Hins vegar er alveg fullvíst, að enda þótt útflutningur okkar gæti aukizt og þar af leiðandi innflutningurinn, og þótt við tækjum upp sparnað á gjaldeyri, sem eytt hefur verið til ýmissa óþarfra hluta, en það er atriði, sem vert væri að ræða í þessu sambandi, t. d. hefur vegna skráningar krónunnar verið mikið um lúxusferðalög erlendis, svo ódýr sem þau hafa verið; við höfum miðað byggingar við að nota sem mest erlent efni af sömu ástæðu o. s. frv., — þá er alveg fullvíst, þótt hér yrði breyting á og unnt yrði að koma meiri vörum á markaðinn, að fyrst um sinn mun verða þörf á mjög sterku verðlagseftirliti. En skapar þá þetta frv. fullnægjandi verðlagseftirlit? Hv. 2. þm. Reykv. vildi nú gera fremur lítið úr því. Hann taldi m. a., að fjárhagsráð ætti ekki að hafa það vald, sem frv. gerir ráð fyrir. Það get ég ekki fallizt á, og ég hygg það sé tæpast umdeilt mál, að það er ekki verðlagningin yfirleitt á vörunum, sem er of há, heldur, ég hygg þvert á móti, að meginreglan sé sú, að vöruálagningin, sem verzlununum er heimiluð, megi í mörgum tilfellum tæpast lægri vera, til þess að þær geti rekið sína starfsemi með sæmilegum árangri, m. a. kaupfélög, sem hv. 2. þm. Reykv. þekkir mjög vel. Það verður því ekki sagt um þetta atriði, að álagningin sjálf sé óhófleg, hvað sem kann að vera á stærri sviðum, en þetta er hin almenna regla um verzlunarálagninguna. Það má því líta svo á, að þessi starfsemi sé sæmilega innt af höndum. Og sannleikurinn er sá, að ef menn kaupa vörur með réttri álagningu, þá er verðlag viðunandi, nema þar sem svartur markaður kemur til. — Álagningin er mál, sem skoða verður frá tveimur hliðum. Það væri þannig tæplega eðlilegt, að neytendasamtökin tilnefndu menn til að ákveða verðlagið. Máske kynnu þau að gera það réttlátlega, en eitthvað væri nú skrýtið við það, ef við kæmum í verzlun og ættum sjálf að verðleggja það, sem við ættum að kaupa, en þetta væri hér um bil hið sama. Það er því ekki ástæða til að fara inn á þessa braut, því að enda þótt hún sé ekki útilokuð, þá er hún varhugaverð og því síður nauðsynleg, þar sem ekki er kvartað undan álagningunni almennt. Þess vegna álít ég, að sæmilega sé fyrir þessu atriði séð í frv.

Þá er ákvæðið um verðlagsstjóra. Hann er tilnefndur af aðalneytendasamtökunum í landinu, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir, og hann á sjálfur að tilnefna þá starfsmenn sína, sem annast verðgæzluna í bæjunum. Því er þannig ekki hægt að neita, að ef neytendasamtökin bregðast ekki skyldu sinni, þá hafa þau í hendi sér með þessu verðgæzluna í landinu. Þetta er sem sagt eins konar löggæzla, og þó að það sé ekki eðlilegt, að neytendasamtökin hafi verðlagninguna í sínum höndum, þá er það jafneðlilegt, að þau fái í sínar hendur löggæzlu um, að álagningin sé rétt framkvæmd. Það er þá mikið undir því komið, að neytendasamtökin velji góðan mann til þessa starfs, því að það er svo mikið undir honum komið, að þessi löggæzla sé vel af hendi leyst.

Þá hefur verið á það minnzt, að valdið, sem meðdómarinn hefði, væri allt of lítið. Þegar frv. var fyrst lagt fram, var gert ráð fyrir 2 meðdómurum, en við nánari athugun þótti ekki fært að hafa meðdómarana ólaunaða, vegna þess að sýnt þótti, að starfið væri svo erilsamt. Var því horfið að þeirri breytingu, að meðdómarar skyldu, fá sömu þóknun fyrir starf sitt eins og meðdómendur í sjódómi og að meðdómari skyldi vera einn í stað tveggja. Það er að vísu rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að með því er vald meðdómara minna, en þegar þess er gætt, að verðgæzlustjóri er maður, sem skipaður er af neytendum, og þegar annar dómarinn er einnig tilkvaddur af neytendum, og þegar þess er enn fremur gætt, að dómurinn er opinn og öllum heimilt að hlýða á málsmeðferð, og þegar dómurinn er svo birtur, þá fer að verða óhægt um vik fyrir sjálfan dómarann til þess að vera hlutdrægur. Þetta allt er svo sterkt „control“ á dómarann, að það er alveg útilokað, að hann misbeiti valdi sínu, sem má nú reyndar segja, að sé útilokað hvort sem er. Ég held, að við verðum búnir að fá að heyra eitthvað áður en dómarinn misnotaði vald sitt. Hitt verður að viðurkennast, að það getur verið vafasamara að láta 2 meðdómendur ólöglærða geta ráðið niðurstöðu dómsins, því að með því yrði réttaröryggið gert vafasamt. Ég held því, að þessu sé sannarlega stillt í hóf, eins og það liggur fyrir núna, þannig að dómari hefur það öryggi, sem hann þarf, og neytendurnir eru líka tryggðir fyrir réttmætri dómsniðurstöðu.

Þegar þess er gætt, að verðlagseftirlitið er í höndum neytendanna, meðdómari tilnefndur af neytendum, dómurinn opinn og birtur, og þegar svo gætt er viðurlaga 19. gr., þá má það öllum vera ljóst, að það er varhugavert að fremja verðlagsbrot. Ég vil aðeins biðja hv. þm. að kynna sér refsiákvæði 19. gr. frv. og sjá það sjálfa, hve varhugavert þetta yrði. Ég held því, að þessu sé mjög skynsamlega stillt í hóf og ef neytendasamtökin bregðast ekki skyldu sinni, þá bregðist ekki annað. Ég held líka, að því sé fullnægt, að þeir menn, sem eiga að þola dóma þá, sem á verða lagðir, hafi líka öryggi fyrir því að fá ekki strangari dóma, en landslög mæla til um, eins og nú er gert ráð fyrir í frv., en þess er þá hins vegar einnig gætt, að ákæruvaldið er svo sterkt og „controlið“ er svo sterkt, að útilokað er, að dómari geti misbeitt valdi sínu. Ég get því mælt með frv. eins og það liggur fyrir og hygg, að með því sé trygging fengin fyrir sterku verðlagseftirliti, ef neytendafélögin velja hæfan mann sem verðgæzlustjóra, — held meira að segja, að það verði sterkara, en í nokkru öðru landi.