31.03.1950
Neðri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Ég efast um, að hv. 2. þm. Reykv. láti sér koma til hugar, að verðgæzlustjóri eigi ekki að hafa eftirlit með verðlagi yfirleitt og þar með svörtum markaði. Ég held, að jafnglöggur maður og hann láti það ekki koma sér til hugar, þó að hann segi þetta. Þetta er svo stórt atriði, að það yrði blátt áfram eitt aðalverk verðgæzlustjóra að koma í veg fyrir okur á svörtum markaði. Ef hann álítur, að einhver vara sé seld á óeðlilegu verði, þá getur hann spurt: Hvaðan hefur þú vöruna? Hann getur heimtað upplýsingar um það. Þetta er hverjum manni ljóst, og ég er viss um, að hv. 2. þm. Reykv. er þetta líka ljóst, þó að hann kasti þessu fram í gamni. Þetta er aðalverk verðgæzlustjóra. Hvað er það annað? Svo les hann 9. gr. til að gefa til kynna, að ég fari rangt með. Ég las fyrri hlutann. Í síðari hlutanum segir, að verðgæzlustjóri skuli gæta þagnarskyldu um þær upplýsingar, sem hann krefst af fyrirtækjum og verzlunum. Það væri geðfelld löggjöf frá Alþingi, ef menn, sem geta krafizt allra upplýsinga í verzlunarmálum, heimtað öll verzlunarleyndarmál, gætu svo farið og sagt almenningi frá öllum leyndarmálum fyrirtækjanna. Ákvæðið um þagnarskylduna er því sjálfsagt og óhjákvæmilegt. Hvað getur þessi maður þá gert, ef um lögbrot er að ræða? Hann fer til yfirvaldanna og segir frá lögbrotinu. Hvað skeður þá? Málið fer fyrir rétt, sem er opinn öllum almenningi. Það fer fyrir dómara, sem almenningur hefur útnefnt. Það er því ekki hægt að dylja lögbrotið. Það þarf því ekki að dylja neitt, sem snertir þá ólöglegu starfsemi hjá fyrirtækinu. Og haldið þið, að fjárhagsráð mundi stinga undir stól kærum, sem til þess kæmu frá manni, sem hefur svona mikið vald og getur heimtað svona nákvæmar upplýsingar? Dettur nokkrum í hug, að í fjárhagsráði séu fimm slíkir menn, sem mundu leyfa sér slíkt? En ef slíkt kæmi fyrir, þá gæti maðurinn gert annað. Hann gæti sagt af sér, neitað að gegna starfinu. Vald þessa manns er mikið, það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að vald hans er stórkostlega mikið. Það er ekkert smáræðis vald, sem honum er gefið með því að gefa honum heimild til að heimta, allar þær upplýsingar, sem hann getur krafizt samkvæmt 9. gr. Ég held satt að segja, að hv. 2. þm. Reykv., jafngreindur maður og hann er, sjái þetta mætavel, þó að hann látist ekki skilja það.