21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og getið er um í nál. á þskj. 535, þá var ég ekki viðstaddur í hv. allshn., þegar þetta mál var afgreitt þaðan. Hins vegar hef ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 551. Vil ég með nokkrum orðum ræða málið almennt og einnig færa fram rök fyrir þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 551.

Þegar þetta frv. var borið fram á þessu þingi í hv. Ed., þá fylgdi því allýtarleg grg., og manni skildist á þeirri grg., að nú væri fundinn sá Aladdínslampi í verðlags- og svartamarkaðsmálunum, sem mundi nú lýsa veginn þann veg, að allt það illa, sem áður hefði þekkzt í þessum málum, kæmi nú fram í ljósið og yrði síðan látið hverfa úr sögu okkar viðskiptamála.

Það er vert að veita því athygli, að í grg. þessa frv. er á bls. 4 sagt, með leyfi hæstv. forseta, út af sjálfum verðlagsdóminum: „Neytendur geta þá engan um það sakað nema sjálfa sig, ef verðlagning og verðlagseftirlit er slælega framkvæmt.“ Þ. e. a. s. eftir að dómurinn er settur. Það færi betur, að þetta reyndist rétt, að með því að setja á fót slíkan dómstól, mundi það verða í valdi neytendanna sjálfra í landinu að koma nú í veg fyrir allt okur og svartamarkaðsbrask, sem óneitanlega hefur þróazt allmikið á síðustu árum. En ég er því miður hræddur um, jafnvel hvernig sem þessi dómur yrði skipaður og hvernig sem til hans yrði stofnað, að örðugt mundi að uppræta þessar meinsemdir okkar viðskiptalífs að fullu, og því sé nokkuð djúpt tekið í árinni í umsögn þessari um frv., sem ekki hefur heldur tekið gagngerðum breyt. í hv. Ed., eftir að það var borið þar fyrst fram.

Það er sagt í grg. þessa frv. á bls. 4: „Brask með erlendan gjaldeyri, svartur markaður og vöruokur eru nú einna alvarlegustu þjóðfélagsmeinsemdir, þar sem þjóðin hefur hrakizt út í fen verðbólgunnar og skortur er á erlendum gjaldeyri.“ Ég get að mörgu leyti skrifað undir þessa umsögn í grg. En mig uggir það, að hvorki með þessu frv. né með þeim öðrum frv. og lagasetningum, sem fram hafa komið og gerðar hafa verið að tilhlutun núv. hæstv. ríkisstj., verði á þessu ástandi ráðin sú bót sem skyldi. Ég óttast það, að enn þá verði um skeið, því miður, skortur á erlendum gjaldeyri og að af því leiði m. a. nokkra tilhneigingu til svartamarkaðsbrasks og okurs. En ég er hv. flm. þessa frv. og meðmælendum þess sammála um það, að mikla nauðsyn beri til þess að reisa skorður við þessu eða hindra það, ef þess væri nokkur kostur, en ég mun koma að því síðar, að ég hygg því miður, að frv. þetta sé ekki líklegt til að velta neinum björgum í þessu efni.

Enn þá er kveðið fastar að orði í grg. neðst á bls. 4, þar sem segir svo: „Ef frv. þetta verður að lögum og ákvæðum þess sæmilega framfylgt, mundi það gerbreyta til bóta, á stuttum tíma, því ömurlega ástandi, er ríkir í verðlagsmálum Íslendinga á tuttugustu öldinni.“ Hraustlega er nú mælt, og færi betur, að réttmæli reyndist, að setning slíkrar löggjafar sem þessarar yrði til þess að gerbreyta hinu vitanlega ófremdarástandi, sem nú ríkir í viðskiptamálum okkar, í eitthvert paradísarástand. En ég óttast því miður að sú gerbreyting fáist ekki með setningu slíkrar löggjafar sem hér er um að ræða.

Svo að ég haldi áfram að lesa úr grg. frv., þá er þar á bls. 5 sagt svo: „Ef sá háttur væri upp tekinn, er að framan er rakinn, þykir mega fullyrða, að verðlagsbrot yrðu stórum færri en nú er.“ Sú mikla stemning og stóru orð, sem borin eru upp í þessari grg. fyrir frv., held ég, að standi ekki nándar nærri því í hlutfalli við möguleikana á því, að þessi löggjöf yrði að þessu gífurlega mikla gagni, sem af er látið í grg. En þrátt fyrir það, þó að ég telji, að of hraustlega sé mælt í grg. og of mannalega borið sig, að allt muni verða bætt í sambandi við svartamarkaðsbrask og verðlagsbrot með setningu slíkrar löggjafar, tel ég þó fyrir mitt leyti sjálfsagt að fara inn á einhverjar slíkar leiðir, þó að ég vilji hvorki blekkja sjálfan mig né aðra með því að gera ráð fyrir, að með þessum ráðstöfunum fáist eitthvert paradísarástand í okkar viðskiptamálum innanlands. Löggjöf sem þessi, ef henni væri framfylgt rösklega, gæti gert eitthvað til bóta í þessum efnum. En það er víst og áreiðanlegt, að ástandið í atvinnu- og peningamálum þjóðarinnar verður undirstaðan undir því, hvort umbætur fást í þessum efnum eða ekki. Á meðan ríkir skortur á gjaldeyri og á meðan framboð á vörum er langtum minna en eftirspurnin og á meðan a. m. k. stór hópur þjóðarinnar hefur mjög mikil fjárráð til innkaupa, verður örðugt að bæta úr þessu svo að fullkomlega sé. En ég vildi láta þessi almennu orð mín fylgja frv., af því að ég vil, að það verði ekki reynt að blekkja neinn með setningu slíkrar löggjafar sem þessarar. Ég álít, að það sé álíka óhyggilegt að slá því föstu, að slík löggjöf sem þessi mundi koma í veg fyrir verðlagsbrot og svartamarkaðsbrask, eins og að slá því föstu, eins og gert var af sumum, að gengislækkunarlöggjöf sú, sem samþ. var hér fyrir skemmstu, hefði ekki í för með sér nokkra kjararýrnun, sem neinu skipti, fyrir launastéttirnar í landinu. Hvort tveggja eru fullyrðingar, sem ekki fá staðizt reynsluna. Og það er hvorki hyggilegt að segja það alþm. né þjóðinni, að það verði bætt úr þessum vandkvæðum, sem ég hef nefnt, að eru í viðskiptamálum okkar, til hlítar með löggjöf eins og þeirri, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sem hér liggur fyrir. En ég álít — og þar er ég hv. flm. og meðhaldsmönnum þessa frv. sammála —, að sjálfsagt sé að reyna allt, sem unnt er, bæði af hálfu löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, til þess að koma í veg fyrir og hindra svartamarkaðsbrask og verðlagsbrot, og að það sé því vert að gera tilraun til þess með því að samþ. löggjöf eins og þá, sem hér liggur fyrir frv. um, þó að ég hafi ekki oftrú á henni í framkvæmd. — Þetta vildi ég segja almennt um innihald frv., efni þess og tilgang og ekki sízt um þær miklu fullyrðingar, sem fylgdu frv. í grg. þess og ég álít, að ekki eigi sér stoð í veruleikanum.

Það virðist hafa orðið samkomulag um setningu þessarar löggjafar milli hv. stjórnarflokka, og er ekki nema gott um það að segja, að þar geti maður séð framan í einhverja stefnu, hjá hæstv. ríkisstjórn í verðlagsmálunum. Við höfum séð stefnu hæstv. ríkisstj. í fjárhagsmálunum með gengislækkunarl. Við eigum eftir að sjá stefnu hæstv. ríkisstj. í verzlunar- og viðskiptamálunum, sem kannske sést á næstu tímum. En þetta mun vera stefna hæstv. ríkisstj. um eftirlit með verðlagi og ráðstafanir gagnvart svartamarkaðsbraski.

En þó að samkomulag hafi þannig náðst milli hv. stjórnarflokka um þetta frv., vildi ég samt freista þess að bera fram örlitlar brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, og hef ég leyft mér að flytja þær á þskj. 551. — 1. brtt. er við 6. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir, en 6. gr. fjallar um það að banna keðjuverzlun yfirleitt og reyna að koma í veg fyrir hana. Það er eldra ákvæði, sem um þetta gilti í fjárhagsráðsl., og sjálfsagt eðlilegt ákvæði. Og keðjuverzlun er eitt af því allra versta og óhapparíkasta í sambandi við verzlunarmálin í landinu yfirleitt. Svo langt sem 6. gr. nær, er hún því góð, og ég hef ekkert við hana að athuga út af fyrir sig. En ég taldi rétt að bera fram brtt. um að bæta við 6. gr. ákvæði snertandi það atriði, sem er einhver allra versta keðjuverzlun, sem þekkist hér á landi. Í brtt. minni við þessa gr. er lagt til, að verðlagsstjóri skuli sérstaklega gæta þess, að álagningu á framleiðsluvörur saumastofa verði stillt í hóf, og sjá um, að ekki verði leyfð álagning nema einu sinni á efni og framleiðsluvörur. Þess munu þekkjast fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi hér á landi, að heildsöluverzlun rekur einnig eða á smásöluverzlun, að annaðhvort slík heildsöluverzlun eða smásöluverzlun rekur síðan saumastofu, aðallega til að sauma kvenkjóla og barna- og unglingaföt, og þar gengur það þannig til, að fyrst kaupir heildverzlunin inn vörur frá útlöndum, þ. e. a. s. efnið til þess að sauma úr það, sem ég nefndi, því næst er sá háttur á hafður, að heildsöluverzlunin selur sinni eigin smásöluverzlun vörurnar með sinni álagningu, því næst selur smásöluverzlunin saumastofunni, sem rekin er af heildsölu- eða smásöluverzluninni, þessar vörur með smásöluálagningu, og því næst er saumað úr vörunum á saumastofunni, og þegar því er lokið, fer varan til heildsöluverzlunarinnar og er þar lögð á hana heildsöluálagning, þegar heildsöluverzlunin selur hana til áður greindrar smásöluverzlunar, og þar er svo lögð á hana smásöluálagning, og loks fá kaupendurnir að kaupa þessar vörur, eftir að þær eru búnar að fara hringferð á milli fjögurra eða fimm aðila, sem í raun og veru eru sami aðilinn sem atvinnurekandi — og eftir að búið er að leggja á vörurnar eins og ég hef getið hér. Það mun vera kvartað um það, ekki sízt af húsmæðrum, að það sé örðugt að fá nokkuð annað en tilbúnar og rándýrar flíkur utan á börn og unglinga og jafnvel líka utan á kvenfólk og karlmenn. Það er kvartað undan því, að illt sé að fá þessar efnivörur til þess að sauma það, sem annars er kostur að sauma af þessum fötum á heimilunum. Og það er útlit fyrir, að þær ungar húsmæður, sem nú eru að alast upp, eigi þess lítinn eða engan kost, eins og ástatt er í landinu um þessi mál, að spreyta sig á því að sauma utan á börn sín og fjölskyldur yfirleitt, heldur verði þær að kaupa þessi föt utan á börn sín og fjölskyldurnar með þeirri fjór- eða fimmföldu álagningu, sem dæmi eru til, að lagt er á þessar vörur, eins og ég greindi frá. — Ég tel alveg nauðsynlegt fyrir þann verðlagsstjóra, sem tekur við þessum málum, og fyrir fjárhagsráð, sem á að fjalla og ákvarða um þetta efni, að taka alveg sérstaklega þetta atriði til íhugunar og ákvörðunar, og í því skyni er þessi brtt. á þskj. nr. 551 flutt. Ég vildi mega vænta þess, að jafnvel þótt hv. stjórnarflokkar hafi nú gert samkomulag um afgreiðslu þessa máls, þá vildu þeir athuga, að þessi brtt. mín er vissulega til bóta. Og ég hygg, að ef vonir ættu að standa til þess, að eitthvað af stóru orðunum í grg. frv. fengju staðizt, þá væri m. a. nauðsynlegt að gera ráðstafanir eins og þessar, sem ég fer fram á í þessari brtt. minni.

Tvær síðari brtt., sem ég flyt við frv., eru báðar um sama efni, skipun verðlagsdóms, þar sem ég legg til, að fyrir utan héraðsdómara eigi sæti í þessum dómi tveir meðdómendur, sem séu skipaðir af dómsmrh. eftir tilnefningu á þann hátt, sem að öðru leyti greinir í frv., af þeim launamannasamtökum, sem eiga að tilnefna verðlagsstjóra. — Þær ástæður, sem ég hef fram að færa fyrir þessari brtt. minni, eru þær, að ef aðeins einn meðdómandi er úr hópi neytendasamtakanna, sé það ófullnægjandi, en þar sem ég álít, að þau samtök eigi að hafa sem mest áhrif á uppkvaðningu dóma í þessum málum, þá sé nauðsynlegt og eðlilegt, að meðdómendur séu tveir. Þess er líka að geta, að það er almenn regla í l., þar sem um meðdómendur er að ræða, að þeir séu tveir. Þannig eru bæði í sjódómi og landamerkjadómi tveir meðdómendur, sem kunnáttu hafa, hver á sínu sviði. Í sjódómsmálum hafa þeir þekkingu á skipsstjórn og vélgæzlu, og í landamerkjamálum kunna þeir skil á þeim þrætum, er fella á úrskurð um. Ég vænti þess, að till, mín um tvo meðdómendur verði samþ., bæði vegna þess, að ég tel, að áhrif neytenda eigi að vera sem ríkust, og vegna þess, að ég tel ekki, að ástæða sé til að skapa nýja reglu í þessum efnum. Það mætti segja, að tveir leikmenn, sem ekki kunna skil á l., gætu borið dómarann ofurliði og dómur yrði kveðinn upp, sem ekki ætti stoð í l. Varðandi þetta held ég, að vísa megi til sjódóms og landamerkjadóms. Ég veit ekki til þess, að dómarinn hafi þar verið borinn ofurliði, eða að dómarnir hafi ekki verið byggðir á lögfræðilegum rökum. Auk þess er þess kostur að skjóta hverju máli til hæstaréttar, þar sem eru fimm löglærðir dómarar. Það er þess vegna öryggi fyrir því, að niðurstöður fáist, sem eru í fullu samræmi við l. Ég skil ekki, hvaða hugsun er á bak við það að hafa aðeins einn meðdómanda, nema ef það væri sparnaður. Það er þó ekki frambærileg ástæða, ef færð eru rök fyrir því, að hagsmuna neytenda sé betur gætt með því að hafa tvo meðdómendur. Sparsemdarröksemdin stenzt ekki að mínum dómi. Ég tel sjálfsagt, að dómurinn sé skipaður eins og ég legg til. Það er í samræmi við þá skipan, sem tíðkazt hefur hjá okkur, og neytendur fá með því móti aukin áhrif, en það er hyggilegt, að áhrif þeirra séu sem ríkust.

Síðasta brtt. mín er afleiðing af 2. brtt. Ef ágreiningur verður milli dómara, ræður afl atkvæða úrslitum. Eins og frv. er nú, er dómurinn skipaður héraðsdómara og einum meðdómara, og rísi ágreiningur, sker héraðsdómari úr áhrif meðdómara verða þá sáralítil, þar sem formaður ræður öllu. Er þetta enn ein röksemd fyrir því, að frv. verði breytt á þann hátt, sem ég legg til.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég mun fylgja málinu, þar sem ég tel rétt að gera þessa tilraun, en ég hef ekki sérstaklega mikla trú á því, að þessar umbætur séu jafnstórstígar og miklar og gert er ráð fyrir í grg.