21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. (StJSt) telur, að brtt. sínar á þskj. 551 séu til mikilla bóta fyrir frv. Ég er á annarri skoðun í þessu efni. Að því er snertir brtt. við 11. gr., um skipun dómsins, er ljóst, að skipun dómsins samkvæmt frv. er gerð með það fyrir augum, að neytendur geti fylgzt með því, hvernig þessum málum er skipað, og tekið þátt í ákvörðunum um þau. Ég er að vísu ekki löglærður, en ég get ekki séð, að það sé til bóta, að meðdómendum sé fjölgað.

Að því er snertir brtt. við 6. gr., að verðgæzlustjóri skuli sérstaklega gæta þess, að álagningu á framleiðsluvörur saumastofa sé stillt í hóf, er það að segja, að sá aðili, sem á að ákveða álagninguna, er fjárhagsráð, en verðgæzlustjóri á að sjá um framkvæmdina. Það er því í höndum fjárhagsráðs að ákveða þá álagningu, er það telur sanngjarna, svo að þetta orðalag er algerlega óþarft. Þetta gefur ekki verðgæzlustjóra neitt nýtt vald. Hann á aðeins að sjá um það, að verðlagsákvæðunum sé fylgt. Um, að ekki verði leyfð álagning nema einu sinni á efni og framleiðsluvörur saumastofa, er það að segja,að þetta gæti orðið erfitt, því að saumastofur yrðu þá að vera bæði innflytjendur og smásalar. Ef þetta verður sett í l., hygg ég, að leggja yrði niður flestar saumastofur, því að fæstar þeirra eru svo settar, að þær geti verið bæði innflytjendur og smásalar. Hv. þm. sagði, að mikil svartamarkaðs- og keðjuverzlun væri í sambandi við saumastofur. Ég hef heyrt, að þetta eigi sér stað, en ég hygg, að ekki séu að því mikil brögð, þar sem þeir eru ekki margir, sem standa svo að vígi, að þeir hafi allt í hendi sér, heildverzlun, smásölu og saumastofu. Þó kunna að vera dæmi þessa. Ég er hins vegar sammála því, að nauðsynlegt sé að uppræta alla slíka keðjuverzlun, ef hún á sér stað, því að það er ekki hægt að sætta sig við, að efnið fari úr búðinni í saumastofuna og síðan aftur úr saumastofunni í búðina og að húsmæður hafi af þeim ástæðum engin tök á því að kaupa efni. Ég er ekki á móti því, að ákvæði séu um það í l. að koma í veg fyrir þetta, en ég er ekki sérstaklega bjartsýnn hvað það snertir, að takmarkinu verði náð með þessum ákvæðum. Ég geri ráð fyrir því, að þetta sé framkvæmdaratriði og að koma mætti í veg fyrir það með aðgangsfrekari aðgerðum. Þegar um vöruþurrð er að ræða, eins og hér er, getur hins vegar ekkert ríkisvald algerlega hindrað svartamarkaðsbrask, og hefur það m. a. sýnt sig í Englandi seinni part stríðsins og eftir stríðið. Englendingar hafa verið í vandræðum með að koma í veg fyrir svartan markað. Sjálfsagt er að gera allt, sem hægt er, en það verður ekki komið í veg fyrir þetta nema með frjálsræði í verzlun og nægilegu framboði á vörum. Frjálsræði í verzlun er undirstaðan. Hömlur og vöruþurrð eru uppspretta svartamarkaðsbrasks, sem allir vilja vera lausir við. Mér virðist því gr., eins og hún er nú, að nokkru leyti óþörf og að öðru leyti varhugaverð. Ég vildi beina því til hv. flm., hvort ekki væri rétt að taka hana til nánari athugunar. Annars geri ég ráð fyrir því, að allir þm. séu með því að koma í veg fyrir slíka verzlunarhætti.